Gistiheimilið Árgerði nær Green Globe vottun

Gistiheimilið Árgerði nær Green Globe vottun

Gistiheimilið Árgerði, www.argerdi.com, hefur nýverið náð viðmiðum green Globe 21 umhverfismerkisins.  Unnið hefur verið að þessu markmiði í rúmt ár frá því að núverandi eigendur tóku við Árgerði og stofnuðu Ferðaþjónustuna Árgerði ehf. Ferðaþjónustan Árgerði býður bæði upp á gistingu og afþreyingu fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn.  Næsta skref er að fá fullnaðarvottun Green Globe 21.  Til að fá slíka vottun þarf óháður þriðji aðili að votta að ferðaþjónustufyrirtæki hafi náð að uppfylla kröfur Green Globe 21 með tilliti til umhverfsimála.  Árgerði fær viðurkenningu fyrir árangurinn sem gildir til eins árs í senn, en á hverju ári þarf að staðfesta og betrumbæta árangurinn.  Gistiheimilið Árgerði hefur lagt mikla vinnu í að mæla viðmið vegna orku- og vatnsnotkunar, sorpmyndunnar og förgunar og koma í framkvæmd samþættri umhverfis- og samfélagsstefnu.  Árgerði þykir m.a. hafa náð framúrskarandi árangri í orkunotkun og verndun auðlinda.  Þetta er mikilvægur áfangi fyrir fyrirtækið og góð hvatning fyrir þá sem eru að stuðla að umhverfisvænni starfsháttum í samstarfi við Green Globe 21.

Green Globe 21 eru alþjóðleg samtök sem vinna að umhverfsimálum með neytendum, fyrirtækjum og samfélögum að þróun sjálfbærari ferðaþjónustu í anda Staðardagsrká 21.  Árgerði er sjötta fyrirtækið á Íslandi til að ná viðmiðum Green Globe 21, en í dag eru 33 fyrirtæki aðilar að Green Globe 21 á Íslandi, auk þess hafa öll sveitarfélög á Snæfellsnesi sameinast um aðild sem 1 áfangastaður.  Háskólinn á Hólum er úttektaraðili fyrir Green Globe 21 hér á Íslandi.  Nánari upplýsingar um Green Globe 21 ferlið er að finna á heimasíðu Hólaskóla www.holar.is  og Green Globe 21 www.greenglobe21.com