Viðhorfskönnun og námskrá á Krílakoti

Viðhorfskönnun og námskrá á Krílakoti

Veturinn 2004-2005 var farið í samskiptaverkefni á meðal starfsfólks Krílakots, en það verkefni er þáttur í námskrárgerð leikskólans. Í framhaldi af því var ráðist í að skoða samskipti á milli starfsfólks og foreldra og í þeim tilgangi var lögð könnun fyrir foreldra barna á Krílakoti síðastliðinn nóvember. Markmiðið var að kanna upplifum foreldra á samskiptum sínum við starfsfólk leikskólans ásamt fleiri þáttum. Nú liggja niðurstöður þessara könnunar fyrir og voru þær kynntar á síðasta fundi fræðsluráðs Dalvíkurbyggðar þar sem fræðsluráð lýsti yfir ánægju sinni með þær niðurstöður sem fram koma í könnuninni.

Í niðurlagi skýrslunnar segir meðal annars :Heilt yfir telja foreldrar að samskipti og samvinna foreldra og starfsfólks sé í góðu lagi.  Börnin eru ánægð í leikskólanum, almenn ánægja ríkir með matseðil, starfsfólk er viðkunnalegt og skipulag er gott.  Þó eru þættir sem þyrfti að bæta úr en þeir snúa flestir að upplýsingaflæði milli starfsfólks og foreldra, á milli starfsmanna og milli deilda. 

Í framhaldi af þessari niðurstöðu hefur verið unnin aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að bregðast við þeim atriðum sem ekki komu nægilega vel út og hefur henni þegar verið hrint í framkvæmd af leikskólastjóra Krílakots.

Nú í vor verður svo önnur sambærileg könnun framkvæmd meðal foreldra þar sem markmiðið verður að kanna hvort að þau atriði sem kröfðust úrbóta hafi lagast. Til þess að skoða skýrsluna í heild sinni er hægt að fara inn á stofnanir og finna þar Krílakot, eða smella hér.

Einnig er komin út námskrá Krílakots en unnið hefur verið að henni síðustu misseri. Ritstjóri hennar er Þuríður Sigurðardóttir. Hana er einnig að finna inn á stofnanir og Krílakot, en einnig er hægt að smella hér.