COVID-19; Áhrif á þjónustu og starfsemi félagsþjónustu Dalvíkurbyggðar og þjónustu við fatlað fólk á þjónustusvæði Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar

COVID-19;  Áhrif á þjónustu og starfsemi félagsþjónustu Dalvíkurbyggðar og þjónustu við fatlað fólk …

Í ljósi tilmæla almannavarna, sóttvarnarlæknis og landlæknis um lokanir, samkomubann, fjöldatakmarkanir, takmarkanir á þjónustu og hertar kröfur um hreinlæti vegna COVID-19 sem fyrst og fremst beinast að því að verja aldraða og viðkvæma hópa sem eru sérstaklega útsettir fyrir alvarlegum veikindum af völdum COVID-19 hefur félagsþjónustan gert eftirfarandi ráðstafanir til að draga úr smithættu og útbreiðslu smits. 

Okkur þykir leitt að þurfa að grípa til þessara aðgerða en erum einungis að fylgja tilmælum sérfræðinga okkar til þess að sporna við útbreiðslu COVID-19.  Einnig  er staðan sú að félagsþjónusta samanstendur af ákveðnum starfsmannahóp sem er ekki stór, eins og staðan er í dag.  Þessi starfsmannahópur er að vinna víða í kerfinu hjá okkur, þar af leiðandi þarf að vernda þann hóp og ekki síst þann hóp sem þau eru síðan að þjónusta.  Ef þessir starfsmenn falla úr vinnu höfum við afar litla bakvarðarsveit til að taka við í þjónustunni.

Skammtímavistun verður opin en þó með takmörkunum þar sem þjónustuhópur málefna fatlaðra ákvað á fundi sínum að einungis einn þjónustuþegi verði í skammtímavistun í einu og einn starfsmaður á hverri vakt.  Einnig verður forgangsraðað í skammtímavistun þannig að þeir sem eru í mestri þjónustuþörf ganga fyrir.  Einhver skerðing á fjölda sólarhringa gæti því orðið á næstu vikum.  Forstöðumaður skammtímavistunar mun hafa samband við foreldra og skipuleggja dvöl einstaklinganna.  Þjónustuþegum og aðstandendum er einnig bent á að hafa sambandi við forstöðumann skammtímavistunar í Skógarhólum ef eitthvað er í síma eða á netfangið:  hildurbj@dalvikurbyggd.is

Fyrir þá sem hafa verið að vinna í atvinnu með stuðningi, hafa ekki  allir getað verið á sínum hefðbundna vinnustað, sumir hafa þurft að fara í frí í mánuð, aðrir þurft að minnka vinnutímann,  á meðan aðrir fara út fyrir sitt venjulega starfssvæði. Þar af leiðandi breytist starfsemin en einstaklingarnir fá flestir enn þá þjónustu þó hún sé með breyttu sniði.  Hugsanlega þarf þó að endurskoða það á næstu dögum. Þjónustuþegum og aðstandendum er bent á að hafa samband við starfsmenn félagsþjónustu í síma 460-4900 eða í  netfangið: tota@dalvikurbyggd.is

Fatlaðir nemendur í framhaldsskóla sem nú eru í heimanámi frá skólanum munu ekki getað fengið aukna félagsþjónustu á þeim tíma er skólinn hefði átt að fara fram.

Félagsleg liðveisla og stuðningsfjölskyldur verða áfram veittar með óbreyttu fyrirkomulagi, allavega enn sem komið er. Hins vegar geta þeir sem veita þjónustuna metið aðstæður hjá sér út frá ráðleggingum sóttvarnarlæknis. Er þá þjónustan veitt og ákveðin í samvinnu starfsmanna og viðkomandi þjónustuþega. 

Ákvörðun hefur verið tekin að loka Iðju- dagþjónustu fyrir fatlað fólk sem staðsett er í Fjallabyggð frá og með 11. mars 2020 þar til annað verður formlega tilkynnt.    

Önnur almenn félagsþjónusta er með breyttu sniði þar sem ekki er boðið upp á viðtöl á skrifstofum sveitarfélaganna en við bendum á að hafa samband við félagsmálastjóra í síma 460-4910 eða á netfangið: eyrun@dalvikurbyggd.is og finnum við lausnir sem henta öllum.

Félagsleg heimaþjónusta og heimsendur matur verður áfram veitt með óbreyttu fyrirkomulagi, allavega enn sem komið er.  Komi til veikinda starfsfólks í þrifum og annarri þjónustu við eldri borgara gæti þurft að forgangsraða þjónustu eða leggja hana niður tímabundið. Verður það gert í samráði við notendur.   Þjónustuþegum og aðstandendum er bent á að hafa samband við starfsmenn félagsþjónustu í síma 460-4900 eða í netfangið: heida@dalvikurbyggd.is

Með ósk um samvinnu og skilning á þessum erfiðu og skrítnu tímum sem nú eru uppi í samfélaginu.

Með hlýrri kveðju,

Þjónustuhópur málefna fatlaðra í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð,

Eyrún Rafnsdóttir                                                       Hjörtur Hjartarson

Sviðsstjóri félagsmálasviðs                                        Deildarstjóri fjölskyldudeildar

Dalvíkurbyggðar                                                        Fjallabyggðar