Vel heppnað fyrirtækjaþing

Fyrirtækjaþing var haldið í safnaðarheimili Dalvíkurkirkju í gær og var það atvinnumálanefnd Dalvíkurbyggðar sem boðaði til þingsins. Á þingið voru boðaðir fulltrúar starfandi fyrirtækja í sveitarfélaginu og var góð mæting á þingið og tókst það vel til. Boðið var upp á Kalda frá Bruggsmiðjunni ehf. að loknu þingi en þess má geta að Bruggsmiðjan efh. er nýtt fyrirtæki í Dalvíkurbyggð sem hefur hlotið góðar viðtökur um allt land fyrir afurð sína.

 Dagskrá þingsins var svohljóðandi:

1.   Mikilvægasta verkefnið fyrir matvælaiðnað í Eyjafirði.

Sigmundur Ófeigsson , framkvæmdarstjóri Norðlenska kynnti verkefni sem þróast hefur frá matvælaklasa Vaxtarsamnings Eyjafjarðar um förgun lífræns úrgangs.

2.  Niðurstöður atvinnulífskönnunar í Dalvíkurbyggð.

Selma Dögg Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi,  kynntiniðurstöður könnunar sem gerð var meðal fyrirtækja í sveitarfélaginu og unnin var á vegum Dalvíkurbyggðar

3.   Hvað er verið að gera í atvinnumálum svæðisins?

Magnús Ásgeirsson hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar kynnti starfssemi AFE og hvaða þjónustu félagið getur veitt fyrirtækjum og frumkvöðlum og tengsl AFE við Vaxtarsamning Eyjafjaðrar.

Helstu niðurstöður könnunar

Könnunin var send til fyrirtækja í Dalvíkurbyggð og var megin tilgangurinn að kanna það atvinnulíf sem er til staðar í Dalvíkurbyggð, varpa ljósi á fjölbreytileika atvinnulífsins og jafnframt að skoða hvernig stuðla megi að frekari atvinnuþróun og uppbyggingu á svæðinu. Könnunin var unnin í samstarfi við Atvinnumálanefnd Dalvíkurbyggðar.

Könnunin fengu  92 fyrirtæki og bárust 32 kannanir til úrlausnar eða 34,8%.

Flest fyrirtækjanna sem svöruðu komu úr þjónustugeiranum en einnig úr sjávarútvegi, ferðaþjónustu, landbúnaði og matvælaframleiðslu svo dæmi séu tekin.

Könnunin var skipt í þrjá hluta; vinnustaðinn, rekstrarlega þætti og loks atvinnnulíf innan Dalvíkurbyggðar. Úr fyrsta hluta könnunarinnar kom í ljós að flest fyrirtækjanna hafa fimm eða færri starfsmenn og skiptast hlutföllin milli faglærðra og ófaglærðra nokkuð jafnt. Jafnframt töldu 26 fyrirtækjanna ekki vera árstíðarbundnar sveiflur í fjölda starfsmanna sem túlka má sem stöðugleika í atvinnulífi allt árið um kring en rétt er að geta þess að meirihluti svarenda telur að fjölga þurfi starfsfólki á næstu tveimur árum.

Í öðrum hluta könnunarinnar er snerti rekstarlega þætti kom í ljós að forsvarsmenn fyrirtækja í Dalvíkurbyggð eru almennt bjartsýnir er varðar verkefnastöðu fyrirtækjanna sé litið til framtíðar og telja forsvarsmenn afkomu fyrirtækjanna batna eða standa í stað í ár sé miðað við síðasta ár. Þegar spurt var hvaða þættir hafa neikvæðustu áhrifin á rekstur fyrirtækin telja forsvarsmenn fyrirtækja gengisþróun hafa neikvæðustu áhrifin og flutningar/samgöngur koma þar næst á eftir.

Í þriðja hlutanum var spurt út í atvinnulíf innan Dalvíkurbyggðar og telur meirihluti forsvarsmanna fyrirtækja að efla þurfi atvinnulíf í Dalvíkurbyggð og nefndu þeir m.a. að efla mætti það sem fyrir er, hækka þyrfti menntunarstig sveitarfélagsins, auka fjölbreytni og að auka og byggja á það sem fyrir er í fiskvinnslu/sjávarútvegi.

Almennt séð telja forsvarsmenn fyrirtækja kosti þess að reka fyrirtæki hér í Dalvíkurbyggð vera góð tengsl við íbúa og fyrirtæki, gott starfsfólk, góð þekking á staðnum, rólegt umhverfi, nálægð við Akureyri, ódýrt að reka húsnæði og góð ímynd sveitarfélagsins.