1000 vörubílar af snjó

1000 vörubílar af snjó

Veturinn í vetur hefur verið sá snjóþyngsti hér í Dalvíkurbyggð um árabil. Það byrjaði að snjóa af alvöru í lok október á síðasta ári og síðan hefur snjórinn hlaðist jafnt og þétt upp í myndarlegar snjóstæður, sums staðar margra metra djúpar. Íbúar eru farnir að huga að vorinu sem vonandi er á næsta leyti og sums staðar er búið að moka niður á grillin. Snjómoksturstæki hafa haft nóg að gera og götur að mestu orðnar auðar. Hjólin hafa verið dregin fram og gleðja unga sem aldna eftir að hafa öslað og kafað snjóinn síðustu mánuði.

Með vorið á næstu grösum þarf að huga að ýmsum vertíðum sumarsins. Fótboltinn skipar þar stóran sess. Fótboltaáhugamenn hafa þó hugsað með hryllingi til komandi sumars því yfir íþróttasvæðinu á Dalvík hefur legið hátt í tveggja metra þykkt snjóteppi. Fyrsti heimaleikur meistaraflokks Dalvíkur/Reynis er 4. maí næstkomandi en þá er bikarleikur gegn Hömrunum. Þann 25. maí er síðan fyrsti heimaleikur í deildinni. Til þess að bregðast við þessu ástandi og hjálpa svæðinu að losa sig við snjóinn var bruðið á það ráð að moka og blása burtu hluta af snjónum. Síðustu daga hafa því snjótroðari skíðafélagsins og tvær vinnuvélar hamast við að moka burtu snjó en mönnum reiknast til að samtals sé búið að moka og blása burtu af vellinum um 12.000 rúmmetrum af snjó. Það eru um það bil 1000 vörubílar.

Hér á bæ óskum við þess því bara að veðurspá Veðurklúbbsins á Dalbæ fyrir komandi mánuði gangi eftir en þar er gert ráð fyrir suðlægum áttum og ríkir því almenn bjartsýni fyrir veðurfar komandi mánuða.