Ný dæla gangsett formlega

Í gær hófst dælun úr nýju borholunni að Brimnesborgum og var það bæjarstjórinn í Dalvíkurbyggð, Svanfríður I. Jónasdóttir sem formlega setti dæluna í gang í gegnum stjórnkerfi veitnanna. Jafnframt voru kynntar þær framkvæmdir sem framundan eru sveitarfélaginu og hafa verið að undanförnu.  

Nú er lokið næst síðasta áfanga fráveituframkvæmda þannig að á Dalvík séu uppfyllt ákvæði laga og reglugerða um mengunarvarnir. Kostnaður við þennan áfanga er um 25 milljónir. Með þessum áfanga er búið að sameina allar útrásir á Dalvík í eina. Stefnt er að því að fráveituframkvæmdum ljúki á næsta ári en það er gerð dælustöðvar við áðurnefnda útrás. Áætlaður kostnaður við þá framkvæmd er um 30 milljónir króna.

Búið er að virkja borholu ÁR 32 sem boruð var í fyrra og er dýpi hennar um 1.000 metrar. Samkvæmt þeim búnaði sem í hana er settur getur holan afkastað um 50 - 60 sekúndulítrum. Hitastigið í botni holunnar er 78°. Kostnaður við holuna er um 60 milljónir króna.

Á virkjunarsvæði hitaveitunnar að Hamri er búið að endurnýja dælubúnað í báðum holum veitunnar þannig að hvor um sig annar þörfum Dalvíkur undir hámarksálagi. Auk þess hefur stýribúnaður verið endurnýjaður og heimtaug RARIK stækkuð til að mæta aukinni aflþörf við dælingu. Kostnaður vegna þessara endurbóta og breytinga er um 15 milljónir króna.

Á þessu ári er fyrirhugað að samtengja virkjanasvæði Hitaveitu Dalvíkur í öryggisskyni þannig að hvort svæði um sig geti virkað sem varasvæði fyrir hitt ef á þarf að halda. Einnig verður dreifikerfi veitunnar stækkað með lögn hitaveitu í Svarfaðardal. Áætlaður kostnaður við þessar framkvæmdir er um 213 milljónir.

Þegar þessi áform voru kynnt íbúum sveitarfélagsin vaknaði mikill áhugi sumarbústaða­eigenda í Svarfaðardal á að taka inn hitaveitu sem varð til þess að dreifikerfið stækkaði meira en áætlað var og hagkvæmni framkvæmdarinnar varð meiri.

Samhliða hitaveituframkvæmdum í ár verður lögð stofnlögn vatnsveitu þar sem því verður  við komið og brunahönum komið upp í öryggisskyni fyrir íbúana. Einnig verður þeim sem þess óska boðið uppá gott neysluvatn.  Kostnaður vatnsveitu vegna þessara framkvæmda er áætlaður um 27 milljónir.