Fjárhagsáætlun 2006

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar þann 20. desember síðastliðinn fór fram síðari umræða um fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2006. Var fjárhagsáætlunin samþykkt með 7 atkvæðum en Marinó Þorsteinsson og Óskar Gunnarsson sátu hjá við atkvæðagreiðsluna eins og fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar.

Samkvæmt fjárhagsáætlun 2006 er gert ráð fyrir að samanteknir reikningar A og B hluta verði gerðir upp með neikvæðri rekstrarniðurstöðu sem nemur 29.704 þús.kr. Við endurskoðaða fjárhagsáætlun ársins 2005 var sambærileg tala 40.089 þús.kr. sem þó hafði lækkað úr 105,0 millj.kr. frá upphaflegri áætlun yfirstandandi árs. Eigið fé lækkar um niðurstöðu rekstrarreiknings og áætlað að það verði í árslok 2006 282.482 þús.kr. Í upphaflegri áætlun ársins 2005 ásamt 3ja ára áætlun fyrir árin 2006, 2007 og 2008 var gert ráð fyrir að eigið fé í árslok 2006 yrði 59.451 þús.kr. Samanborið við núverandi áætlun, sem eins og fyrr sagði er 282.482 þús.kr. Mismunur þessara áætlana eða 223 m.k. er að nokkru mælikvarði á jákvæða þróun fjárhagsstöðu Dalvíkurbyggðar 2ja síðustu ára og áætlunar fyrir komandi ár.  Nokkur árangur hefur því náðst í lækkun útgjalda og tekjur hafa hækkað.

Annar mælikvarði á rekstrarstöðu er sjóðstreymisyfirlit. Þar kemur fram að veltufé frá rekstri er 104,3 m.kr. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er 100,1 m.kr.  Í heild eru lántökur áætlaðar 58,0 m.kr. þegar afborganir eldri lána eru 65,0 m.kr. og reiknað er með að veltufé í árslok 2006 verði 80,6 m.kr. og þar með veltufjárhlutfall ásættanlegt eða 1,11 eins og fram kemur í lykiltölum.

Þessi niðurstaða fjárhagsáætlunar Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2006 bendir því til þess að fjármál sveitarfélagsins séu að  þróast í rétta átt. Þrátt fyrir að fjárhagsstaða sé enn neikvæð hefur mikill árangur náðst í þá átt að draga úr hallanum og er það vel. Eins og fram kemur hérna að ofan er gert ráð fyrir neikvæðri rekstarniðurstöðu sem nemur 29.704 þús.kr, en samanborið við fjárhagsáætlun ársins 2005 var gert ráð fyrir 105,0 millj. kr. og er það lækkun um 75.296 þús. kr.