Málefni hótelskipsins Hanza

Vegna fréttar sem birtist í vefútgáfu DV 19. maí sl. um að umsókn fyrir hótelskipi í Dalvíkurhöfn hafi verið hafnað er mikilvægt að hið rétta komi fram.
Aðdragandi málsins er sá að aðstandendur hótelskipsins Hansa komu á fund veitu- og hafnarráðs, sem þá var, á síðasta kjörtímabili fyrir um ári síðan. Þar voru áform þeirra um hótelskipið fyrst kynnt. Síðastliðið vor bárust síðan fregnir af því í fjölmiðlum að hótelskipinu væri ætlaður staður í Hafnarfjarðarhöfn og viðræður hafnar við Hafnarfjarðarbæ um framtíðarstaðsetningu skipsins. Ekki varð því um frekari samskipti aðila vegna málsins á þeim tíma.

Í október sl. settu aðstandendur hótelskipsins sig aftur í samband við Dalvíkurbyggð og óskuðu eftir því að kynna hugmyndir sínar fyrir nýju veitu- og hafnaráði. Sú kynning var auðsótt og fór fram u.þ.b. hálfum mánuði síðar og fékk málið svo kynningu í öðrum nefndum sveitarfélagsins í framhaldinu s.s. atvinnumála- og kynningaráði auk umhverfisráðs og byggðaráðs.
Nokkur óformleg símtöl áttu sér einnig stað á milli embættismanna Dalvíkurbyggðar og aðstandenda hótelskipsins á þessum tíma. Af þeim samtölum að dæma var ljóst að Hafnarfjarðarhöfn hafði áætlað kostnað upp á 150 milljónir við aðstöðusköpun fyrir hótelskipið og við það gátu eigendur hótelskipsins ekki unað og ákváðu því að leita á önnur mið. Í kringum mánaðarmótin nóvember/desember sl. ár bárust fregnir frá Hafnarfjarðarbæ að þeir undruðust fréttir fjölmiðla af því að Dalvíkurbyggð væri í viðræðum við aðstandendur hótelskipsins. Í þeim samræðum við embættismenn Hafnarfjarðarbæjar kom í ljós að málið var enn opið hjá þeim og viðræðum aldrei verið slitið.

Aðstandendum hótelskipsins var þá gert grein fyrir að þeir þyrftu að ljúka málinu gagnvart Hafnarfjarðarbæ og senda svo formlegt erindi til Dalvíkurbyggðar. Það erindi, umsókn og spurningarlisti, barst Dalvíkurbyggð 18. janúar sl. Því erindi var svarað 29. janúar sl. Þann 5. mars sl. barst sveitarfélaginu svarerindi frá aðstandendum hótelskipsins þar sem þökkuð voru skjót svör og lagðar fram frekari spurningar varðandi kostnað við aðstöðusköpun. Þessu erindi svaraði sveitarfélagið þann 13. mars sl. og var aðstandendum þá einnig bent á að þeir þyrftu að fá úr því skorið hjá Mannvirkjastofnun og Samgöngustofu hvort um mannvirki eða skip væri að ræða. Það var talið mikilvægt til að ákvarða hvort um væri að ræða fasteigna- eða hafnargjöld. Sveitarfélagið hafði áður sett sig í samband við umræddar stofnanir en engin skýr svör fengið þar sem meiri upplýsingar um skipið/mannvirkið þyrfti frá eigendum til að fá úr þessu skorið.
Þann 21. apríl sl. var sendur tölvupóstur til aðstandenda hótelskipsins þar sem óskað var eftir því hver staða málsins væri. Ekkert svar hefur borist og hefur sveitarfélagið því ekkert heyrt frá aðstandendum hótelskipsins frá 5. mars. Þann 28. apríl sl. birtist auglýsing í Morgunblaðinu þar sem hótelskipið var auglýst til sölu/leigu og svo umrædd frétt í DV þann 19. maí sl.

Auglýsingin í Morgunblaðinu 28. apríl og fréttin í DV 19. maí kom stjórnendum hjá Dalvíkurbyggð mjög á óvart og er hvorugt til að auka traust á milli aðila.

Frá því eftir sveitarstjórnarkosningar fyrir tæpu ári síðan hefur verið unnið að undirbúningi deiliskipulags Dalvíkurhafnar. Ljóst er að þetta mál hefur tafið þá vinnu talsvert enda hefur hótelskipið og aðstöðusköpun fyrir það verið með í drögum og teikningum að deiliskipulaginu sem komið hafa til umfjöllunar ráðsins á undanförnum mánuðum. Hótelskipið er 80 metra langt og til samanburðar er Björgvin EA-311 um 50 metra langur. Vegna lengdar skipsins hefur ekki verið talið forsvaranlegt að finna því stað við núverandi hafnarkanta til svo langs tíma eins og rætt hefur verið um eða um 10 ára. Hins vegar hefur verið reiknað út að með því að koma því fyrir í krikanum syðst í Dalvíkurhöfn með útgreftri úr höfninni mætti finna því samastað fyrir um 50 milljónir. Inni í þeirri tölu eru veitutengingar s.s. hitaveita, fráveita og vatnsveita. Aðrar hugmyndir hafa einnig verið teiknaðar upp en þær eru enn kostnaðarsamari fyrir eigendur skipsins.

Á fundi veitu- og hafnaráðs þann 13. maí sl. var farið yfir teikningar af deiliskipulagi þar sem ekki var gert ráð fyrir hótelskipinu enda ekkert heyrst frá aðstandendum hótelskipsins frá 5. mars þrátt fyrir að sendur hafi verið tölvupóstur þann 21. apríl þar sem óskað var eftir upplýsingum um stöðu mála. Það eina sem veitu- og hafnaráð hafði frétt af hótelskipinu fyrir fund þess þann 13. maí sl. var umrædd sölu/leigu auglýsing í Morgunblaðinu frá 28. apríl.

Af framangreindu má lesa að engin ákvörðun hefur verið tekin í veitu- og hafnaráði enn sem komið er hvort hótelskipið Hansa fái aðstöðu í Dalvíkurhöfn. Aðstandendum hótelskipsins hefur þó verið svarað hvað slík aðstöðusköpun kostar og er það svo endanlega sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar að samþykkja slíka heimild.

Þegar endanlegar tillögur veitu- og hafnaráðs um deiliskipulag Dalvíkurhafnar eru tilbúnar þá munu þær fara í kynningarferli og fyrir umhverfisráð sem gerir síðan tillögu til sveitarstjórnar til samþykktar.

Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð hafnar því að einhver “öfl” hafi áhrif á ákvarðanatöku innan sveitarfélagsins. Sveitarfélagið starfar eftir sveitarstjórnar- og stjórnsýslulögum og þarf ávallt að gæta jafnræðis og meðalhófs. Í þessu máli hefur stjórnsýsla Dalvíkurbyggðar staðið afskaplega vel að málum eins og lög og reglur kveða á um. Af öllu þessu sögðu er ljóst að frétt vefútgáfu DV frá 19. maí á ekki við rök að styðjast.


Dalvíkurbyggð 26. maí 2015

F.h. Dalvíkurbyggðar
Bjarni Th. Bjarnason
Sveitarstjóri