10 ára afmæli Bergs menningarhúss

10 ára afmæli Bergs menningarhúss

Þann 5. ágúst sl. voru liðin 10 ár frá því að Berg menningarhús var tekið í notkun við hátíðlega athöfn. Af því tilefni var ákveðið að bjóða í afmæli. Dagur Óskarsson, framkvæmdarstjóri menningarhússins hélt utan um dagskrána sem var afar fjölbreytt og skemmtileg.

Björk Hólm Þorsteinsdóttir, forstöðumaður safna talaði um söfnin í Dalvíkurbyggð og það hvað menningarhúsið er mikill griðarstaður fyrir íbúa og ferðamenn. Í því sambandi minntist hún á að safnið væri hinn fullkomni þriðji staður í okkar lífi. Öll eigum við okkur nefnilega tvo aðalstaði í lífinu sem í flestum tilfellum eru heimili og vinnustaður. Björk benti á að í menningarhúsinu væri hægt að njóta sín og eiga stund bæði á kaffihúsi og á bókasafni sem oft verða fyrir valinu sem þriðji staðurinn. 

Svanfríður Inga Jónasdóttir, formaður stjórnar menningarhússins talaði um sögu hússins sem nú spannar 10 ár og þá myndlistamenn og sýningar sem haldnar hafa verið í húsinu í gegnum árin. Húsið hefur vissulega auðgað menningarlíf íbúanna á margan hátt.

Guðmundur Ármann, listamaður hélt tölu sem fjallaði um það hvort við þurfum list í lífinu. Hans svar var já, því það er list allt í kringum okkur. Í fötunum okkar, í bílunum okkar, málningunni á veggjunum okkar o.s.frv. Vissulega góður rökstuðningur fyrir svari listamannsins.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, hélt hátíðarræðu í tilefni dagsins sem lesa má í heild sinni neðst í þessari frétt.

Þeir Snævar Örn Ólafsson og Gísli Rúnar Gylfason og  svo sönghópur úr Sölku kvennakór voru með tónlistaratriði og í lokin var svo boðið upp á kaffi og pönnukökur.

Afmæli Bergs.

Kæra stjórn og framkvæmdastjóri Bergs, íbúar Dalvíkurbyggðar og aðrir gestir.

Í dag höldum við stolt upp á það að Berg menningarhús á 10 ára afmæli. Þó að húsið sé ungt að árum finnst mörgum eins og það hafi verið hérna lengur. Húsið er fyrir löngu búið að skipa sér sess meðal helstu kennileita byggðarlagsins. Það má segja með sanni að Berg er mjög vel heppnað hús, glæsileg bygging og staðsetningin skemmtileg í hjarta byggðarkjarnans á Dalvík, í miðbænum.
Þetta er falleg og tignarleg bygging sem setur svip sinn á staðinn og vekur athygli vegfarenda. Hönnun hússins afar vel heppnuð og litirnir í byggingunni sérstaklega fallegir saman. Svo er nafnið tignarlegt og hæfir húsinu vel. Ekki er síður fallegt inni í byggingunni. Hátt til lofts og vítt til veggja. Og það er rólegt og friður að sitja við gluggana í dagsins önn og virða fyrir sér mannlífið.

Strax við hönnun byggingarinnar var hugsað um að það þyrfti að vera daglegt líf í húsinu. Það hefur tekist mjög vel. Bókasafnið dregur að sér fólk á hverjum degi og hæfir starfseminni hússins. Kaffihúsið er líka löngu orðinn hluti af starfseminni og fer vel með lestrinum og listinni.  Ráðstefnusalurinn er skemmtilegur til sýninga hvers konar og fundahalds en mætti samt vera meira notaður. Andinn er góður í húsinu. Það er gott starfsfólk á öllum vígstöðvum og þægilegt að koma og njóta þess sem húsið hefur upp á að bjóða.

Að eiga menningarhús eru forréttindi fyrir byggðarlag af okkar stærðargráðu. Það skiptir miklu máli fyrir menningarlíf staðarins og orðspor Dalvíkurbyggðar út á við. Það er sérstaklega gaman að geta boðið þessa aðstöðu til listviðburða og stórviðburða eins og t.d. Klassík í Bergi, Bergmál og Gestaboð Kristjönu þar sem framúrskarandi listamenn hafa komið fram.
Dalvíkurbyggð er mjög rík af menningarlífi. Hér eru margir kórar, leiklist, myndlist og frjótt listafólk. Húsið hefur mikla merkingu fyrir starfsemi þessa alla og lyftir menningarlífi byggðarinnar á hærri stall.

Rétt er að geta þess við þessi tímamót að Dalvíkurbyggð er það sveitarfélag í Eyjafirði sem leggur mest til menningarmála á hvern íbúa eða, samkvæmt árbók sveitarfélaga, rúmlega 49.000 kr. á íbúa. Það næsta í röðinni ver 10 þúsund krónum minna til menningarmála á hvern íbúa. Þarna megum við vera stolt.

Þegar litið er til baka síðustu 10 ár má segja að barnið hafi vaxið vel úr grasi og erfitt er að hugsa sér byggðina án Bergs menningarhúss.

Ég þakka fyrir að fá að ávarpa samkomuna, óska afmælisbarninu og aðstandendum þess til hamingju á þessum tímamótum og vona að starfsemin í húsinu megi blómstra um ókomin ár.