Húsakönnun - pistill frá Kristjáni Hjartarsyni

Húsakönnun - pistill frá Kristjáni Hjartarsyni

Ágætu sveitungar. Þetta greinarkorn er hið fyrsta af slíkum sem ákveðið hefur verið að við bæjarfulltrúar hér í Dalvíkurbyggð skrifum á heimasíðu sveitarfélagsins á komandi mánuðum. Það er ætlunin að við veljum okkur eitthvert efni til að fjalla um, gjarnan eitthvað jákvætt sem er að gerast hér eða ánægjulegt. Ég ætla að nota mitt pláss til að segja frá og fjalla um húsakönnun eða húsaskráningu sem er nú verið að vinna að á vegum Byggðarsafnsins Hvols.

Öllum sveitarfélögum ber, samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, að láta fara fram húsakönnun. Markmið hennar er að draga saman helstu upplýsingar um þróun byggðar frá upphafi og leggja mat á varðveislugildi einstakra húsa og götumynda til að tryggja að ákvarðanir sem varða breytingar byggðar eða á einstökum húsum séu teknar með þekkingu á því gildi sem þau hafa fyrir umhverfi, sögu og byggingarlist.

Bæja- og húsakönnun er sjónlistarleg og byggingarlistarleg skoðun, greining, úttekt, mat og skráning bæjarumhverfis og einstakra bygginga og studd sagnfræðilegri könnun nauðsynlegra frumheimilda. Þannig fæst yfirsýn yfir bæi, bæjarhluta, þéttbýlismyndun og hús í þéttbýli og dreifbýli.

Ég hef verið svo heppinn að fá að koma að þessu verki og hef ég í þeirri vinnu þurft að leggjast í heimildir og kynna mér nokkuð ýtarlega sögu byggðar á Dalvík og í Dalvíkurbyggð. Bæði hef ég þurft að sökkva mér í skriflegar heimildir s.s. sögu Dalvíkur, og skipulagssamþykktir og einnig munnlegar heimildir, frásagnir íbúa á Dalvík um einstaka hús, byggingarsögu þeirra og íbúa. Oft á tíðum hafa fylgt sögur af lífinu sem lifað var og lifað er í þessum húsum. Af þessu verkefni hef ég haft ómælda ánægju og hef þar að auki fræðst heil ósköp um sögu, íbúaþróun og skipulagsmál Dalvíkur frá því þéttbýli tók að þróast þar um og eftir aldamótin 1900.

Byggingarsaga Dalvíkur er merk fyrir margar sakir. Dalvíkurskjálftinn 1934 hafði afgerandi áhrif á þróun byggðar og markaði þáttaskil þar sem fjöldi steinhúsa reis í bænum í kjölfarið. Að þessu leyti hefur Dalvík sérstöðu meðal íslenskra kaupstaða. Þessari sögu er mikilvægt að halda til haga. Það er öllum samfélögum mikilvægt að þekkja sögu sína og uppruna. Slík þekking stuðlar að virðingu fólks fyrir umhverfi sínu og eykur samstöðu og samheldni íbúanna . Með skipulagðri skráningu þessarar sögu er einnig hægt að koma í veg fyrir skipulagsslys sem því miður hafa hingað til orðið allt of mörg hér á landi. Þar er Dalvíkurbyggð ekki undanskilin.

Markmiðið sem lagt var upp með í byrjun var að skrá allar byggingar sem byggðar voru fyrir 1950 í sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð. Í fyrsta áfanga verkefnisins voru flest hús sem byggð voru fyrir 1930 á Dalvík skráð. Þessi áfangi er nú aðgengilegur á heimasíðu Byggðasafnsins. Öðrum áfanga er nú nýlokið og eru þar tekin fyrir öll húsin við Karlsbraut og nokkur önnur stök hús hér og þar um Dalvík. Næsti áfangi er langt kominn og eru það hús sem flest eru við Bjarkarbraut, Sognstún og Goðabraut. Ennfremur er verið að fara yfir byggðina utan við Brimnesá. Loka áfanginn verður svo dreifbýlið í Svarfaðardal og Árskógsströnd. Vonandi verður í framhaldinu farið í að skrá sögu horfinna húsa líka.

Á næstunni fer á stað hér á heimasíðu Dalvíkurbyggðar þátturinn „Hús vikunnar“ þar sem í hverri viku er kastljósi beint að einu húsi í bænum , byggingar,- íbúa,- og eigendasögu þess. Það er von okkar að þáttur þessi veki Dalvíkinga og aðra málsmetandi aðila til umhugsunar og umræðna um húsin og sögu þeirra, kveiki minningar og samtöl um liðna tíð.
Húsaskráning er aldrei endanleg, alltaf geta komið fram nýjar upplýsingar um gömul hús auk þess sem sögunni vindur fram þegar tímar líða. Tilgangur „Húss vikunnar“ er öðrum þræði að kalla eftir slíkum viðbótarupplýsingum. Við bendum fólki einnig á að fara inn á vef Byggðasafnsins Hvols og skoða þar húsaskráninguna í heild sinni og hafa endilega samband ef einhverju er þar áfátt eða eitthvað missagt. Einnig væri afar vel þegið að fá gamlar myndir af húsunum ef fólk lumar á einhverju slíku.

Kristján E Hjartarson, formaður bæjarráðs