Könnun meðal íbúa vegna verkefnisins Nýtt hlutverk fyrir Gamla skóla

Könnun meðal íbúa vegna verkefnisins Nýtt hlutverk fyrir Gamla skóla

Dalvíkurbyggð hefur fengið 35 milljón kr. styrk úr sóknaráætlun vegna Friðlandsstofu – Anddyri Friðlands Svarfdæla. Unnið er út frá því að verkefnið fái stað í Gamla skóla sem verði endurbyggður. Þangað flytji Byggðasafnið og fuglasýningin verði sett upp í húsnæðinu. Hvoll verði seldur. Byggðasafnið hefur einnig fengið 10 milljónir króna í öndvegisstyrk úr Safnasjóði vegna verkefnisins.

Í kostnaðarmati verkfræðistofu er áætlað að endurbygging Gamla skóla kosti tæpar 200 milljónir króna. Þar af er kostnaður vegna elsta hlutans um 45 milljónir króna. Við endurbyggingu á gömlu húsnæði kemur oftar en ekki eitthvað upp á sem veldur auknum kostnaði eða frávikum og því eingöngu um áætlun að ræða. Ríkiseignir eiga 72% í Gamla skóla en hafa samþykkt að afsala eignarhluta sínum til Dalvíkurbyggðar gegn því að húsið verði nýtt til almenningsheilla.

Byggðaráð hefur rætt til samanburðar möguleikann á nýbyggingu nálægt núverandi safnastarfsemi sem myndi hýsa Friðlandsstofu, Byggðasafnið og fuglasýninguna. Kostnaður við slíka framkvæmd gæti verið sambærilegur endurbyggingu á Gamla skóla en mögulega mætti ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri.

Því er eftirfarandi könnun lögð fram og óskað eftir áliti íbúa Dalvíkurbyggðar á málinu. Íbúar 18 ára og eldri með lögheimili í Dalvíkurbyggð geta tekið þátt í könnuninni.

ATH – einungis er um könnun er að ræða en ekki bindandi kosningu.

Könnuninni er svarað í íbúagátt Dalvíkurbyggðar – min.dalvikurbyggd.is Könnunin verður opin fyrir íbúa til og með 7. júní og niðurstöður kynntar í byggðaráði 10. júní nk. Velja skal einn lið könnunarinnar. Einnig verður hægt að koma á framfæri skriflegri athugasemd, eða öðrum kostum, á irish@dalvikurbyggd.is.

Valmöguleikar í könnuninni eru eftirfarandi:

  • Ég vil að allur Gamli skóli verði endurbyggður. Nýi hlutinn fyrir Friðlandsstofu, Byggðasafnið og fuglasýninguna en elsti hlutinn til útleigu eða annarra verkefna sveitarfélagsins. Hvoll verði seldur. (Kostnaður við endurbyggingu að lágmarki 200 milljónir króna).
  • Ég vil að nýi hluti Gamla skóla verði endurbyggður fyrir Friðlandsstofu, Byggðasafnið og fuglasýninguna. Gamli hlutinn verði rifinn eða seldur. Hvoll verði seldur. (Kostnaður við endurbyggingu um 155 milljónir króna).
  • Ég vil að Gamli skóli verði seldur og að byggt verði nýtt hús fyrir starfsemi Friðlandsstofu, Byggðasafnsins og fuglasýninguna. Nýbyggingin verði nálægt núverandi safnastarfsemi. Hvoll verði seldur. (Kostnaður við nýbyggingu að lágmarki 200 miljónir króna)
  • Ég vil að Byggðasafnið verði áfram í Hvoli, Friðlandsstofu verði fundinn staður nálægt núverandi safnastarfsemi og að Gamli skóli verði seldur. (ATH – sé þessi kostur valinn fellur öndvegisstyrkur úr Safnasjóði kr. 10 milljónir niður).