Fræðsla um notendastýrða persónulega aðstoð og sjálfstætt líf

Þriðjudaginn 5. mars mun NPA miðstöðin halda fræðslufund um notendastýrða persónulega aðstoð og sjálfstætt líf fyrir fatlað fólk og aðstandendur þess, aðstoðarfólk, starfsfólk sveitarfélaga og bæjarstjórnarfólk. Mun hún fara fram í Menntaskólanum við Tröllaskaga á Ólafsfirði frá kl. 15:00-19:00. Fræðslan er í tengslum við tilraunaverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð og unnin í samstarfi við Velferðarráðuneytið.


Markmið fræðslunnar er að kynna inntak og þýðingu hugmyndafræði baráttuhreyfinga fatlaðs fólks um sjálfstætt líf og helstu hornsteina hennar. Það er jafnframt að kynna reynslu annarra þjóða af notendastýrðri persónulegri aðstoð á grundvelli hugmyndafræðinnar og hvaða leiðir hafa verið farnar við innleiðingu og framkvæmd. Fræðslan mun einnig miðast að því að kynna reynslu fatlaðra frumkvöðla á Íslandi sem hafa verið með persónulega aðstoð í gegnum þjónustusamninga við ríki og sveitarfélög. Þeir munu varpa ljósi á þær leiðir sem þeir hafa farið við skipulag og uppbyggingu eigin aðstoðar, ásamt því að segja frá hvaða þýðingu það hefur að öðlast vald og um leið ábyrgð yfir eigin lífi, frelsi til að móta eigin lífstíl og taka þannig virkan þátt í samfélaginu.


Fyrirlesarar verða Freyja Haraldsdóttir, Embla Ágústsdóttir, Gísli Björnsson, Aldís Sigurðardóttir og Vilborg Jóhannsdóttir.


Aldís Sigurðardóttir er móðir Ragnars Emils sem er fimm ára leikskólastrákur með hreyfihömlun og lang-varandi taugahrörnunar-sjúkdóm. Hún hefur barist af miklum krafti ásamt eiginmanni sínum fyrir að hafa NPA allan sólarhringinn svo Ragnar geti alist upp í eigin fjölskyldu, lifað sjálfstæðu lífi og búið við mannréttindi rétt eins og systkini hans tvö. Fékk Ragnar samþykktan NPA samning í maí 2012 eftir fjögra ára baráttu. Aldís hefur verið í stjórn NPA miðstöðvarinnar frá stofnun hennar.


Embla Ágústsdóttir er nemi í félags- og kynjafræði við HÍ og stjórnarformaður NPA mið-stöðvarinnar. Hún hefur komið að því að sinna jafningjaráðgjöf við annað fatlað fólk sem sækist eftir NPA ásamt því að hafa tvisvar leitt sjálfstyrkingarnámskeið fyrir fatlaðar unglingsstúlkur. Embla hefur síðustu ár unnið að því að fá NPA samning til þess að geta lifað sínu lífi eins og aðrar ungar konur í íslensku samfélagi en hefur eingöngu fengið samþykktan hluta af þeirri aðstoð sem hún þarf.


Freyja Haraldsdóttir hefur lokið námi í þroskaþjálfafræði við HÍ og stundar nú framhaldsnám í hagnýtri jafnréttisfræði við sama skóla. Hún er framkvæmdastýra NPA mið-stöðvarinnar en sat áður í stjórn sem varaformaður. Hún hefur ferðast mikið erlendis til að kynna sér baráttustarf fatlaðs fólks, þá einkum á sviði hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf og NPA. Freyja hefur verið með persónulega aðstoð að hluta til frá árinu 2007 og fékk loks samþykkta sólarhringsaðstoð árið 2011, þá eftir sjö ára baráttu.


Gísli Björnsson er í diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun við HÍ og starfar sem organisti í Laugarneskirkju. Hann er varaformaður stjórnar NPA miðstöðvarinnar ásamt því að starfa sem sendiherra Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Gísli hefur verið með persónulega aðstoð að hluta í tvö ár en berst enn fyrir NPA samningi sem uppfyllir þá þörf fyrir aðstoð sem hann hefur, svo hann geti búið í eigin íbúð, stundað nám og vinnu og lifað sínu sjálfstæða lífi.


Vilborg Jóhannsdóttir er lektor í þroskaþjálfafræðum við Menntavísindasvið HÍ. Hún vinnur nú doktorsrannsókn um innleiðingu hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf og notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og skoðar áhrif þess á hlutverk fagfólks í þjónustukerfinu. Vilborg hefur í fræðastörfum sínum unnið náið með fötluðu baráttufólki á Íslandi sem og á erlendum vettvangi og kynnt sér þróun samvinnufélaga fatlaðs fólks, einkum á Norðurlöndum.


Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar.


Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.


Fræðsluhópur NPA miðstöðvarinnar