Covid-staðan í Dalvíkurbyggð (Uppfært daglega)

Covid-staðan í Dalvíkurbyggð (Uppfært daglega)

Upplýsingar dagsins á stöðulista Lögreglunnar á Norðurlandi eystra liggja fyrir og nú er ljóst að í dag, 23. nóvember er enginn í einangrun með staðfest smit og  enginn í sóttkví í Dalvíkurbyggð.

 

_________________________________________________________________

Hvatning til íbúa á Norðurlandi eystra frá Almannavörnum og lögreglunni.
Nú hafa aðstæður á Norðurlandi eystra þróast með þeim hætti að full ástæða er til þess að aðgerðastjórn almannavarna í umdæmi Lögregulstjórans á Norðurlandi eystra hvetji íbúa svæðisins til einbeittrar samstöðu í baráttu við kórónuveiruna. Smitum á svæðinu hefur fjölgað undanfarna daga og því nauðsynlegt að hvert og eitt okkar geri það sem hægt er til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar. Allir kunna viðbrögðin, allir geta gert sitt og nú þurfum við öll að standa saman. Persónubundnar sóttvarnir verða að vera í lagi ef árangur á að nást. Reglulegur handþvottur, sprittun, grímunotkun þar sem hún á við og virðing fyrir nálægðarmörkum við annað fólk er lífsnauðsynleg í baráttunni við þennan vágest sem veiran er. Stöndum okkur öll sem eitt í að virða sóttvarnarreglur og tökum fullt tillit til þeirra tilmæla sem gefin eru út af sóttvarnarlækni. Forðumst öll ferðalög og mannamót eins og frekast er unnt. Gerum þetta saman, gerum þetta vel og sýnum samstöðu, okkar allra vegna.

 

Upplýsingar um ferli, fyrir íbúa:

Fái einstaklingur greiningu um að hann sé með Covid er unnið út frá því að allir sem í miklu návígi við hann voru 24klst áður en einkenni gerðu vart við sig skulu fara í sóttkví. Þegar átt er við mikið návígi er talað um innan við tvo metra í meira en fimmtán mínútur. Þó einstaklingur fari í sóttkví þá fer fjölskylda þess aðila ekki endilega líka í sóttkví og er því mikilvægt að leggja sig fram við að halda reglum um sóttkví í lengstu lög á heimili eða kljúfa sig frá öðrum meðan á sóttkví stendur.

Æskilegt er að þeir sem voru í mestu návígi við greindan einstakling fari strax í sóttkví og er hún þá sjálfskipuð á þeim tímapunkti á meðan rakningarteymi vinnur. Álag á rakningarteyminu er mikið og því er mikilvægt er að hafa Rakning C-19 appið uppsett á síma sínum til að aðstoða við rakningu.

Hvað má ekki gera í sóttkví:

Ekki fara til vinnu eða í skóla, ekki fara á mannamót að neinu tagi, ekki fara sjálfur í búð, apótek, veitingastaði, sundlaugar eða annað þar sem fólk kemur saman á og ekki fara út að keyra.
Það má ekki taka á móti gestum, ekki dvelja í sameiginlegum rýmum, eða útivistasvæðum.
Börn sem ekki hafa þroska til að halda fjarlægð við foreldra í sóttkví eða huga að eign hreinlæti verða að vera með foreldrum í sóttkví.

Hvað má gera:

Það má fara út á svalir og í garð sem er til einkanota, það má fara í gönguferðir í nærumhverfi sóttkvíarstaðar en þarf að halda a.m.k 2m fjarlægð frá öllum öðrum vegfarendum. Börn foreldra sem eru í sóttkví mega fara í skóla og út að leika ef þau hafa þroska til að halda fjarlægð við foreldra og sinna eigin hreinlæti. Börn mega ekki fá gesti á heimilið.

Á heimasíðu Landlæknis eru frekari upplýsingar í meiri smáatriðum. Hér að neðan má nálgast þær upplýsingar: 

Leiðbeiningar fyrir almenning um einangrun í heimahúsi
Leiðbeiningar fyrir almenning varðandi heimasóttkví
Börn í sóttkví – leiðbeiningar og tillögur til forráðamanna

Ég biðla enn til íbúa um að sýna fulla aðgát og standa saman í baráttunni við vágestinn.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.