Álagning fasteignagjalda 2026 í Dalvíkurbyggð
Álagningu fasteignagjalda er lokið hjá Dalvíkurbyggð og verða álagningarseðlar brátt aðgengilegir fasteignaeigendum í þjónustugátt sveitarfélagsins og á www.island.is.
Álagningarseðlar eru ekki sendir út á pappír, í samræmi við markmið um stafræna stjórnsýslu, og sparar það bæði fé og fyrirhöfn fyrir utan að vera mun umhverfisvænna. Fasteignagjöldin eru innheimt í gegnum netbanka þar sem jafnframt er hægt að prenta út greiðsluseðil. Hægt er að óska eftir heimsendum álagningarseðlum og/eða greiðsluseðlum á netfanginu dalvikurbyggd@dalvikurbyggd.is eða í síma 460-4900.
Álagning dreifist líkt og áður á 10 gjalddaga á tímabilinu 5. febrúar til 5 . nóvember og eindagi er 30 dögum síðar. Ef fjárhæð fasteignagjalda er undir 40.000 kr. er aðeins einn gjalddagi, 5. febrúar 2026.
Álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði var lækkuð úr 0,50% í 0,44% milli ára en álagningarprósentur fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði og lóðarleigu eru óbreyttar frá fyrra ári. Gjaldstofn til álagningar fasteignaskatts og lóðarleigu er fasteignamat HMS.
Gjaldskrá vatnsveitu og gjaldskrá sorphirðu hækkuðu um 3,2% en gjaldskrá fráveitu hækkaði ekki á milli ára.
Hér er hægt að nálgast upplýsingar um álagningarprósentur vegna fasteignaskatts og lóðarleigu.
Hér er hægt að nálgast gjaldskrá Vatnsveitu Dalvíkurbyggðar.
Hér er hægt að nálgast gjaldskrá Fráveitu Dalvíkurbyggðar.
Hér er hægt að nálgast gjaldskrá vegna sorphirðu.
Heildarálagning fasteignagjalda árið 2026 er kr. 620.558.656. Eftirfarandi tafla sýnir skiptingu niður á gjaldflokka. Þar af eru tilgreindar fjárhæðir niður á gjaldflokka fyrir íbúðarhúsnæði.

Afsláttur til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti er samtals kr. 8.451.193. Alls fá 116 elli- og örorkulífeyrisþegar afslátt af fasteignaskatti í ár. Hér er hægt að nálgast reglur Dalvíkurbyggðar um afsláttinn, en ekki þarf að sækja sérstaklega um.
Mikilvægt er að fasteignaeigendur gangi úr skugga um að upplýsingar um fasteignir þeirra séu rétt skráðar. Ef upplýsingarnar eru ekki réttar, þá skal koma athugasemdum á framfæri við byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar sem sér um skráningu fasteigna í fasteignaskrá HMS.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sér um að ákvarða fasteignamat hverju sinni. Ef eigendur fasteignar telja að fasteignamat hennar endurspegli ekki matsverð þá er hægt að gera athugasemd við það til HMS (Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar) eða sækja um endurmat.
Athugasemdum til Dalvíkurbyggðar vegna álagningargjalda og/eða athugasemdum til byggingarfulltrúa vegna skráningar er hægt að koma á framfæri með því að senda tölvupóst á dalvikurbyggd@dalvikurbyggd.is