Opið bréf frá starfsfólki Húsabakkaskóla

7. okt. 2004

Bréf frá starfsfólki Húsabakkaskóla

Til Fræðsluráðs Dalvíkurbyggðar

 og Bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar.

 

Ágæta fræðsluráð og bæjarstjórn.

Tilefni þessa bréfs er það að í gær var gerð opinber skýrsla Skólaþróunarsviðs kennaradeildar Háskólans á Akureyri: "Hagkvæmnisathugun á færslu starfsemi Húsabakkaskóla til Dalvíkurskóla."

 Í skýrslunni má m.a. lesa að hún er unnin  samkvæmt óskum fræðsluráðs í bréfi dagsettu 21.maí 2004. Þar er nefnd tillögugerð fræðsluráðs til bæjaryfirvalda varðandi annars vegar ýmis hagræðingaratriði sem snerta almennt skólahald á svæðinu og "hins vegar er um að ræða gagngerar breytingar á skólaskipan í þá átt að fækka kennslustöðum/skólum um einn þannig að eftir verði tveir sjálfstæðir grunnskólar, á Dalvík og í Árskógi. Húsabakkaskóli yrði lagður niður eða sameinaður Dalvíkurskóla enda aðeins 6 km á milli þeirra og nánast helmingur nemenda frá Dalvík." Í framhaldi af því mun væntanlega á allra næstu dögum liggja fyrir ákvörðun Fræðsluráðs og síðar Bæjarstjórnar sem við óttumst, með tilliti til skýrslunnar og hvernig að málum hefur verið staðið að hálfu fræðsluráðs, að verði dauðadómur yfir skólahaldi á Húsabakka.

 Óhætt er að segja að umrætt erindi fræðsluráðs til HA hafi komið okkur starfsfólki Húsabakkaskóla verulega í opna skjöldu enda augljóst að svokölluð umræða um framtíð skólastarfs í Dalvíkurbyggð hefur fyrst og fremst snúist um hagkvæmni þess að leggja Húsabakkaskóla niður og það strax næsta haust þrátt fyrir að málefnasamningur meirihluta bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar kveði á um að allir grunnskólar sveitarfélasins verði starfræktir út kjörtímabilið. Þess má geta að umrædd beiðni til HA var afgreidd á fundi ráðsins 19. maí sem trúnaðarmál.

Verklag fræðsluráðs í þessu máli verður að teljast með ólíkindum og allt á þessum sömu nótum.  Fræðsluráð hefur á undanförnu einu ári eða svo haldið á milli 10 og 20 lokaða vinnufundi um "framtíðarskipan skólamála í Dalvíkurbyggð" þar sem hvorki hafa verið boðaðir skólastjórar né aðrir áheyrnarfulltrúar  og þrátt fyrir ítrekuð formleg mótmæli skólastjóra Húsabakkaskóla þverbrotið með því stjórnsýslulög samkvæmt áliti bæjarlögmanns Dalvíkurbyggðar. Aldrei á þessu ferli var rætt við starfandi kennara eða starfsfólk í Húsabakkaskóla. Í greinargerð formanns fræðsluráðs 7. júní sl. um efni viðkomandi vinnufunda kemur ekkert fram um að rætt hafi verið um málefni Húsabakka sérstaklega. Sú greinargerð birtist  þó rúmum hálfum mánuði eftir að óskað var eftir því að HA gerði hagkvæmnisáætlun með tilliti til lokunar Húsabakkaskóla.

Við kennarar og starfsfólk Húsabakkaskóla hljótum að mótmæla þessum forkastanlegu vinnubrögðum og þeirri vanvirðu sem starfi okkar og vinnustað er sýndur með þessum hætti.  Það verður ekki annað séð en að aðfarir fræðsluráðs, þvert á stjórnsýslulög og almenn lýðræðisleg vinnubrögð hafi markvisst beinst að því að leyna okkur og öllum almenningi efni lokaðra funda sinna,  þ.e. undirbúningi þess að Húsabakkaskóli verði lagður niður. Ráðið hefur þannig forðað því að kennarar, foreldrar og allur almenningur sem málið varðar hafi nokkuð um það að segja á opinberum vettvangi fyrr en seint og um síðir.

Þessu mótmælum við.

Í allri umræðu, skrifum og skýrslum um framtíðarskipan skólamála í Dalvíkurbyggð hefur kastljósið nær eingöngu beinst að kostnaði þess að halda skólanum úti og hvað mikið megi spara í beinhörðum peningum með því að leggja hann niður. Í Skýrslu Háskólans kemur fram að spara megi 27- 30 milljónir árlega. Við munum  ekki gera tilraun til að hrekja þá útreikninga þó við drögum mjög í efa að sparnaðurinn verði svo mikill þegar öll kurl eru komin til grafar.

Það sem öllu máli skiptir er hins vegar hvaða þjónusta fæst fyrir umræddar krónur og aura og hvaða andlegu og menningarlegu verðmætum er verið að kasta á glæ verði skólinn lagður niður.  

Hvort sem rætt er við foreldra  eða aðra sem þekkja til Húsabakkaskóla ber öllum saman um að þar fer fram og hefur um langan tíma farið fram óvenju gott og farsælt skólastarf. Umfjöllun um Húsabakkaskóla hefur þannig alltaf verið áberandi jákvæð og margir skólar og skólamenn hafa sótt hingað fyrirmyndir, Kennaraháskólarnir keppast við að koma hingað nemendum í æfingakennslu og barnafólk sem flutt hefur í Svarfaðardal undanfarin ár nefnir jafnan fjölbreytt og metnaðarfullt skólastarf á Húsabakka sem eina aðalástæðu þess að þeir fluttu hingað.

Það er því ekki um að ræða að verið sé að loka úreltri eða deyjandi stofnun. Þvert á móti stendur til að svipta sveitarfélagið og íbúa þess einni blómlegustu stofnun þess, vel reknum, metnaðarfullum skóla, miðstöð mannlífs og menningarlífs í Svarfaðardal.

Ein af forsendunum sem fræðsluráð og  Skólarannsóknadeild HA gefa sér fyrir því  að skólastarf í Húsabakkaskóla  sé í uppnámi er að skólabörnum í Svarfaðardal fer fækkandi og hlutfall nemenda frá Dalvík nálgist helming nemenda. Við lítum hins vegar svo á að í þessu liggi lykillinn að framtíð Húsabakkaskóla. Skólanum hefur þrátt fyrir fækkun nemenda í sveitinni og ýmsan mótbyr annan lánast að halda uppi nemendatölu með nemendum frá Dalvík og víðar að og eftirsókn eftir skólavist þar eykst stöðugt. Jafnvel í vetur þegar hávær umræða hefur verið um lokun skólans alls staðar út á meðal fólks hafa umsóknir um skólavist aldrei verið fleiri frá foreldrum á Dalvík.

Með því að skólar sveitarfélagsins verði áfram reknir samhliða gefst foreldrum í Dalvíkurbyggð kostur á að velja  á milli mjög ólíkra skóla með ólíkar áherslur allt eftir því hvað hentar hverju barni. Þessi fjölbreytni í skólastarfi gerir sveitarfélagið að góðum búsetukosti og ætti skilyrðislaust að halda á lofti sem einu af aðalsmerkjum Dalvíkurbyggðar.

Húsabakkaskóli hefur jafnan haft á að skipa úrvals starfsfólki og nýtur þess að hingað sækja góðir og vel menntaðir kennarar og starfsfólk. Það er þó ekki eingöngu góðu starfsfólki að þakka að skólastarfið er farsælt og gott.  Farsæld Húsabakkaskóla liggur fyrst og fremst í eðli, stærð og samfélagslegri stöðu skólans sjálfs.

Í Húsabakkaskóla eru fáir nemendur í hverjum árgangi og því samkennsla milli aldurshópa eðlilegur þáttur skólastarfsins. Fámennið og samkennslan hefur ýmsa kosti:

Auðveldara er að halda úti einstaklingsbundinni kennslu og einstaklingsmiðuðum námsáætlunum og hver nemandi fær notið sín bæði náms-og félagslega á sínum eigin forsendum.

Félagsleg samábyrgð nemenda er áberandi meiri á Húsabakka en í stærri skólum. Eldri og yngri nemendur sækja félagsskap í aðra aldurshópa og þeir eldri bera ábyrgð á þeim yngri. Í skólabílunum, á skólalóðinni, í mötuneyti og víðar kemur þessi samábyrgð fram. Þannig inniber skólagerðin í sér ýmsa þá lífsleikni sem kveður á um í námskrá.

Sökum smæðar skólans hefur skapast ákveðinn fjölskyldubragur í Húsabakkaskóla og við slíkar aðstæður er jafnan auðvelt að leysa þau vandamál sem upp koma og hafa oft miklar fundarsetur og vinnu í för með sér í stærri skólum.

Þá er bæði stærð skólans og miðlægri stöðu í Svarfaðardal svo fyrir að þakka að foreldrasamstarf er mikið og virkt við skólann. Viðhorf foreldra til skólans hefur alla tíð verið einstaklega gott og slík jákvæðni skilar sér margfalt gegnum nemendur inn í skólann og skólastarfið.

Húsabakkaskóli hefur um langan aldur tekið við börnum sem hafa þurft fyrir milligöngu félagsmálastofnana að komast í annað umhverfi og undantekningalaust hefur þeim einstaklingum vegnað vel í skólanum.

Tvær mælingar hafa verið gerðar á einelti í Húsabakkaskóla og báðar sýndu þær þá niðurstöðu að einelti fyrirfyndist þar ekki.

Skólinn leggur áherslu á list- og verkgreinar, íþróttir og útivist. Með því móti hefur þeim nemendum sem ekki hentar bóklegt nám gefist aukinn kostur á að vinna að verkefnum við sitt hæfi. St