50 manns á æskulýðsmóti

Dagana 26. júní – 6. júlí fór fram í Dalvíkurbyggð æskulýðsmót – Youth Exchange – þar sem saman komu ungmenni frá Spáni, Slóvakíu, Danmörku og einnig héðan úr Dalvíkurbyggð. Alls voru þátttakendur 40 talsins en auk þeirra voru leiðbeinendur frá öllum löndunum þannig að í heildina voru um 50 manns sem voru starfandi saman þessa daga.

Félagsmiðstöðin naut styrkja frá skrifstofu Ungmennaáætlunar Evrópusambandsins til að halda mótið, en áætlunin skiptist í marga athyglisverða þætti þar sem allir ættu að geta fundið sér grundvöll til fræðslu og skemmtunar með þátttakendum frá ólíkum þjóðum.


Mótið hét „Bright Arctic Nights“ í anda þess að við nýttum okkur langar sumarnætur við ýmis verkefni af fjölbreyttum toga. Aðalyfirskrift eða þema mótsins voru umhverfismál svo og Evrópsk samvitund. Unnin voru fjölmörg verkefni um umhverfismálefni t.d. endurvinnslu, nýting auðlinda, umgengni um náttúruna og auðlindir hennar, nýting orku og fleira. Tvær ferðir voru farnar í tengslum við þessi verkefni og þær nýttar til gagnaöflunar um leið og þátttakendur nutu íslenskrar náttúru. Farið var til Grímseyjar og austur að Mývatni og alla leið til Dettifoss. Komið var við í Kröflu og hún skoðuð auk þess að þátttakendur fengu bæklinga, horfðu á myndband og öfluðu sér upplýsinga.


Önnur verkefni fjölluðu um það hvað þáttakendur svo víða að í Evrópu eiga sameiginlegt og hver væri aðalmunurinn á milli þjóðanna. Rætt var um staðalímyndir og hvernig þátttakendur sjá fyrir sér sameinaða Evrópu þar sem menn gætu lifað í sátt og samlyndi. Til viðbótar spannst umræða um fordóma, fáfræði og skilningleysi og nauðsyn þess að átta sig á því að ekki er allt sem sýnist við fyrstu sýn...allir eiga skilið tækifæri til að sanna verðleika sína á einhverjum sviðum.


Vinna á mótinu var unnin undir formerkjum óformlegs náms, þ.e. þátttakendur unnu verkefni sem hvöttu þau til umræðna og athafna sem svo kenndi þeim ýmislegt um leið og það fór fram. Ýmislegt kom fram sem varð til þess að allir höfðu eitthvað fram að færa og menn lærðu af hver öðrum. Ungmennaáætlun Evrópusambandsins hvetur einnig þátttakendur til að nýta sér óformlegt nám við úrlausn verkefna. Hluti af óformlegu námi fer fram í formi leikja en þeir léku stórt hlutverk á mótinu. Farið var í ísbrjóta flesta daga og ýmsa leiki þar sem leystar voru þrautir og tekist á við ýmis verkefni í hópum. Á kvöldin fór fram útvarpsrekstur þar sem alllir fengu tækifæri til að kynna tónlist frá eigin landi og tekið var við óskalögum fram eftir nóttum.


Undir lok mótsins héldum við heilmikla sýningu í íþróttahúsinu þar sem sýndur var dans af ýmsu tagi, fimleikadanssýning, stomp hljómverk var framið og einnig sýndum við afrakstur verkefna mótsins. Ekki sáu margir sér fært að koma og kynna sér þetta þrátt fyrir að auglýsing hafi verið borin í hvert hús í sveitarfélaginu.


Forstöðumaður landskrifstofu ungmennaáætlunarinnar, Anna Möller, var svo vinsamleg að líta í heimsókn til okkar og taka þátt í starfinu einn dag. Hún kunni vel að meta það sem fram fór og skemmti sér hið besta og kunnum við henni bestu þakkir fyrir heimsóknina og góðan fyrirlestur sem hún hélt um Ungmennaáætlun Evrópusambandsins.


Þetta var þrettánda árið sem félagsmiðstöð ungmenna í Dalvíkurbyggð tekur þátt í verkefnum sem njóta styrkja Ungmennaáætlunar Evrópusambandsins og í þriðja skipti sem mót er haldið hér heima. Það er ungmennunum ómetanleg reynsla að fá að taka þátt hverju sinni og víkkar það sjóndeildarhring þeirra og opnar augu fyrir hlutum og málum sem annars væru þeim hulin. Það er þakkarvert að okkur skuli gefast tækifæri til að taka þátt á hverju ári og að okkur skuli vera gert það kleift í gegn um rekstur félagsmiðstöðvarinnar og nemendafélagsins auk þess að við njótum velvildar þeirra sem útluta styrkjum til þessarra verkefna. Fyrir það ber að þakka svo og viljum við koma á framfæri þökkum til þeirra sem aðstoðuðu okkur með vinnu, láni á aðstöðu eða tækjum eða á annan hátt meðan á mótinu stóð.

Bjarni Gunnarsson, íþrótta - og æskulýðsfulltrúi