Frá framfarafélagi Dalvikurbyggðar: Opinn fundur um skólamála í Dalvíkurbyggð

Til íbúa Dalvíkurbyggðar

Framfarfélag Dalvíkurbyggðar boðar til almenns fundar um skólamál í byggðinni, í Dalvíkurskóla, fimmtudaginn 18. nóvember kl. 20.

Fundurinn er framlag félagsins til uppbyggjandi umræðu um um skóla- og menntastefnu í Dalvíkurbyggð.

Um markmið fundarins.

Á heimilunum og í skólunum leggjum við drög að farsæld barnanna og að góðri byggð.

En skólarnir eru ekki bara menntunarstaður fyrir börn og unglinga. Þeir eru líka vettvangur þar sem fullorðnir sækja sér menntun, til að takast á við lífsbaráttuna í ört breytilegu samfélagi, eða til að  sækja sér lífsfyllingu. Þetta er efst í huga þegar við mótum okkur menntastefnu.

Við þurfum líka að hafa það í huga að skólastarf, í víðtækustu merkingu, skapar vinnu og eflir atvinnulífið, almennt séð. Það er líka grundvöllur menningar og listalífs, sem eru mikilvæg lífsgæði í okkar samfélagi, og í skólunum leggjum við grunn að félagslegri samhjálp og heilbrigði.

Dalvíkurbyggð, er ekki stór, en getur verið sterk ef við sameinumst um að gera hana sterka. Við þurfum að nýta allt það besta sem við eigum í þessu samfélagi og láta það spila saman sem eina heild, þar sem eitt bætir annað upp. Hver sem framtíð Dalvíkurbyggðar verður skipulagslega, verður efling byggðar á svæðinu fyrst og fremst verk fólksins hér, samhent grasrótarstarf þess sjálfs. Miðað við stærð okkar og aðstæður þurfum við að móta okkar eigin atvinnustefnu, skólastefnu o.s.frv. Með starfi og frumkvæði okkar sjálfra auðgum við mannlífið og gerum byggðina að enn fýsilegri kosti.

Í eflingu skólastarfsins þurfum við að feta allt aðra leið en henta þykir í 10 sinnum eða 100 sinnum stærra samfélagi, óhefðbundna leið. Ekki þannig að menntunin sem við stefnum að hér eigi að vera eitthvað minni en í stærri samfélögum. Nei, svo sannarlega ekki. En formið þarf að vera öðru vísi. Við þurfum t.d. að samnýta kennslulið og skólahúsnæði til að mennta nemendur á öllum aldri, frá barnsaldri til efri ára,  og í öllum greinum, frá tungumálum til lista. Unglingar og fullorðnir munu líka sækja menntun til annarra staða. En við munum líka fá nemendur hingað annars staðar frá þegar við höfum mikið fram að færa. Í  þessu uppbyggingarstarfi okkar þurfum við að byggja á okkar sérstöðu, skólaarfleifðinni, menningararfleifðinni og okkar náttúrulega umhverfi til lands og sjávar.

Í ljósi þess sem hér er skrifað og í ljósi umræðunnar um framtíð Húsabakkaskóla boðar framfarafélagið til umræðufundar um skólamál í Dalvíkurbyggð, í Dalvíkurskóla,  fimmtudaginn 18. nóvember, kl. 20.

Opinn umræðufundur um skólamál í Dalvíkurbyggð

Fimmtudaginn, 18. nóvember, kl. 20,

í Dalvíkurskóla

Stuttar framsögur flytja:

Sveinn Jónsson, bóndi, Kálfskinni, Árskógsströnd

Dóróþea Reimarsdóttir, Dalvík, kennari í Húsabakkaskóla

Ívar Jónsson, prófessor við viðskiptaháskólann á Bifröst

Svanfríður Jónasdóttir, fyrrv. alþingismaður

Rætt hefur verið við eftirtalda um að vera í pallborði, að loknum framsögum, auk frummælenda:

Skólastjóra grunnskóla og Tónlistarskólans,

Forystumenn foreldrafélaga skólanna á svæðinu,

Fulltrúa sem svara fyrir þróunar- eða hugmyndavinnu á ýmsum

sviðum skóla- og menntunarmála, svo sem frá fræðslunefnd, úr framhaldsskólaumræðunni, námsverahugmyndinni, leikskólaumræðunni, "Dvöl í Dal", grenndarskólaumræðu,

listakennslu o.s.frv.

Flestir sem leitað hefur verið til um að vera í pallborðinu gátu komið því við,  þannig að alls verða 15-20 manns í pallborðinu. 

Öll verður umræðan undir traustri stjórn Rafns Arnbjörnssonar.

Fjölmennum á fundinn og tökum þátt í uppbyggilegri umræðu um skólamálin. Sú umræða og framtíð skólamála í Dalvíkurbyggð varðar okkur öll

Framfarafélag Dalvíkurbyggðar