Afslættir á gjöldum vegna Covid19

Afslættir á gjöldum vegna Covid19
Byggðaráð Dalvíkurbyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum eftirfarandi afslætti af gjöldum, tímabundið vegna skertrar þjónustu af völdum kórónu veirunnar. Eftirfarandi úrræði voru síðan samþykkt samhljóða á aukafundi sveitarstjórnar:

Leikskólar:
Ekkert gjald fyrir barn sem foreldrar hafa heima á tímabilinu.
Ekkert gjald þann tíma sem/ef leikskóli lokar alfarið á tímabilinu.
50% gjald fyrir barn sem er skráð annan hvern dag í leikskóla á tímabilinu.
100% gjald fyrir barn sem er skráð alla daga í leikskóla vegna forgangs.

Sé um að ræða fleiri útfærslur á vistunartíma gildir að greitt er fyrir þá þjónustu sem veitt er. Vistunartími þarf að vera skilgreindur í samráði við leikskólastjóra.

Grunnskólar:
Frístund, vegna skertrar þjónustu verður innheimt eftir þeim tímafjölda sem nýttur er hjá hverju barni á tímabilinu.
Skólamáltíðir, ekki er greitt fyrir skólamat á meðan nemendur eru heima að tilstuðlan skólastjórnenda eða heilbrigðisyfirvalda.

Innheimta:
Innheimtu, vegna leikskólagjalda, frístundar og skólamáltíða seinkar um einn mánuð. Þannig verða ekki sendir reikningar um mánaðarmót mars/apríl og gjöldin því tímabundið eftir á greidd. Í lok apríl verða sendir út reikningar fyrir apríl með leiðréttingu fyrir mars.

Ofangreindur afsláttur frá venjulegri gjaldtöku er tímabundinn og gildir aðeins á meðan þjónusta er skert vegna kórónuveiru faraldursins. Þegar auglýst verður að þjónustan falli aftur í eðlilegt horf fellur afslátturinn niður."

Með fundarboði fylgdi einnig tillaga um tímabundnar aðgerðir fyrir fyrirtæki í Dalvíkurbyggð sem og tillögur að viðspyrnuaðgerðum á framkvæmda- og fjárfestingaáætlun Dalvíkurbyggðar 2020. Þá hefur byggðaráð til skoðunar frekari tillögur að viðspyrnuaðgerðum sem verða til umræðu á komandi vikum.


Þá samþykkti sveitarstjórn einnig samhljóða með 7 atkvæðum eftirfarandi tímabundnar aðgerðir fyrir fyrirtæki og atvinnulíf:

Fyrirtæki í skilum, sem hafa orðið/verða fyrir umtalsverðu tekjutapi vegna COVID-19, geti sótt um gjaldfrest fasteignagjalda og hitaveitugjalda út júní 2020. Fyrirkomulag greiðslu frestaðra gjalda sé unnið í samvinnu sviðsstjóra og innheimtufulltrúa við hvert og eitt fyrirtæki. Yfirlit um allar aðgerðir verði til kynningar og umsagnar í byggðaráði. Lögð er áhersla á Samband íslenskra sveitarfélaga og ríki komi upp þjónustugátt til að fyrirtæki geti sótt um frestun gjalda sinna á einum stað.

Starf þjónustu- og upplýsingafulltrúa verði tímabundið skilgreint með aukna áherslu á stuðning við atvinnulíf sem og markaðssetningu á sveitarfélaginu upp úr öldudalnum.

Á framkvæmda- og fjárfestingaáætlun 2020 eru alls rúmlega 350 miljónir króna.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum eftirfarandi breytingar á framkvæmda- og fjárfestingaáætlun 2020:

Fjárfesting í nýjum slökkvibíl sem átti að kaupa árin 2020 og 2021 verði frestað og verði einungis á árinu 2021. Þetta er gert vegna óhagstæðs gengis og vegna þess að þetta fjármagn fer beint út úr byggðarlaginu. Með þessari aðgerð verður hægt að nýta þær 27 miljónir sem ætlaðar voru til kaupa slökkvibíls árið 2020 til atvinnuskapandi verkefna á árinu 2020. Sveitarstjórn telur öryggi brunavarna sveitarfélagsins ekki ógnað þó þessi fjárfesting frestist enda með öflugan búnað og slökkvilið til að mæta verkefnum nú sem fyrr.

Af þessum 27 miljónum verði 15 miljónir nýttar til að flýta framkvæmdum við lóð Dalvíkurskóla og ljúka þeim á árinu 2020.

Eftirstöðvarnar, alls 12 miljónir, fari í atvinnuskapandi verkefni og átaksverkefni svo sem:
átak/hreinsun/grisjun í skógreitum og tiltekt eftir óveðrið í desember
viðgerð á girðingum eftir óveðrið í desember
fegrun opinna svæða í öllum þéttbýliskjörnum (t.d. þvottaplön o.fl.)
göngustíga og aðgengi að útivistarsvæðum
viðhaldsverkefni eignasjóðs
markaðssetningu á sveitarfélaginu upp úr öldudalnum.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum eftirfarandi tvær bókanir:

Sveitarstjórn felur byggðaráði að vinna áfram úr frekari hugmyndum, sem lagðar voru fram á fundinum, að viðspyrnuaðgerðum í Dalvíkurbyggð vegna COVID-19.

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar biðlar til Ríkisstjórnarinnar að huga að fyrirtækjum sem hafa alla sína tekjuöflun og innkomu á tímabilinu janúar til júní ár hvert, og bjóða þeim lengri greiðslufresti á gjöldum. Þetta á t.d. við um fyrirtæki sem byggja alla sína afkomu á skíðavertíðinni, s.s. rekstraraðila skíðasvæða og fjallaskíðafyrirtæki.