Byggðaráð

962. fundur 22. október 2020 kl. 13:00 - 16:30 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Starfs- og fjárhagsáætlun 2021 og 3ja ára áætlun 2022-2024;

Málsnúmer 202005082Vakta málsnúmer


Framhald á yfirferð byggðaráðs á tillögum fagsviða og fagráða:
a) Tillögur að fjárhagsáætlun vs. fjárhagsramma- tillögur eftir ábendingar um breytingar.
b) Beiðnir um búnaðarkaup - tillögur eftir tilmæli byggðaráðs um niðurskurð.
c) Tillögur um viðhald Eignasjóðs- tillögur eftir tilmæli byggðaráðs um lækkun viðhaldsáætlunar í samræmi við ramma.
d) Tillögur um framkvæmdir og fjárfestingar 2021-2024 - tillögur eftir ábendingar byggðaráðs.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kynnti ofangreind vinnugögn og tillögur að breytingum á milli funda.
Lagt fram til kynningar og vísað áfram til áframhaldandi vinnu við starfs- og fjárhagsáætlun 2021-2024.

2.Frá sviðsstjórum fræðslu- og menningarsviðs og félagsmálasviðs; Skólaakstur í Menntaskólann á Tröllaskaga.

Málsnúmer 202010086Vakta málsnúmer

Tekið fyrir minnisblað frá sviðsstjórum fræðslu- og menningarsviðs og félagsmálasviðs, dagsett þann 19. október 2020, þar sem lagt er til að haldið verði áfram að gera ráð fyrir kostnaði vegna skólaakstur nemenda í Menntaskólann á Tröllaskaga í fjárhagsáætlun 2021.

Gert er ráð fyrir kr. 2.000.000 árið 2021 samkvæmt fyrirliggjandi tillögum á málaflokk 04.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fresta ofangreindu erindi og óska eftir nánari upplýsingar.

3.Frá Íþrótta- og æskulýðsráði; Staða íþróttafélaga vegna COVID19

Málsnúmer 202004008Vakta málsnúmer

Tekið fyrir minnisblað frá íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, dagsett þann 14. október 2020, þar sem fram kemur
á árlegum fundi með íþróttafélögum og íþrótta- og æskulýðsráði 1. september sl. var rædd fjárhagsstaða íþróttafélagana Var það sameiginleg niðurstaða að þau félög sem töldu sig þurfa aukið fjármagn til að bregðast við ástandinu myndu senda inn erindi um slíkt fyrir 1. október.
Íþrótta- og æskulýðsráð tók fyrir erindin á fundi 6. október.
Óskir félaga eru eftirfarandi:
Skíðafélag Dalvíkur: 6.000.000.-
Sundfélagið Rán: 380.000
Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar UMFS: 600.000
Blakfélagið Rimar: 486.000
Meistaraflokkur Dalvík/Reynir: óskar eftir umræðu um starfsmann
„Uppi eru hugmyndir milli Barna- og unglingaráðs og Knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis um að ráða inn starfsmann í nýtt starf fyrir félagið. Starfsmaður sem myndi sinna yfirþjálfun barna og unglinga, framkvæmdastjórahlutverki ásamt öðrum tilfallandi verkefnum fyrir félagið í heild. Fordæmi fyrir slíkum störfum má finna hjá nokkrum félögum í okkar stærðarflokki en búið er að lista upp grófa starfslýsingu á slíku starfi.“

Íþrótta- og æskulýðsráð var á því að það þurfi að bregðast við fjárhagslegu tjóni sem íþróttafélögin hafi orðið fyrir og bregðast þurfi við með auknu fjármagni strax á þessu ári.
Einnig er lagt til að tekin verðu upp umræða um starfsmann samhliða endurskoðun á rekstrarhluta íþróttasvæðis UMFS en samkvæmt samningi átti að skoða þær tölur í ljósi reynslu við gerð fjárhagsætlunar 2020.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fresta ofangreindu erindi og óskar eftir frekari upplýsingar, s.s. ársreikningum /áætlunum ofangreindra félaga.
Jafnframt óskar byggðaráð eftir að íþrótta- og æskulýðsfulltrúi komi á fund byggðaráðs.

4.Gjaldskrár 2021; tillögur frá fagráðum - fyrri umfjöllun.

Málsnúmer 202009099Vakta málsnúmer

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi tillögur fagráða að gjaldskrá fyrir árið 2021. Til umræðu gjaldskrárbreytingar almennt í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun 2021.

Sveitarstjóri kynnti yfirferð sína á framlögðum tillögum.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að breytingar á gjaldskrám fylgi áfram verðbólguspá sem er nú 2,7% fyrir árið 2021.
Byggðaráð felur sviðsstjórum fagsviða að gera viðeigandi breytingar sem og að taka tillit til ábendinga sem fram koma í samantekt sveitarstjóra.

5.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202010023Vakta málsnúmer

Bókað í trúnaðarmálabók.

6.Frá Samgöngu - og sveitarstjórnarráðuneytinu; Frestir vegna fjárhagsáætlana 2021

Málsnúmer 202010071Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dagsettur þann 15. október 2020, þar sem vakin er athygli á að ráðuneytinu hafa borist fyrirspurnir og formleg erindi frá sveitarfélögum þar sem lagt er til að frestir sveitarfélaga til að leggja fram og afgreiða fjárhagsáætlanir verði lengdir, með vísan til þeirrar óvissu sem sveitarfélög standa frammi fyrir vegna Covid-19 faraldursins. Þá hefur Samband íslenskra sveitarfélaga tekið undir nauðsyn þess að öllum sveitarfélögum verði veittir slíkir frestir.

Þær efnahagslegu aðstæður sem skapast hafa vegna Covid-19 faraldursins fela í sér miklar áskoranir við undirbúning og framsetningu fjárhagsáætlana sveitarfélaga. Þá munu ýmsar forsendur sem liggja að baki fjárhagsáætlana sveitarfélaga koma fram seinna en áður, svo sem þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Eru þannig veigamikil rök fyrir því að veita öllum sveitarfélögum frest til framlagningar og afgreiðslu fjárhagsáætlana 2021, á grundvelli 3. mgr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í ljósi þess vill ráðuneytið koma því á framfæri að sé þess óskað verða eftirfarandi frestir veittir:

1. Byggðarráð eða framkvæmdarstjóri, eftir því sem ákveðið er í samþykkt sveitarfélags, getur lagt fram tillögu að fjárhagsáætlun eigi síðar en 1. desember 2020.

2. Að lokinni umfjöllun sveitarstjórnar getur afgreiðsla fjárhagsáætlunar farið fram eigi síðar en 31. desember 2020.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að nýta sér ofangreinda heimild til að óska eftir fresti þannig að fyrri umræða færi fram 17. nóvember n.k. í stað 3. nóvember n.k. samkvæmt fyrirliggjandi tímaramma.
Næsti sveitarstjórnarfundur verður því 27. október n.k. í stað 3. nóvember n.k. og síðan á hefðbundnum tímum í nóvember og desember.

7.Fundargerðir starfs -og kjaranefndar frá 2020

Málsnúmer 202003008Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri kynnti fundargerð starfs- og kjaranefndar Dalvíkurbyggðar frá 20, október 2020.
Lagt fram til kynningar.

8.Frá Dalvíkurskóla; Viðaukabeiðni vegna öryggismyndavélakerfis

Málsnúmer 202010061Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá skólastjóra Dalvíkurskóla, minnisblað dagsett þann 13. október 2020, þar sem óskað er eftir viðauka vegna kaupa á öryggismyndavélakerfi á skólalóð Dalvíkurskóla að upphæð kr. 2.373.220 við deild 04210. Fram kemur að borið hefur á skemmdarverkum á skólalóð, t.d. skorið á mörk á fótboltavelli, rúður brotnar, veggjakrot og almennur sóðaskapur. Fram kemur að fjárhæðin rúmast ekki innan fjárhagsramma skólans.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda beiðni um viðauka við fjárhagsáætlun 2021, viðauka nr.33 á deild 04210 og lykil 2850 að upphæð kr. 2.373.220 og að honum verði mætt með lækkun á handbæru fé, vísað til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.

9.Frá sveitarstjóra; Könnun á húsnæðisþörf 55

Málsnúmer 202010079Vakta málsnúmer

Á 956. fundi byggðaráðs þann 24. september 2020 voru til kynningar, undir fundargerð vinnuhóps um húsnæðismál, drög að könnun meðal íbúa sveitarfélagsins á aldrinum 55 ára og eldri, á þörf fyrir íbúðarhúsnæði. Byggðaráð fól sveitarstjóra að taka málið áfram.

Könnunin var framkvæmd í október, skilafrestur þann 15. okt. Alls voru send út 322 eintök. Alls skiluðu sér 101 svar eða 31% af útsendum könnunum. Búið er að vinna úr svörum og fylgdu niðurstöður með fundarboði.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til umhverfisráðs til skoðunar og úrvinnslu vegna skipulagsmála.

10.Frá SSNE; Frá samtökum ferðaþjónustunnar; Beiðni um niðurfellingu fasteignagjalda

Málsnúmer 202010057Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Samtökum ferðaþjónustunnar dagsett þann 13. október 2020, áfram sent frá SSNE samkvæmt rafósti dagsettum þann 13. október 2020, þar sem fram kemur að heimsfaraldur Covid-19 og sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa haft gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna. Atvinnurekendur í ferðaþjónustu sem reka t.d. hótel, hópferðafyrirtæki og afþreyingu þurfa því nauðsynlega að fá niðurfellingu fasteignagjalda. Ef ekki niðurfellingu þá frestun, ef ekki frestun þá lengingu í lögveði fasteignaskatta vegna ákveðinna ára. Fram kemur að sveitarfélögin þurfi því að krefjast lagabreytinga og heimilda til að fella niður fasteignaskatt og/eða fresta greiðslum.
Byggðaráð bendir á að Dalvíkurbyggð sem og öðrum sveitarfélögum er þröngur stakkur sniðinn. Fasteignagjöld eru hluti af lögbundnum tekjum sveitarfélaga sbr. lög nr. 4/1995 og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðneytið fer með málefni sveitarfélaga, þar með talin tekjustofna og fjármál sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa því lítið svigrúm til að bregðast við og heimild til frestunar greiðslu fasteignagjalda eða önnur breyting á greiðslu fasteignagjalda, fer í gegnum Alþingi, líkt og heimild til frestunar greiðslu fasteignargjalda sem samþykkt var á Alþingi 30. mars síðastliðinn.
Byggðaráð beinir Samtökum ferðaþjónustunnar og fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og erindi þeirra því til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Um leið vill byggðaráð árétta að staða sveitarfélagsins eins og annarra sveitarfélaga er þröng og hugmyndir um breytingar á greiðslu fasteignagjalda verði ekki ræddar án aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tillit tekið til áhrifa á rekstur þeirra.
Ljóst er að sveitarfélög hvorki geta né mega afsala sér lögboðnum tekjustofnum, enda yrði þá að mæta því með öðrum tekjum sem ekki blasa við nú.

11.Frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála; Tilkynning um kæru vegna breytingu á deiliskipulagi í Hóla- og Túnahverfi á Dalvík

Málsnúmer 202008005Vakta málsnúmer

Á 951. fundi byggðaráðs þann 20. ágúst s.l. var kynnt erindi frá Úrskuðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem upplýst var um tvær stjórnsýslukærur þar sem kærð er ákvörðun og afgreiðsla sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar um breytingu á deiliskipulagi Hóla- og Túnahverfi á Dalvík.

Fyrir liggur niðurstaða nefndarinnar, samanber úrskurður frá fundi nefndarinnar þann 15. október s.l., og er niðurstaðan að kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 18. febrúar 2020 um breytingu á deiliskipulagi Hóla- og Túnahverfis er hafnað.
Lagt fram til kynningar.

12.Snjómokstursútboð 2020-2023 - úrskurður kærunefndar

Málsnúmer 201911019Vakta málsnúmer

Á fundinum var lagður fram til kynningar úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 30. september 2020 í máli nr. 22/2020 Dalverk ehf. gegn Dalvikurbyggð og Steypustöðinni Dalvík ehf. Niðurstaðan er að felld er úr gildi ákvörðun varnaraðila, Dalvíkurbyggðar, um að velja tilboð Steypustöðvarinnar Dalvíkur ehf. í kjölfar útboðsins „Snjómokstur og hálkuvarnir á Dalvík 2020-2023“.
https://www.stjornarradid.is/gogn/urskurdir-og-alit-/stakur-urskurdur/?newsid=d6bd617a-0fba-11eb-8123-005056bc8c60&cname=Kærunefnd útboðsmála&cid=e219adb9-4214-11e7-941a-005056bc530c


Útboð varnaraðila, Dalvíkurbyggðar, „Snjómokstur og hálkuvarnir á Dalvík 2020- 2023“ er fellt úr gildi og lagt fyrir varnaraðila að auglýsa innkaupin á nýjan leik.
Varnaraðili, Dalvíkurbyggð, er skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Dalverk ehf., vegna þátttöku í útboðinu Snjómokstur og hálkuvarnir á Dalvík 2020-2023“ .
Varnaraðili, Dalvíkurbyggð, greiði kæranda, Dalvík ehf., 700.000 krónur í málskostnað.
Lagt fram til kynningar.

13.Frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands; Ágóðahlutagreiðsla 2020

Málsnúmer 202010083Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Eignaarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands, dagsett þann 15. október 2020, þar sem upplýst er að hlutdeild sveitarfélagsins í Sameignarsjóði EBÍ og greiðsla ársins þann 27. október n.k. verður kr. 1.178.800 eða 1,684% af 70 m.kr.
Lagt fram til kynningar.

14.Frá Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga; Aðalfundur Samtaka sjáv.útv.sveitarfélaga 2020

Málsnúmer 202010060Vakta málsnúmer

Með fundarboði fylgdi boð til aðalfundar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn verður með fjarfundaformi föstudaginn 30. október kl. 11:00 en samkvæmt samþykktum samtakanna skal haldinn aðalfundur í september- eða októbermánuði annað hvert ár og skal haldinn á sléttum ártölum.

Á aðalfundi fer hvert aðildarsveitarfélag með 1 atkvæði. Í þeim tilvikum þar sem þátttakendur frá einu sveitarfélagi eru fleiri þarf að liggja fyrir hver þeirra fer með atkvæði sveitarfélagsins.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að sveitarstjóri sitji fundinn fyrir hönd Dalvíkurbyggðar.

15.Til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000 (jöfnun atkvæðavægis), 27. mál.

Málsnúmer 202010085Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá nefndasviði Alþingis, dagsettur þann 20. október 2020, þar sem fram kemur að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sendirtil umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000 (jöfnun atkvæðavægis), 27. mál. Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 3. nóvember n.k.
Lagt fram til kynningar.

16.Frá SSNE; Fundargerðir stjórnar SSNE 2020, 14. og 15. fundur.

Málsnúmer 202002037Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórn SSNE, fundir nr. 14 og nr. 15.
Lagt fram til kynningar.

17.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga 2020

Fundi slitið - kl. 16:30.

Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs