Dagskrá í október í menningarhúsinu Bergi

Nýir dagskrárliðir hafa bæst við fjölbreytta flóru viðburða í októbermánuði í menningarhúsinu Bergi og ástæða til að vekja athygli á þeim. 

22. október, föstudagur
Hádegistónleikar -”Konur fyrir konur” kl. 12:00
Fram koma norðlenskar listakonur, Ásdís Arnardóttir, selló, Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðla, Petrea Óskardóttir,þverflauta, Eyrún Unnarsdóttir, mezzosópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari. Þær flytja tónlist og ljóð eftir konur. Frumflutt verða tvö íslensk verk.
Allur aðgangseyrir tónleikanna rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Íslands, Bleiku slaufunnar.

23. október, laugardagur
Kaffihúsið í Bergi heldur eins árs afmæli sitt hátíðlegt. Uppákomur og opið hús fram eftir kvöldi á Kaffihúsinu.

26. október, þriðjudagur 
Fundur íbúa og bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar   kl. 17:00

Bæjarstjórnin býður íbúum Dalvíkurbyggðar til fundar í Bergi kl. 17 – 19. Tilgangur fundarins er að ræða saman um stöðu sveitarfélagsins og möguleika og að gefa íbúum kost á að koma á framfæri athugasemdum og hugmyndum. Mætið endilega og komið með ábendingar um það hvernig við getum gert enn betur.

27. október, miðvikudagur
Sögusetur Bakkabræðra - Kynning kl. 20:30
Kristín Aðalheiður Símonardóttir kynnir verkefnið, sem hún hefur unnið að undanfarið.

28. október, fimmtudagur
“Umbreyting” - Sýning Brúðuheima   kl. 17:00
Bernd Ogrodnik, brúðuleiklistarmaður, kemur hér með brot af því besta úr sýningu sinni Umbreytingu, sem hann sýndi við góðar viðtökur í Þjóðleikhúsinu á sínum tíma.
Sýningin gefur einstaklega skemmtilega sýn inn í heim brúðuleiklistar, þar sem gefur á að líta allar helstu gerðir leikbrúða. „Umbreyting“ var sýnd í Þjóðleikhúsinu í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík og fékk mjög góða dóma gagnrýnenda. Sýningin er bæði ætluð fyrir börn og fullorðna, frír aðgangur fyrir börn.

30. október, laugardagur
Tónleikar Þórarins Stefánssonar píanóleikara   kl. 15:00
Öll verkin á efnisskrá eru eftir íslensk tónskáld, unnin út frá íslenskum þjóðlögum. Efnisskráin gefur sögulegt yfirlit yfir íslenska tónlistarsögu, elstu verkin eru eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og þau yngstu samin árið 2009. Fjallað verður lítillega um verkin og sögulegt samhengi útskýrt.
Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Frón tónlistarfélag.