Uppbyggingarstefnan í Dalvíkurbyggð

Uppbyggingarstefnan í Dalvíkurbyggð

Upphafið
Haustið 2008 var skipaður vinnuhópur á vegum Dalvíkurbyggðar með það verkefni fyrir höndum að velja samræmda uppeldisstefnu fyrir skóla sveitarfélagsins, íþróttamiðstöð og félagsmiðstöð. Nokkrar uppeldisstefnur voru skoðaðar og fyrir valinu varð Uppbyggingarstefnan. Rökin fyrir valinu voru m.a. þau að áherslur eru í takt vid Olweus gegn einelti og Stig af stigi lifsleikninámsefnis sem notað er í leik- og grunnskóla. Innleiðing fór hægt af stað því verið var að vinna að mörgum krefjandi verkefnum í skólunum. Innleiðingarferlið hófst formlega haustið 2010, í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins. Innan hverrar skólastofnunar er verkefnisstjóri/stýrihópar sem halda utan um innleiðingarferlið. Umsjón og yfirsýn yfir verkefninu hjá sveitarfélaginu hefur Helga Björt Möller.

Um hvað snýst uppbyggingarstefnan?
Uppbyggingarstefnan (Restitution) er hugmyndakerfi sem í felst bæði aðferð og stefnumörkun til bættra samskipta. Höfundur stefnunnar er Diane Chelsom Gossen frá Saskatoon í Kanada. Megin tilgangur stefnunnar er að kenna sjálfsaga og sjálfsstjórn.
Það geta allir tileinkað sér hugmyndafræði uppbyggingarstefnunar og getur hún gagnast öllum í samfélaginu s.s. í skólum, foreldrum og vinnustöðum.
Í stuttu máli fær uppbyggingarstefnan einstaklinga til að:

  •  horfa inn á við og skoða samskipti sín við aðra.
  •  skoða hvernig talsmáta þeir nota við aðra.
  •  hugsa um það hvernig manneskjur þeir vilja vera.
  •  greina hlutverk sín og annarra.
  •  skoða lífsgildi sín og gera sáttmála í samskiptum.
  •  kanna þarfir sínar og annarra.
  •  hugsa meira lausnamiðað þegar vandamál koma upp.

Eftirfarandi eru verkefni eða þættir sem unnið er með í tengslum við uppbyggingarstefnuna í Dalvíkurskóla:
Stutt inngrip – Hvernig finnst okkur best að talað sé við okkur? Temjum okkur að tala við aðra eins og við viljum að talað sé við okkur. Það skiptir máli hvernig hlutir eru lagðir upp og sagðir og því lærum við stutt inngrip í formi spurninga og fullyrðinga til að skapa notalegt andrúmsloft.

  •  Hvað áttu að vera að gera núna?
  •  Hvað get ég gert til að hjálpa þér?
  •  Er í lagi með það sem þú ert að gera núna?
  •  Hver er reglan?


Mitt og þitt hlutverk innan skólans– Umræður um öll hlutverk/starfslýsingar innan skólans og sameiginleg niðurstaða skráð. Hver á að gera hvað og hver á ekki að gera hvað?

Grunnþarfirnar - Að kynnast eigin þörfum og annarra og skilja að hegðun stjórnast af þörfunum okkar. Nauðsynlegt er að læra að koma til móts við okkar eigin þarfir án þess að traðka á þörfum annarra.

Bekkjarsáttmáli-lífsgildin-Hvernig viljum við hafa bekkinn okkar? Á hvernig vinnustað vil ég vinna? Hvernig manneskjur viljum við vera? Umræður um gildi sem skipta máli og bekkurinn kemur sér saman um sáttmála. Sáttmálinn hjálpar til við að skapa umhverfi þar sem nemendur finni sig örugga í hópnum.

Sáttmála í samskiptum er hægt að gera á hvaða vinnustað sem er og hefur starfsfólk Dalvíkurskóla unnið starfsmannasáttmála. Ennfremur hafa heilu sveitarfélögin tekið sig saman og verið með íbúafund þar sem umræðuefnið hefur verið gildi í samskiptum í sveitarfélaginu. Góð samskipti okkar á milli í samfélaginu geta skipt sköpum um hvernig okkur líður. Það er því draumur undirritaðrar að slíkur sáttmáli verði útbúinn hjá okkur hérna í Dalvíkurbyggð til að undirstrika mikilvægi góðra samskipta í sveitarfélaginu okkar.
Haustið 2009 tók undirrituð að sér að vera verkefnisstjóri yfir innleiðingu uppbyggingarstefnunnar í Dalvíkurskóla. Verkefnið hefur verið krefjandi en ákaflega skemmtilegt og lærdómsríkt.


Á fyrsta innleiðingarárinu var markmiðið að starfsfólk Dalvíkurskóla tileinkaði sér hugmyndafræði uppbyggingarstefnunnar. Á öðru árinu fór starfsfólkið í það að prófa sig áfram í að nota þætti tengda uppbyggingarstefnunni. Núna á þriðja starfsári hefur starfsfólkið verið að nota stefnuna markvisst í starfi. Starfsmannakannanir sýna það að flest starfsfólk er ánægt með stefnuna og finnst gott að nota hana í starfi. Ennfremur finna stjórnendur að málum sem vísað er til þeirra hefur fækkað sem bendir til þess að nemendur eru í meira mæli að leysa vandamálin sjálf og starfsfólkið að beina því til nemenda að leysa vandamálin af sjálfsdáðum. Sjálfsmatskannanir Dalvíkurskóla sýna einnig að nemendum líður að jafnaði betur í skólanum eftir innleiðingu uppbyggingarstefnunnar.
Það sem er næst á dagskrá í innleiðingarferlinu er að fræða foreldra meira um stefnuna. Áætlað er að halda foreldranámskeið fyrir foreldra barna í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins í byrjun næsta hausts.

Undirrituð vonar að við sem búum hérna í sveitarfélaginu sýnum uppbyggingarstefnunni áhuga og tileinkum okkur þætti hennar. Áhugasamir geta lesið meira um uppbyggingarstefnuna á heimasíðu Dalvíkurskóla, http://www.dalvikurbyggd.is/dalvikurskoli/ . Í grein eftir Guðlaugu Erlu Gunnarsdóttur og Magna Hjálmarsson á slóðinni http://netla.khi.is/greinar/2007/003/index.htm og á heimasíðunni http://www.realrestitution.com/.

Uppbygginarstefnan í Dalvíkurbyggð (pdf)

Pistlar úr Dalvíkurbyggð, sjá alla pistla


Valdís Guðbrandsdóttir
Iðjuþjálfi Dalvíkurskóla
Verkefnisstjóri uppbyggingarstefnunnar í Dalvíkurskóla
Sveitarstjórnarfulltrúi