Fiskidagurinn mikli heiðrar árið 2009 minningu Kristins Jónssonar netagerðarmeistara

Fiskidagurinn mikli hefur frá upphafi heiðrað þá sem hafa með störfum sínum í sjávarútvegi haft áhrif á atvinnusögu þessa byggðarlags eða jafnvel landsins alls.


Frumkvöðlar og kraftmikið fólk fyllir þann hóp.

Nú hafa verið settir upp við byggðasafnið Hvol minnisvarðar um þau sem hafa verið heiðruð á undanförnum árum og í dag bætist enn í þann fríða flokk.


Árið 2009 heiðrar Fiskidagurinn mikli minningu manns sem var allt í senn, kraftmikill, frumkvöðull í atvinnurekstri á landsvísu og félagsmálamaður hér í heimabyggð.


Kristinn Jónsson netagerðameistari setti mikinn svip á mannlífið hér á Dalvík á fyrri hluta og fram yfir miðja 20. öld. Kristinn starfrækti netaverkstæði frá árinu 1928 og til ársins 1964, eða í 36 ár. Fyrirtæki hans sem var um tíma eitt hið öflugasta á landinu, þjónaði stórum hluta þess flota sem stundaði síldveiðar við Ísland þegar hún var hvað öflugust fyrir Norðurlandi.

Þjónustu við síldveiðiflotann hafði Kristinn víðar en hér á Dalvík, svo sem á Siglufiði, Hjalteyri, Vopnafirði og Seyðisfirði. Fyrir þessi mikilvægu störf og fyrir þátttöku og oft forystu í félagsmálum hér í heimabyggð er minning Kristins Jónssonar heiðruð.

Auk öflugs atvinnurekstrar sat Kristinn samfellt í sveitarstjórn í 28 ár, þar af 4 ár sem oddviti. Hann var líka í 22 ár formaður hafnarnefndar. Þó Kristinn stundaði umsvifamikinn atvinnurekstur var hann jafnframt formaður Verkalýðsfélags Dalvíkur í 19 ár. Hann var lengi formaður byggingarnefndar verkamannabústaða og á þeim árum voru fjölmörg hús byggð á Dalvík á vegum nefndarinnar. Þá var hann lengi formaður og framkvæmdastjóri Pöntunarfélags alþýðu á Dalvík (PAD).

Kristinn var auk alls þessa sundkennari á Dalvík og í Svarfaðardal í 30 ár og alla tíð titlaður sundkennari og flestir Dalvíkingar þekktu hann sem Kidda sund. Kristinn Jónsson setti svo sannarlega mark sitt á þetta byggðarlag og sér þess víða stað enn þann dag í dag.