Byggðaráð

1158. fundur 25. september 2025 kl. 13:15 - 17:00 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Helgi Einarsson formaður
  • Freyr Antonsson varaformaður
  • Lilja Guðnadóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá
Formaður óskaði eftir því að bæta tveim málum á dagskrá fundarins, undir 2.tl. máli nr. 202303150, Göngustígur meðfram Dalvíkurlínu og undir 6.tl. máli nr. 202509143, Trúnaðarmál.
Það var samþykkt samhljóða með 3 atkvæðum.

1.Skíðabraut 12, Gamli skóli,- vettvangsferð.

Málsnúmer 202103109Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom Helga Íris Ingólfsdóttir, deildarstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar og Björn Friðþjófsson, framkvæmdastjóri Tréverks ehf., til fundar við byggðaráð kl. 13:15.
Farið var í vettvangsskoðun í Gamla skóla.

Lagt fram til kynningar.

Björn vék af fundi kl. 13:47.

2.Frá deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar; Ósk um leyfi til framlengingar á verksamningi um snjómokstur og hálkuvarnir á Hauganesi og Árskógssandi.

Málsnúmer 202509121Vakta málsnúmer

Tekið fyrir minnisblað Deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar þar sem fram kemur að vegna tafa sem orðið hafa á vinnu við gerð útboðsgagna fyrir snjómokstur og hálkuvarnir á Hauganesi og Árskógssandi óski hún eftir því að fá að semja við verktaka tímabundið á grundvelli eldri þjónustusamnings.
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri kom til fundar kl. 13:55

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að leitað verði samninga við G.Hjálmarsson hf., tímabundið veturinn 2025 - 2026 eða til 15.maí nk., á grundvelli eldri þjónustusamnings um áframhaldandi þjónustukaup við snjómokstur og hálkuvarnir á Hauganesi og Árskógssandi.

3.Göngustígur meðfram Dalvíkurlínu - E2209

Málsnúmer 202303150Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom til fundar kl. 14:00 María Markúsdóttir, skipulagsfulltrúi.

Málið var tekið fyrir á 1157.fundi byggðaráðs þann 11.september sl., og var eftirfarandi bókað:
Sveitarstjóra falið að finna fundartíma, sem fyrst, með byggðaráði, deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar og skipulagsfulltrúa. Lagt fram til kynningar.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að framkvæmd við göngu- og hjólastíg verði áfangaskipt og vísar verkefninu til gerð fjárhagsáætlunar 2026 og 2027-2029.

María vék af fundi kl. 14:32

4.Frá deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar; Beiðni um viðauka vegna framkvæmda ársins 2025

Málsnúmer 202509117Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar, dagsett 22.september sl., þar sem er óskað eftir viðauka við fjárhagsáætlun 2025.

Í viðaukabeiðninni eru tekin út verkefni, ný slökkvistöð og loftræstikerfi á skrifstofum Dalvíkurbyggðar, sem ekki munu nást í framkvæmd á árinu. Óskað er eftir viðbótarfjármagni í þrjú verk sem munu verða dýrari en lagt var upp með í fjárhagsáætlun. Þessi verk eru Skógarhólar - malbikun, Svæði - heimreið, Lágin - endurbætur.

Viðauki í heild mun leiða til lækkunar á deild 32200 um kr. 97.500.000 og verður honum verði mætt með hækkun á handbæru fé.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda beiðni um viðauka við fjárhagsáætlun 2025, viðauki nr. 44 við deild 32200. Þannig að liður 32200 - 11605 lækki um kr. 98.000.000, liður 32200 - 11900 hækki um kr. 500.000. Nettóbreytingin er kr. 97.500.000 sem lagt er til að verði mætt með hækkun á handbæru fé.
Vísað til umfjöllunar og afgreiðslu í sveitarstjórn.

5.Álagning fasteignagjalda 2026; til kynningar

Málsnúmer 202509052Vakta málsnúmer

Með fundarboði fylgdi áætlunarálagning 2026, fyrstu drög og samanburður á álagi fasteignaskatts og breytingum á framlagi Jöfnunarsjóðs
Lagt fram til kynningar.

Helga Íris vék af fundi kl. 14:45

6.Trúnaðarmál

7.Stöðumat stjórnenda janúar - júlí 2025; skil

Málsnúmer 202509064Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri gerði grein fyrir stöðumati stjórnenda janúar - júlí 2025 hvað varðar stöðu bókhalds í samananburði við fjárheimildir.



Lagt fram til kynningar.

8.Fjárhagsáætlun 2026; Frá Ferðafélagi Svarfdæla; ábendingar varðandi umhverfi og náttúru

Málsnúmer 202508048Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Ferðafélags Svarfdæla, dags. 11.ágúst 2025, þar sem lagðar eru fram tillögur að verkefnum í tengslum við umhverfi og náttúru í Dalvíkurbyggð og bent á mikilvægi þess að hafa slík verkefni í huga við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árin 2026-2029.

Fagráð Dalvíkurbyggðar hafa tekið erindið til umfjöllunar. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa afgreiðslu fagráða til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun.

9.Fjárhagsáætlunargerð 2026; erindi frá Önnu Kristínu Guðmundsdóttur

Málsnúmer 202508051Vakta málsnúmer

á 1155.fundi byggðaráðs þann 21.ágúst sl., var tekið fyrir erindi frá Önnu Kristínu Guðmundsdóttur, dagsett þann 18. ágúst sl. þar sem fram koma hugmyndir að ýmsum verkefnum er varðar leiksvæði, strandlengjuna, útsýnispall og útsýnissvæði, Lágina, umhverfi ærslabelga, búnað í Sundlaug Dalvíkur og skólalóð Dalvíkurskóla.
Byggðaráð samþykkti samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu erindi, eftir því sem við á, til vinnuhóps sveitarfélagsins um leikvelli og leiksvæði, íþrótta- og æskulýðsráðs, umhverfis- og dreifbýlisráðs, fræðsluráðs, skipulagsráðs og byggðaráðs, í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029. Byggðaráð óskar eftir að fá fullmótaða og samræmda tillögu að afgreiðslu frá ráðunum. Byggðaráð minnir einnig á að móta þarf framtíðarsýn og tillögur að leikvöllum í sveitarfélaginu, bæði hvað varðar við stofnanir sveitarfélagisns og á opnum svæðum sem m.a. innihaldi fjölda, gerð, viðhalds- og endurnýjunaráætlun.

Byggðráð tekur undir bókun umhverfis- og dreifbýlisráðs af 35.fundi sínum þann 5.september sl.
Þá beinir byggðaráð því til skiplagsráðs að taka tillit til mögulegra útsýnisstaða í Múlanum við gerð aðalskipulags Dalvíkurbyggðar.

Samþykkt samhljóða með 3 atkvæðum.

10.Frá Tónlistarskólanum á Akureyri; Nám í tónlistarskóla fyrir utan lögheimilissveitarfélags

Málsnúmer 202509070Vakta málsnúmer

Tekið fyrir minnisblað frá sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs dagsett þann 29.september 2025, er varðar erindi frá Tónlistarskólanum á Akureyri dagsett 19.september sl., um að Dalvíkurbyggð, sem lögheimilissveitarfélag, greiði kennslukostnað að fullu vegna nemanda við skólann. Sviðsstjóri leggur til að erindið verði samþykkt.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að gangast undir þá ábyrgð sem lögheimilissveitarfélag að greiða kennslukostnað að fullu fyrir nemandann.

11.Frá 382. fundi sveitarstjórnar þann 16.09.2025; Sala á verbúðum - framkvæmd.

Málsnúmer 202506045Vakta málsnúmer

Á 382.fundi sveitarstjórnar þann 16.september sl., var tekin fyrir b) liður bókunar veitu- og hafnaráðs af 148.fundi þess þar sem eftirfarandi var bókað:
b) Veitu- og hafnaráð samþykkir samhljóða með 4 atkvæðum að leggja til við byggðaráð að verbúðirnar fari úr eigu og rekstri Hafnasjóðs/sveitarfélagsins.

Á 1151.fundi byggðaráðs þann 3.júlí sl., var samþykkti byggðaráð samhljóða með 3 atkvæðum að vísa b) lið um sölu verbúða til umfjöllunar og afgreiðslu í sveitarstjórn.

Niðurstaða sveitarstjórnar á 382.fundi sínum var eftirfarandi:
Undir þessum lið vék Freyr Antonsson af fundi sveitarstjórnar kl. 17:23 og 1. varaforseti tók við fundarstjórn.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 5 atkvæðum ofangreinda tillögu veitu- og hafnaráðs um að verbúðirnar fari úr eigu og rekstri Hafnasjóðs Dalvíkurbyggðar.
Freyr Antonsson tekur ekki þátt í umfjöllun og afgreiðslu vegna vanhæfis. Freyr Antonsson kom inn á fundinn að nýju að þessum lið loknum kl. 17:26 og tók við fundarstjórn.
Freyr Antonsson vék af fundi vegna vanhæfis kl. 16:24.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 2 atkvæðum að fela sveitarstjóra að semja við fasteignasölu til þess að sjá um söluferlið á verbúðunum.

Freyr kom aftur til fundar kl. 16:30

12.Frá SSNE; Erindi til sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar um þátttöku í Farsældarráði Norðurlands eystra

Málsnúmer 202509084Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi SSNE þar sem óskað er eftir að sveitarfélagið tilnefni einn aðalmann og einn varamann í Farsældarráð Norðurlands eystra. Æskilegt er að fulltrúar séu stjórnendur sem eru með góða tengingu við stjórnsýslu og nefndir sveitarfélagsins ásamt því að þeir komi frá sviði velferðar- og/eða fræðslumála, enda gegnir ráðið lykilhlutverki í stefnumótun, samhæfingu og forgangsröðun aðgerða um farsæld barna í landshlutanum.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að skipa Eyrúnu Rafnsdóttur, sviðsstjóra félagsmálasviðs, sem aðalmann og Gísla Bjarnason, sviðsstjóra fræðslu- og menningarmála, sem varamann í Farsældarráð Norðurlands eystra.

13.Frá Persónuvernd; tilkynning um lok eftirfylgnimáls v. netárásar í maí 2023.

Málsnúmer 202305096Vakta málsnúmer

Í kjölfar netárásásar á Dalvíkurbyggð um miðjan 14.maí 2023 hefur Persónuvernd verið með málið til umfjöllunar og afgreiðslu. Á 1144.fundi byggðaráðs þann 10.apríl sl., var tekið fyrir bréf frá Persónuvernd þar sem fram kom sú niðurstaða að Dalvíkurbyggð var veitt áminning fyrir að verða fyrir netárás þann 14. maí 2023 en ekki þótti nægilegt tilefni til að leggja stjórnvaldssekt á Dalvíkurbyggð.
Lagt var fyrir Dalvíkurbyggð að endurmeta áhættu á aðgangi óviðkomandi að persónuupplýsingum í tölvukerfi sveitarfélagsins. Þá var sveitarfélaginu jafnframt gert að gera viðeigandi skipulagslegar og tæknilegar ráðstafanir til að mæta þeim áhættuþætti í samræmi við lög og reglugerðir sem vísað er í. Loks skyldi sveitarfélagið tilgreina þær ráðstafanir í áhættumati sínu i samhengi við áhættuþáttinn.

Áhættumat Dalvíkurbyggðar var sent Persónuvernd þann 30.juní sl.
Í bréfi Persónuverndar kemur m.a. fram að yfirferð stofnunarinnar takmarkast við þann hluta matsins er snýr að þeirri áhættu er raungerðist þegar öryggisbrestur varð í tölvukerfi sveitarfélagsins í maí 2023. Jafnframt segir, "af matinu má ráða að Dalvíkurbyggð hafi gripið til viðeigandi ráðstafana. Í ljósi framangreinds, og með hliðsjón af afmörkun málsins, telur Persónuvernd að Dalvíkurbyggð hafi farið að þeim fyrirmælum sem lögð voru fyrir sveitarfélagið í tilvísaðri ákvörðun. Hér með tilkynnist því að málinu hefur verið lokað í málaskrá Persónuverndar."
Lagt fram til kynningar.

14.Starfs- og kjaranefnd 2025; fundargerð 18.09.2025

Málsnúmer 202501027Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundargerð starfs- og kjaranefndar frá 2. september og 18.september sl.
Lagt fram til kynningar.

15.Frá SSNE; Búið að opna fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð

Málsnúmer 202509106Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá SSNE, dagsett þann 18. september sl., þar sem fram kemur að opnað hefur verið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra og er umsóknarfrestur til hádegis 22. október nk. Óskað er eftir að vakin sé athygli á sjóðnum.
Dalvíkurbyggð auglýsti að opið væri fyrir umsóknir á heimasíðu sinni þann 23.september sl.
Lagt fram til kynningar.

16.Frá Innviðaráðuneytinu; Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Málsnúmer 202509092Vakta málsnúmer

Tekið var fyrir erindi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélagam dagsett þann 15.september sl, þar sem boðað er til ársfundar miðvikudaginn 1.október nk. kl. 16:00 í Reykjavík.
Sveitarstjóri mun sækja fundinn fyrir hönd Dalvíkurbyggðar.
Lagt fram til kynningar.

17.Frá BHS; Aðalfundur BHS ehf

Málsnúmer 202509098Vakta málsnúmer

Tekið fyrir aðalfundarboð frá BHS ehf. móttekið þann 17. september sl. Fundurinn verður 25. september nk. kl. 20 að Fossbrún 2.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að sækja fundinn fyrir hönd Dalvíkurbyggða, ef hún hefur tök á, og fara með umboð sveitarfélagsins.

18.Frá SSNE; fundargerð stjórnar nr. 75

Málsnúmer 202503117Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar SSNE nr. 75 frá 4.september sl.
Lagt fram til kynningar.

19.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; fundargerðir stjórnar nr. 983 og nr. 984.

Málsnúmer 202502019Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerði stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 983 og nr. 984 frá 29.ágúst sl. og 12.september sl.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 17:00.

Nefndarmenn
  • Helgi Einarsson formaður
  • Freyr Antonsson varaformaður
  • Lilja Guðnadóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri