Námsver Dalvíkurbyggðar - fréttir

Mikið hefur verið um að vera í Námsverinu undanfarið og gaman er að segja frá því að þar ólgar allt af lífi og gleði.

Grunnmenntaskólinn er á fullu og hafa nemendur þar tekið miklum framförum. Mikil hópkennd hefur myndast meðal nemenda og þeir styðja hvern annan við að yfirstíga þær hindranir sem kunna að birtast á þekkingarleitarveginum. Þrettán nemendur stunda nám af miklu kappi og eru forsvarsmenn Námsversins afar stoltir af eljusemi þeirra og dugnaði.

Í febrúar fór af stað námskeið í gæðastjórnun sérsniðið að matvælafyrirtækjum, sérstaklega fiskvinnslufyrirtækjum. Strax eftir páska er svo stefnt á að nám fyrir millistjórnendur í matvælafyrirtækjum fari af stað en Námsverið hlaut styrk frá Menntamálaráðuneytinu til að þróa þessar námsleiðir.

Önnur námskeið sem eru hafin eða eru að fara af stað eru:
• Skyndihjálparnámskeið, en það er tólf klukkustunda námskeið sem tekið var á tveimur laugardögum. Jafnframt er í burðarliðunum skyndihjálparnámskeið í samstarfi við Dalbæ og fyrir starfsfólk leik og grunnskóla
• Myndlistarnámskeið stendur yfir þessar vikurnar það er alls tíu skipti, tveir klukkutímar í senn og það námskeið er haldið í myndmenntastofunni í Dalvíkurskóla.
• Haldið var þann tíunda febrúar dagsnámskeið sem bar heitið 10 bestu súpur í heimi og heyrst hefur aði í framhaldinu hafi súpufaraldur riðið yfir Dalvíkurbyggð.
• Íslensku námskeið fyrir útlendinga, en í vetur eins og áður starfar Námsverið í samvinnu við Margvís sem býður upp íslenskunámskeið eftir þörfum
• Námskeið í ullarþæfingu, byrjendanámskeið í fatasaum og námskeið í vinnu með silfurleir eru að fara af stað en þau eru haldin í samvinnu við Menningar og listasmiðjuna á Húsabakka.

Á ofantaldri upptalningu má sjá að framboðið er misfræðilegt og margt er í boði fyrir þekkingarþyrsta íbúa sveitarfélagsins. Fleiri námskeið voru auglýst en ekki fékkst næg þátttaka. Forsvarsmenn Námsversins eru sífellt að leita af góðum hugmyndum að námskeiðum og þiggja allar hugmyndir.

Að lokum er fræðimoli í boði Námsversins:

Þekkingarstjórnun hefur verið að ryðja sér til rúms sem fræðigrein. En hvað felst í því? Þekkingarstjórnun er hugtak yfir aðferðir sem stuðla að bættum árangri með því að móta, skrá og miðla þekkingu innan fyrirtækja og stofnana. Ein mikilvægustu hugtökin innan þekkingarstjórnunarinnar eru leynd og ljós þekking. En hvað felst í því?
Í örstuttu máli má segja að ljós þekking sé formleg og skráanleg og dæmi um hana er formúlur og leiðbeiningar sem starfsmenn geta miðlað munnlega sín á milli. Á hinn bóginn er leynd þekking er andstæða þeirrar ljósu, það er erfitt að skrá hana, hún byggir á reynslu einstaklinga og dómgreind.

Ígrundið nú hvaða þekkingu þið búið yfir og er hún ljós eða leynd? Góða skemmtun