Vinnuskóla Dalvíkurbyggðar formlega lokið

Nú er starfi Vinnskóla Dalvíkurbyggðar formlega lokið þetta sumarið en þó eru nokkrir eldri starfsmenn og flokkstjórar að vinna lengur fram á haustið við frágang ýmissa verkefna.

Samtals voru starfsmenn vinnuskólans 67 þetta sumarið en hópurinn samanstóð af garðyrkjustjóra, yfirflokkstjóra, 8 flokkstjórum, 12 manna eldri hóp sem starfaði undir stjórn garðyrkjustjóra og 45 unglingum fæddum á árunum 1993-1995. 

Unglingunum var skipt upp í fimm hópa og hver þeirra hafði sitt sérsvið fyrir sumarið. Tveir þeirra sáu um slátt á einkalóðum fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja. Í ár sá vinnuskólinn um slátt á 82 einkalóðum (sem er 8 meira en í fyrra) og þær voru slegnar alls 263 sinnum eða rúmlega þrisvar sinnum hver, en þess ber að geta að nokkrar þessara lóða voru aðeins slegnar einu sinni. Þriðji hópurinn sá um slátt og viðhald á ýmsum opnum svæðum í bæjarfélaginu ásamt tiltekt í Hrísahöfða. Fjórði hópurinn sá um að halda beðum bæjarins hreinum, viðhaldi leikvalla ásamt ýmiskonar málningarvinnu til dæmis kantsteinamálningu. Fimmti hópurinn var skipaður unglingum frá Árskógsströnd og gekk hann í öll þau verk sem þurfti að vinna þar.


Þessir fimm hópar fóru svo reglulega og tíndu upp rusl á götum byggðarlagsins og meðfram þjóðveginum. Auk þess sá vinnuskólinn um tæmingu heimilisruslatunna á miðvikudagsmorgnum og útveguðu síðan starfsmenn til að vera á ruslabílnum seinna um daginn.


Eldri hópurinn sem starfaði undir stjórn garðyrkjustjóra starfaði við margvísleg verkefni. Má þar helst nefna orfavinnu, þar sem slegið var með orfi í kringum jaðarsvæði bæjarins, lúpína í Böggvisstaðafjalli og við skógarreit var slegin ásamt kerfli víðsvegar um bæinn. Þá sá eldri hópurinn einnig um að hirða upp gras eftir sláttuhópana og koma því á losunarstað. Eldri hópurinn sá líka um ýmsa málningarvinnu, hreinsun eftir klippingar, viðhald verkfæra, borða og bekkja auk þess sem þau hlupu stöku sinnum í skarðið sem flokkstjórar auk margs annars.

Allt sumarið var lögð á það rík áhersla að krakkarnir lærðu rétt vinnubrögð, notuðu verkfærin rétt og bæru virðingu fyrir starfinu og reglum vinnuskólans. Með þessu voru þau undirbúin fyrir störf á almennum vinnumarkaði.

Skýrsla um störf vinnuskólans 2009