Niðurstöður viðhorfskönnunar

Niðurstöður viðhorfskönnunar

Í desember 2005 vann IMG Gallup könnun fyrir Dalvíkurbyggð meðal íbúa sveitarfélagsins þar sem mældir voru ýmsir þættir varðandi þjónustu sveitarfélagsins og búsetu og lífsgæði í sveitarfélaginu. Þar með slæst Dalvíkurbyggð í hóp þeirra sveitarfélaga sem markvisst mæla viðhorf íbúa og verða niðustöðurnar ávallt hafðir til hliðsjónar þegar þjónusta sveitarfélagsins er til skoðunar, hvort heldur sem er til að gera ennþá betur heldur en nú er gert eða til að viðhalda þeim þáttum sem koma vel út.

 Úrtakið var handahófsvalið úr þjóðskrá, 500 manns á aldrinum 18-75 ára. Svarhlutfall var 78,4%

 Niðurstöður könnunarinnar eru mjög jákvæðar fyrir sveitarfélagið allt, starfsmenn Dalvíkurbyggðar og ekki síst íbúa þess en alls segjast 85% íbúa ánægðir með að búa í sveitarfélaginu, þar af 45% mjög ánægðir.

 Helstu niðurstöður könnunarinnar eru eftirfarandi.

Íbúar ánægðir með búsetu í Dalvíkurbyggð og mæla hiklaust með búsetu þar

85% íbúa eru ánægðir með búsetu í Dalvíkurbyggð samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar, en aðeins tæp 6% sagðist vera óánægðir. Einnig segjast 76,9% íbúa líklegt að þeir myndu mæla með búsetu í Dalvíkurbyggð og þar af voru 45,3% sem sögðu það mjög líklegt að þeir myndi mæla með búsetu í Dalvíkurbyggð. Fáir sjá það fyrir sér að flytja innan tveggja ára, 15,7% sögðu það líklegt en tæp 80% ólíklegt.

Ánægja með búsetu

Afgerandi ánægja með uppvaxtarskilyrði barna og unglinga sem og gæði menntunar á grunnskóla- og leikskólastigi

Þegar spurt var um þjónustu leikskóla töldu 85,7% hana góða og 79,1% töldu þá menntun sem grunnskólarnir bjóða upp á góða. Einnig var spurt um líkur á því að svarandinn eða einhver í hans fjölskyldu myndi sækja framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð yrði hann stofnaður. Þar svöruðu 65,5% því til að það væri líklegt en 30,1% ólíklegt.  Íbúar eru líka ánægðir með aðstöðu til tómstunda - og íþróttaiðkunar, en þar segjast 64,8% vera ánægð. 87,8% svarenda eru ánægð með uppvaxtarskilyrði fyrir börn og unglinga í sveitarfélaginu og er það í samræmi við almenna ánægju íbúa með grunn - og leikskóla, sem og aðra aðstöðu fyrir börn og unglinga.

 

Ánægja með uppvaxtarskilyrði barna og unglinga

Íbúar mjög ánægðir með þjónustu á vegum sveitarfélagsins.

Almennt eru íbúar mjög ánægðir með þá þjónustu sem sveitarfélagið er að veita. Sem dæmi má nefna að alls þykir 91,7% þjónusta Sundlaugar Dalvíkur góð og 89,2% finnst þjónusta Bókasafns Dalvíkur og Héraðsskjalasafns Svardæla góð. 77,2% íbúa eru ánægð með þjónustu veitna og 64,5% íbúa eru ánægð með félagsþjónustuna.

Mikill meirihluti íbúa sækir vinnu í Dalvíkurbyggð en álíka margir svarendur telja auðvelt að fá starf við hæfi í Dalvíkurbyggð og telja það erfitt.

46,5% svarenda sögðust telja auðvelt að fá starf við hæfi í Dalvíkurbyggð á meðan 48,3% töldu það erfitt. 68,6 % svarenda sækja vinnu eða nám í Dalvíkurbyggð en 18% annað og verður sú niðurstaða að teljast mjög jákvæð.

 

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér nánar innihald skýrslunnar má fara inn á Um Dalvíkurbyggð en þar er tengill sem heitir viðhorfskönnun. Einnig er hægt að smella hér.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá upplýsingfulltrúa, Margréti Víkingsdóttur, í síma 460-4908 og á netfangið margretv@dalvik.is