Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar árið 2014 og fjögurra ára áætlun 2014 – 2017

Framsaga sveitarstjóra, Svanfríðar Jónasdóttur.


Eftir að ný sveitarstjórnarlög tóku gildi er vinna við gerð fjárhagsáætlunar a.m.k. um mánuði á undan því sem venja var og helgast það m.a. af frestum sem gefnir eru í lögum. Það hefur í för með sér að upplýsingar eru e.t.v. ekki eins nákvæmar við fyrri umræðu og við helst vildum, m.a. vegna þess að ríkisvaldið og þær stofnanir sem við þurfum að styðjast við hafa ekki breytt sínu verklagi. Þannig gerðist það nú að ,,endanlegar“ upplýsingar frá Jöfnunarsjóði um tekjur næsta árs bárust ekki fyrr en daginn eftir að fyrri umræðu um fjárhagsáætlun lauk. Um var að ræða auknar tekjur um 43.419.500. Það breytti þeim tekjuforsendum sem lágu til grundvallar fyrri umræðu. Síðan kom sérstök áskorun aðila vinnumarkaðarins varðandi gjaldskrár. Sveitarstjórn ákvað á fundi sínum 19. nóvember sl. að bregðast við henni með því að taka til endurskoðunar þjónustugjaldskrár sveitarfélagsins. Það þýðir síðan tekjulækkun uppá 10.429.000 frá því sem áætlað var.


Helstu niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar Dalvíkurbyggðar árið 2014 eru þær að aðalsjóður er með afgang uppá tæpl. 42 m kr. og A hlutinn er með afgang uppá rúmlega 47 m kr. A og B hluti saman, eða samstæðan, skilar afgangi uppá ríflega 68 m. kr. Veltufé frá rekstri er áætlað um 274 m kr. sem er hærra en 2013 og veltufjárhlutfall er áætlað 1,15. Eiginfjárhlutfall er 0,55 og EBIDTA er 15,6. Sveitarstjórnarlögin segja að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta í reikningsskilum megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Skuldahlutfall Dalvíkurbyggðar er milli 80 og 90%.


Forsendur
Forsendur fjárhagsáætlunar Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2014 eru helstar þær að gert er ráð fyrir því að verðbólgan verði 4% sem er sú tala sem byggðaráð kom sér saman um að nota sem vinnutölu þegar undirbúningur vinnu við fjárhagsáætlun hófst. Þar lögðu saman ,,litla greiningardeildin“ og sú þekking og reynsla sem fulltrúar í byggðaráði höfðu aflað. Það er ljóst að árið 2014 verður ekki árið sem sveitarfélögin í landinu verða með samræmda verðbólguspá. Ný þjóðhagsáætlun gerir ráð fyrir 3,6% verðbólgu. Miðað við aðrar spár sem sést hafa um mögulega verðbólgu á næstu árum má þó ætla að við verðum nokkuð nálægt veruleikanum.


Við gerð fjárhagsramma vegna 2014 voru laun 2013 hækkuð um 3%. Gerð var 2% hagræðingarkrafa þannig að nettóhækkunin er 1% hvað varðar laun og launatengd gjöld. Gert verður ráð fyrir þeirri launabeytingu í launaskapalónum, þ.e. 1% launaskrið, en haldið utan um þá breytingu á sérstökum launalykli undir hverri deild fyrir sig. Í launaskapalónum er gert ráð fyrir þeim hækkunum sem liggja í gildandi kjarasamningum. Kjarasamningar eru almennt lausir á næsta ári og því má ætla að taka þurfi áætlunina upp þegar líður á árið vegna þess viðbótarkostnaðar sem þá kann að falla til, og væntanlega viðbótar útsvarstekna einnig.

Sambands íslenskra sveitarfélaga áætlar hækkun á staðgreiðslu tekjuárið 2014 uppá 5,3% á milli ára. Við nýtum okkur spá sambandsins eins og mörg undanfarin ár og eru útsvarstekjur ársins 2014 þannig áætlaðar 727 m kr. en áætluð niðurstaða ársins 2013 er 706 m kr. þannig að hækkun útsvars er áætluð um 21 m kr. milli ára. Reiknað er með svipuðu atvinnustigi og verið hefur. Sú fækkun íbúa sem við horfðumst í augu við í fyrra virðist hafa stöðvast.

Útsvarsprósenta er óbreytt á milli ára, 14,48% en þar af fer tæpt prósentustig beint til Jöfnunarsjóðs vegna málefna fatlaðra.


Tekjur Dalvíkurbyggðar frá Jöfnunarsjóði eru um 48 m kr. hærri en á árinu 2013. Það er nokkur hækkun á milli ára, en undanfarin ár hafa tekjur frá Jöfnunarsjóði dregist mikið saman, að hluta til vegna lækkunar á skatttekjum ríkissjóðs.


Lóðaleiga lækkar í heild um 3 m kr. sem kemur að öllu leyti fram gagnvart íbúðarhúsnæði. Þá var eins og áður segir ákveðið að hækka ekki þjónustugjaldskrár sem þýðir 10.429.000 lægri tekjur en áformað var.


Fasteignamat 2014 og álagning fasteignagjalda
Eftirspurn eftir leiguíbúðum er mikil og fasteignamarkaður líflegur á köflum. Fasteignamat í Dalvíkurbyggð hækkar enn og nú um u.þ.b. 8,1% að meðaltali. Hækkun á fasteignamati er mismunandi eftir eignaflokkum, en hún verður milduð með því að lóðaleiga íbúðarhúsnæðis tekur ekki breytingum samkvæmt breytingum á fasteignamati. Í fyrra milduðum við hækkun fasteignamats með því að lækka álagningararhlutfall á íbúðarhúsnæði úr 0,49 í 0,47. Það leiddi til þess að framlög Jöfnunarsjóðs vegna fasteignaskatts lækkuðu einnig. Byggðaráð tók þá ákvörðun að breyta álagningarhlutfalli fasteignaskatts aftur úr 0,47 í 0,49 til að tryggja framlög úr Jöfnunarsjóði. Á móti verður lóðarleiga íbúðarhúsnæðis lækkuð sem nemur þeirri hækkun sem leiðir af þessari breytingu. Lóðaleiga lækkar því um 8,9% á milli ára eða um 3 m kr.


Sorphirðugjald verður áfram kr. 31.400 á íbúð vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um að falla frá hækkunum á þjónustugjaldskrám. Stefnt er að því að gjaldið komi á móti um 80% að þeim kostnaði sem hlýst af sorphirðu frá heimilum þó það náist ekki á næsta ári. Í gjaldskrá um sorphirðugjald fyrir árið 2014 eru einnig ákvæði um förgun dýrahræja, en þar er ákveðið að greitt verði hærra hlutfall en áður hefur verið og að gjaldið komi á móti álíka stórum hluta kostnaðar við förgun og gjaldið fyrir heimilisúrgang.


Nýmæli í rekstri
Samkvæmt ákvörðun byggðaráðs, og fram kemur í fjárhagsáætlun, er áformað að stjórn vinnuskóla færist frá umhverfis- og tæknisviði til íþrótta- og æskulýðsmála. Reikna má með að einhverjar breytingar verði á rekstri skólans og hefur þegar verið tekin ákvörðun um að lóðasláttur, sem hefur tekið upp stóran hluta tímans, verði ekki lengur á dagskrá vinnuskólans en reiknað með að aðrir aðilar á markaði sem hafa tekið að sér umhirðu lóða, taki þau verkefni. Þeir sem kunna að eiga rétt til niðurgreiðslu mundu þá fá hana og hafa fjármunir verið settir til þess á málaflokk 02.

Vegna stórs viðhalds á Dalbæ, heimili aldraðra, mun Dalvíkurbyggð taka 40 m kr. óverðtryggt lán til 10 ára hjá Lánasjóði sveitarfélaga og endurlána Dalbæ á næsta ári vegna þessarar viðhaldsframkvæmdar. Greiðslur af láninu verða síðan í formi árlegs styrkjar til
Dalbæjar og fara þeir styrkir yfir á málaflokk 02.


Nýmæli eru líka að tekið hefur verið upp nýtt styrkjakerfi við fjölskyldur vegna tómstundaiðkunar barna, ÆskuRækt. Þessi styrkur er nú í boði í fyrsta sinn og verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst nú í haust. Einnig hefur verið settur á laggirnar velferðarsjóður sem á
að tryggja að ekkert barn sé útilokað frá þátttöku vegna fjárhagsaðstæðna fjölskyldunnar. Þessir styrkir bætast við þá styrki sem félögin fá frá sveitarfélaginu til barna- og unglingastarfs samkvæmt sérstökum samningum.


Mín Dalvíkurbyggð, sem er rafrænn aðgangur íbúanna til að nýta sér þjónustu sveitarfélagsins, er að ná flugi og skrá forráðamenn m.a. þátttöku barna í gegnum Mín Dalvíkurbyggð til að fá styrki ÆskuRæktar.


Spjaldtölvuvæðing er hafin í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins og hófst á þessu ári þar sem forgangsröðun verkefna var breytt svo hægt væri að hefja þetta ferli.


Á árunum 2014 og 2015 fara 40 m kr. yfir lið 06 til samstarfs við UMFS um byggingu hálfs gervigrasvallar á vallarsvæði félagsins á Dalvík.


Hafin er vinna við aðgengismál og settir til þess fjármunir, 4,5 m kr. fyrir árið 2014 og svo áfram.


Breytingar hjá umhverfis- og tæknisviði eru enn á döfinni, en garðyrkjustjóri hætti störfum nú í haust og hefur verið auglýst eftir umhverfisstjóra sem á að hafa með höndum mörg verkefni hans, auk þess að takast á við umhverfismálin í víðustu merkingu, þ.m.t. úrgangsmál.


Eignasjóður
Eignasjóður fer með allar fasteignir sveitarfélagsins og innheimtir innri leigu á móti. Sjóðurinn er rekinn með afgangi uppá ríflega 5 m kr. Veltufé frá rekstri er um 140 m kr. og áætlaðar fjárfestingar um 98 m kr. Þar af eru framkvæmdir við endurnýjun UNGÓ 18 m kr. og er það annað árið af þremur sem áætluð voru til framkvæmdarinnar. Á árið 2015 eru síðan settar 12 m kr. til þessarar framkvæmdar og á þá að vera búið að færa útlit hússins til upprunalegs horfs.


Áformað er að 10 m kr. fari til að endurnýja tjaldsvæði en það verk hófst á árinu 2013 með kaupum og niðursetningu á þjónustubyggingum og lagfæringum á hluta svæðisins, en m.a. þurfti að drena svæðið nokkuð þar sem miklir snjóar leiddu þann veikleika glögglega í ljós að tjarnir hafa tilhneiginu til að myndast á svæðinu á vorin og því meiri sem meira hefur snjóað. Þá er gert ráð fyrir 10 m kr. til undirbúnings og hönnunar vegna fyrirsjáanlegra framkvæmda við Sundlaug Dalvíkur sem áætlað er að kosti 40 m kr. bæði árið 2015 og 2016. Einnig er áformað að 17 m kr. fari til undirbúnings viðbyggingar við Krílakot, en á árunum 2015 og 2016 eru settar 76,5 m kr. hvort ár til þeirrar framkvæmdar.


Gert er ráð fyrir viðhaldi fyrir ríflega 40 m kr. á árinu 2014 sem er svipuð upphæð og verið hefur og í samræmi við innri leigu fasteigna.


Um 28 m kr. eru áætlaðar í framkvæmdir við göngustíga, gatnaframkvæmdir o.fl. en hluti þeirra verkefna s.s. viðhald opinna svæða og reglulegt viðhald gatna sem áður voru sett sem fjárfesting voru nú færð á lið 11 þar sem um viðhald er að ræða og þar með hluta af rekstri. Á árinu 2015 eru 35 m kr. settar til gatnagerðarframkvæmda og er þá m.a. horft til þess að leggja veg að Upsum með stokk í Brimnesá.


Áfram er haldið við uppbyggingu bruna- og innbrotavarnakerfis í stofnunum sveitarfélagsins og sömuleiðis er áfram unnið að endurnýjun á tölvukosti samkvæmt þeirri áætlun sem lögð var á árinu 2012.


Áætlað er að greiða um 105 m.kr. í afborganir langtímalána á næsta ári en að Eignasjóður taki nýtt langtímalán upp á 15 m kr. en heildarlántaka á árinu 2014 er áætluð 210 m kr. og munar þar mestu um lán Hafnasjóðs og áðurnefnds láns til Dalbæjar.


Eignir Eignasjóðs eru metnar á kr. 2.183.328. Skuldir og skuldbindingar Eignasjóðs eru kr. 1.922.201 og eigið fé því ríflega 261 m kr.


Hafnasjóður
Tekjur HSD á árinu 2014 eru áætlaðar ríflega 69 m kr. og er þá bæði tekið tillit til lækkaðs fiskverðs og aukins kvóta. Áætlað er að sjóðurinn verði rekinn með afgangi uppá tæplega 3 m kr. á árinu 2014 og er veltufé frá rekstri áætlað tæplega 19 m kr. Fjárfestingar eru áætlaðar 182 m kr. og eru fyrst og fremst fyrri hluti hafskipakants á Dalvík og er áformað að hafnasjóður taki um 170 m kr. lán vegna þess. Á árinu 2015 er áætlað að fjárfesta fyrir um 120 m kr. í hafskipakanti og á framkvæmdin að komast í gagnið síðla árs 2015. Þegar á árunum 2016 og 17 er gert ráð fyrir auknum tekjum hafnasjóðs vegna þessarar framkvæmdar.


Vatnsveita
Heildartekjur vatnsveitunnar 2014 eru áætlaðar rétt um 45 m kr. eða þær sömu og á árinu 2013. Rekstrarniðurstaða er afgangur uppá um 7 m kr. Vatnsveitan er skuldlaus. Veltufé frá rekstri er tæpar 14 m kr. en 12 m kr. eru áætlaðar til framkvæmda. Niðursetning fleiri brunahana, yfirferð á girðingum og tengingum í Krossafjalli, kaup á pallbíl og lagfæringar á tengingum á Bakkaeyrum eru á framkvæmdalistanum. Tengigjöld o.þ.h. ásamt aukavatnsskatti hækka um 3.3% eða skv. vísitölu. (okt. ´12 – sept. ´13).


Hitaveita
Áætlaðar tekjur hitaveitu á árinu 2014 verða 147 m.kr. Rekstrarniðurstaða er 29,5 m kr. Veltufé frá rekstri er tæplega 80 m.kr. Á árinu er gert ráð fyrir fjárfestingum og framkvæmdum fyrir 12 m kr. Haldið verður áfram að setja upp orkumæla þannig að fólk
greiði fyrir þá orku sem það er að fá með nákvæmari hætti, og vonandi réttlátari, en nú er. Um 9 m kr. fara í dælur og rafstöð, og aðgerðir við Laugahlíðarholu er áætlað að kosti um 3 m kr. Afborganir af lánum og arðgreiðsla er samtals um 60 m kr. Samkvæmt orkulögum nr. 58/1967 er eiganda hitaveitu ár hvert heimilt að áskilja sér allt að 7% arð af eigin fé hitaveitna.


Bæði hitaveita og vatnsveita leggja fé til umhverfismála, alls 6 m kr. og verður þeim á árinu 2014 varið til að girða af svæði veitnanna við Sandskeið og til fegrunar á umhverfi þeirra.


Félagslegar íbúðir
Reiknað er með að halli á íbúðum sveitarfélagsins verði um 8 m kr. Skuldir og skuldbindingar málflokksins eru tæplega 337 m kr. og hafa lækkað um 40 m frá 2013 þar sem íbúðir hafa verið seldar. Enn á sveitarfélagið þó nokkrar íbúðir sem fyrirhugað er að selja í samræmi við þær reglur sem settar hafa verið um sölu þeirra. Ekki hefur verið venja að reikna með sölu íbúða við gerð fjárhagsáætlunar og verður það ekki gert nú.


Fráveita
Áætlað er að tekjur fráveitu verði ríflega 50 m kr. Fráveitan skilar samkvæmt áætlun tæplega 11,5 m kr. í afgang á árinu 2014 og veltufé frá rekstri er tæplega 24 m kr. Áformað er að fjárfesta fyrir 8 m kr. og er þá m.a. horft til útræsaframkvæmda á Hauganesi, frágangs við dælustöðvar ásamt búnaði og niðursetningu rotþróa. Skuldir og skuldbindingar fráveitu eru 131 m kr., að langstærstum hluta við sveitarsjóð og eru afborganir af því skuldabréfi á næsta ári áætlaðar tæplega 13 m kr. Einnig er skammtímaskuld við sveitarsjóð og ræðst afborgun hennar af afkomu veitunnar. Á árinu 2013 var innheimtu fráveitugjalda breytt þannig ekki er miðað við fasteignamat heldur fast gjald og fermetratölu fasteignar.


Ný sveitarstjórnarlög
Í 62. gr. nýrra sveitarstjórnarlaga, um Fjárhagsáætlanir segir: Sveitarstjórn skal á hverju ári afgreiða fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og næstu þrjú ár þar á eftir. Saman mynda þessar áætlanir fjögurra ára áætlun fyrir sveitarfélagið sem felur í sér heildaráætlun um fjármál sveitarfélagsins á tímabilinu, bæði A- og B-hluta . . . Tillögunum skulu fylgja upplýsingar um þær forsendur sem byggt er á og lýsing helstu framkvæmda og skuldbindinga sem gert er ráð fyrir. Til þess að halda slíku til haga er framsaga bæjarstjóra sem síðan fylgir sem skýringargagn. Það er í samræmi við það sem áður hefur tíðkast hjá Dalvíkurbyggð en er nú lögbundið.


Í samræmi við lögin var unnin áætlun fyrir árin 2014, 15, 16 og 17. Þessi fjögurra ára áætlun er liður í því að fá sveitarfélögin til að horfa lengra fram í tímann varðandi fjárfestingar og rekstur svo menn sjái betur hvert stefnir. Áætlanagerð af þessu tagi er heldur ekki ný af nálinni en áður var það fyrirkomulag viðhaft að þriggja ára áætlun var gerð eftir að áætlun næsta árs var lokið, átti að vera lokið innan tveggja mánaða frá samþykkt fjárhagsáætlunar næsta árs. Nú eru þessar áætlanir gerðar samtímis og þurfa að verða klárar til framlagningar fyrir 1. nóv. en í lögunum segir: Tillögu um fjárhagsáætlun skal síðan leggja fyrir bæjarstjórn eigi síðar en 1. nóvember.


Bæði það að áætlanir þurfa að leggjast fyrir bæjarstjórn fyrr en áður og fyrir fjögur ár í senn leiðir til þess að mögulega þarf meiri vinna fara fram á milli umræðna en áður. Þá er mikilvægt að hafa í huga að fjárhagsáætlun næsta árs felur í sér bindandi ákvörðun um allar fjárhagslegar ráðstafanir sveitarfélagsins á því ári sem hún tekur til. Það er því betra að hafa tölur sem nákvæmastar, bæði tekju- og gjaldamegin.


Fjögurra ára áætlun
Fjögurra ára áætlun er gerð í samræmi við leiðbeiningar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Vinnulagið er óbreytt frá því sem verið hefur, þ.e. áætlunin er unnin á verðlagi ársins 2014 og breytingar einungis gerðar þegar þekktar magntölur eða breytingar liggja fyrir.


Miðað við fyrirliggjandi áætlun eru bæði A og B hluti reknir með afgangi öll árin. Fyrir liggur framkvæmdaáætlun fyrir öll árin og er miðað við stórar framkvæmdir; hafskipabryggju, stækkun Krílakots, en sú bygging mundi þá leysa Kátakot af hólmi, frjálsíþróttaaðstöðu vegna áforma um unglingalandsmót 2017 og endurbætur á sundlaug á árunum 2015 og 2016. Reiknað er með lántökum til að mæta framkvæmdum á tímabilinu og í tvö ár verða lántökur hærri en sú uppæð sem greidd er af eldri lánum.


Áætlun fyrir árin 2015 – 2017 gerir ráð fyrir eftirfarandi rekstrarstöðu fyrir A og B hluta:


Rekstrarniðurstaða:
Árið 2015 kr. 47.549.000
Árið 2016 kr. 98.029.000
Árið 2017 kr. 89.982.000


Veltufé frá rekstri:
Árið 2015 kr. 267.326.000
Árið 2016 kr. 327.172.000
Árið 2017 kr. 322.029.000


Fjárfestingar eignasjóðs og B hluta stofnana:
Árið 2015 kr. 312.020.000
Árið 2016 kr. 225.060.000
Árið 2017 kr. 109.080.000


Bundnar eru vonir við að íbúum muni ekki fækka í bráð heldur fjölga og fjölskyldur flytja í það húsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur haldið tómu nú um hríð. Grunngerðin er orðin nokkuð vel upp byggð og sveitarfélagið tilbúið að taka á móti fleiri íbúum og veita þeim góða þjónustu.


Samstarfsverkefni Dalvíkurbyggðar
Skv. gr. 103 í nýjum sveitarstjórnarlögum skal sveitarstjórn leitast við að íbúar sveitarfélagsins fái með reglubundnum hætti upplýsingar um samstarf sem sveitarfélagið hefur við önnur sveitarfélög, umfang þess og kostnað.


Verkefni 2013, áætlaður kostnaður

Eyþing og landssambandsþing Sambandsins 247.000
Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar AFE 2.586.000
Markaðsstofa ferðamála 950.000
Flugklasi  574.000
Samtök sjávarútvegssveitarfélaga 50.000
Málefni fatlaðs fólks, greiðsla til SSNV 0,25% 14.469.000
Framhaldsskólar við Eyjafjörð 3.248.000
Barnavernd, nefndin 288.000
Menningarráð Eyþings (kr. 694.052 árið 2012)  850.000
Háskólinn á Akureyri vegna bókasafns 2012 65.907
 UMSE  1.100.000
Símey 1.000.000
Gásakaupstaður 200.000
Orlofssjóður húsmæðra  200.000
Ferðastyrkir til framhaldsskólanema 1.700.000
Umferðarskólinn 100.000
Almannavarnarnefnd Eyjafjarðar 130.000
Svæðisskipulag Eyjafjarðar 46.000
Heilbrigðiseftirlit Eyjafjarðar 1.398.000
Flokkun Eyjafjörður ehf. 840.000
Vinabæjartengsl, erlend 225.000


Ég hef gjarnan miðað Dalvíkurbyggð við Fjallabyggð og Snæfellsbæ þegar fjallað er um stöðu einstakra þátta í rekstri. Sveitarfélögin eru um margt lík. Skuldahlutfall þeirra er svipað, ríflega 80%. Samanburður á tekjum er hinsvegar þannig að m.v. ársreikning 2012 eru heildartekjur á íbúa í Dalvíkurbyggð 870 þús. í Fjallabyggð 884 þúsund og í Snæfellsbæ 1.036 þúsund. Skatttekjur eru langlægstar í Dalvíkurbyggð eða 406 þús. á móti 451 þús. í Fjallabyggð og 541 þús. í Snæfellsbæ.


Þrátt fyrir að Dalvíkurbyggð sé lægri en þessi samanburðarsveitarfélög þegar tekjur á mann eru skoðaðar, og þar með tekjur sveitarfélagsins eða það sem við höfum úr að spila, þá erum við að gera vel þegar margt í rekstrinum er skoðað og við getum verið stolt af því hve vel er verið að gera á ýmsum sviðum. Rekstrarútgjöld, laun og annar rekstrarkostnaður er lægstur pr. íbúa í Dalvíkurbyggð, 441 í laun og 297 í annan rekstrarkostnað, en hæstur í Snæfellsbæ 489 í laun og 353 í annan rekstrarkostnað. Fjallabyggð er með 464 í laun og 301 í annan rekstur.


Það er því ástæða til að þakka starfsmönnum og stjórnendum Dalvíkurbyggðar vel unnin störf.


Ég vil þakka stjórnendum hjá Dalvíkurbyggð vinnu þeirra við þessa fjárhagsáætlun. Þeir sýna yfirleitt ábyrgð og metnað varðandi sínar áætlanir og óskir um viðbót eða nýmæli. Þá vil ég þakka byggðaráði og öðrum kjörnum fulltrúum góða samvinnu gerð þessarar fjárhagsáætlunar og ítreka mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar ræði sig til sanngjarnrar niðurstöðu um sem flest mál.