Allar heilbrigðsstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi verða sameinaðar

Allar heilbrigðsstofnanir og heilsugæslustöðvar á Norðurlandi, þar með talið Heilsugæslan á Dalvík, verða sameinaðar í eina undir forystu FSA á Akureyri, sem verður Heilbrigðisstofnun Norðurlands samkvæmt skipulagsbreytingum í heilbrigðisþjónustu sem Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra kynnti í gær og taka eiga gildi 1. mars nk. Þá á að auka samstarf milli Heilbrigðisstofnunar Austurlands og FSA.

Guðlaugur Þór upplýsti að boðaðar breytingar á heilbrigðisþjónustunni muni skila hagræðingu upp á 1.300 milljónir króna, þar af 750 milljónir á suðvesturhorni landsins og 550 milljónir á landsbyggðinni. Stofnaðir verða vinnuhópar sem munu útfæra breytingarnar nánar og skila þeirri vinnu fyrir 19. janúar nk. 

Verið er að skoða að færa verkefni út á land, m.a. innheimtu og endurhæfingu. Einnig verið að skoða að nýta betur hjúkrunarrými út á landi. Þá á að færa sérgreinalækningar út á land, og gefa heilbrigðisstofnunum aukið tækifæri á að taka á slíkum verkefnum.

Guðlaugur segist ætla að beita sér fyrir því að færa fleiri verkefni til sveitarfélaga, eins og heilsugæslu og heimahjúkrun. Viðræður um það munu fara af stað fljótlega. Breyta á fyrirkomulagi lyfjamála og útfæra betur rafræna sjúkraskrá.

Frétt fengin af www.dagur.net