Vorhreinsun í Dalvíkurbyggð

Vorhreinsun í Dalvíkurbyggð

Árviss vorhreinsun á Dalvík hefst föstudaginn 18. maí og stendur til 21. maí en þá taka allir höndum saman, íbúar og starfsmenn sveitarfélagsins, um að hreinsa og fegra umhverfi sitt. Dalvíkurbyggð hvetur íbúa til að hreinsa lóðir sínar. Starfsmenn sveitarfélagsins verða svo á ferðinni og fjarlægja garðúrgang sem fólk hefur sett utan við lóðarmörk sín. Einnig er bent á garðaúrgangsgám á gámasvæðinu á Dalvík. Almennt sorp sem fólk safnar saman á opnum svæðum á að fara í poka og setja á áberandi stað þar sem starfsmenn sveitarfélagsins fjarlægja það síðan.

Á Hauganesi ætla íbúasamtökin að hafa almennan hreinsunardag á Uppstigningardag 10. maí, gámar verða staðsettir við Aðalgötuna á Hauganesi.  

Íbúasamtökin á Árskógssandi verða með almennan hreinsunardag miðvikudaginn 30. maí, gámar verða við Ægisgötu 25 á Árskógssandi. 

Athugið:

- Garðaúrgang skal setja út við lóðamörk í pokum, greinaafklippur (langar greinar) skal binda í knippi.
- Óheimilt er að flytja lausan jarðveg út fyrir lóðamörk og verður slíkt fjarlægt á kostnað lóðarhafa.
- Ekki verður fjarlægt rusl af byggingarlóðum.
- Íbúar þurfa sjálfir að koma spilliefnum í endurvinnslustöð, enn fremur timbri, málmum og öðru rusli.

Heil tré eða trjástofnar verða ekki fjarlægðir af starfsmönnum sveitafélagsins.

Járn:
Brotajárn á að fara í járnagáma á gámasvæði. Bændur eru hvattir til að fara með allt brotajárn að þjóðvegi þar sem það verður sótt dagana 22. til 23. maí.

Bifreiðar, bílflök og aðrir lausafjármunir:
Á sama tíma mun Heilbrigðiseftirlitið líma tilkynningar um að fjarlægja bifreiðar og lausafjármuni sem standa á víðavangi og í kjölfarið láta fjarlægja þá á kostnað eigenda ef ekki verður brugðist við.

Gámar:
Gámaeigendur eru beðnir um að fjarlægja alla lausamuni ofan af gámum, og það sem liggur í kringum þá. Að öðrum kosti verður þeir fjarlægðir á kostnað eigenda.