Byggðaráð

935. fundur 27. febrúar 2020 kl. 13:00 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Guðmundur St. Jónsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Þórhalla Karlsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Frá sveitarstjóra, beiðni um viðauka vegna sérfræðiþjónustu

Málsnúmer 202002036Vakta málsnúmer

Á 934. fundi byggðaráðs þann 13. febrúar sl. fól byggðaráð sveitarstjóra að kanna með möguleika á lengri tíma afleysingu fyrir fjármála- og stjórnsýslusvið vegna veikinda.

Með fundarboði fylgdu drög að samningi við Projects ehf. um sérfræðiþjónustu í þessum veikindaforöllum ásamt beiðni um viðauka við fjárhagsáætlun 2020 vegna þessa.

Óskað er eftir viðauka að upphæð 7.500.000 kr við deild 21400, skrifstofa Dalvíkurbyggðar, á lið 4391, sérfræðiþjónusta. Óskað er eftir að viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum framlögð drög að samningi við Projects ehf. um sérfræðiþjónustu og felur sveitarstjóra að ganga frá samningnum.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum viðauka við fjárhagsáætlun 2020 að upphæð 7.500.000 kr við deild 21400, skrifstofa Dalvíkurbyggðar, á lið 4391, sérfræðiþjónusta, og að viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé. Vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.

2.Frá sveitarstjóra, beiðni um viðauka, fargjöld í öllum deildum

Málsnúmer 202002079Vakta málsnúmer

Með fundarboði fylgdi beiðni frá sveitarstjóra um viðauka vegna fargjalda í fjárhagsáætlun 2020. Samkvæmt upplýsingum frá aðalbókara keyrðist liðurinn fargjöld, í öllum deildum, ekki inn í áætlunarlíkan úr vinnubókum við gerð fjárhagsáætlunar 2020 vegna kerfisvillu, alls 3.159.000 kr.

Því er óskað eftir viðauka við fjárhagsáætlun 2020 vegna fargjalda, alls 3.159.000 kr. deilist á 22 málaflokka, gjaldaliður 4210, fargjöld.
Óskað er eftir að mæta þessari leiðréttingu með lækkun á handbæru fé.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum viðauka við fjárhagsáætlun 2020 vegna fargjalda, alls 3.159.000 kr. deilist á 22 málaflokka, gjaldaliður 4210, fargjöld og að viðaukanum verði með lækkun á handbæru fé. Vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.

3.Verkfallslisti - undanþágulisti

Málsnúmer 201810098Vakta málsnúmer

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi gildandi auglýsing um skrá yfir störf hjá Dalvíkurbyggð sem eru undanþegin verkfallsheimild, listi frá árinu 2019. Einnig fylgdi fundarboði listi með tillögum að breytingum vegna breytinga á starfsheitum hjá Dalvíkurbyggð sem og vegna aukinnar þjónustu í málefnum fatlaðra.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda skrá yfir störf hjá Dalvíkurbyggð sem eru undanþegin verkfallsheimild með fyrirliggjandi tillögum að breytingum og vísar skránni til umsagnar stéttarfélaga eftir því sem við á.

4.Ósk um bílakaup fyrir fræðslu - og félagsmálasvið

Málsnúmer 201910010Vakta málsnúmer

Á 931. fundi byggðaráðs þann 17. janúar 2020 heimilaði byggðaráð sviðsstjórum félagsmála- og fræðslusviðs sölu á gömlu bifreið sviðanna að undangenginni auglýsingu og að söluandvirðið komi inn í viðauka til hækkunar á handbæru fé þegar salan er um garð gengin.

Með fundarboði fylgdu upplýsingar um sölu bifreiðarinnar og fjárhagsfærslur henni tengdar í bókhaldi, frá aðalbókara.
Lagt fram til kynningar. Samkvæmt leiðbeiningum í stjórnsýsluúttekt gefur söluandvirðið ekki tilefni til viðauka.

5.Starfsemi og rekstur Dalvíkurbyggðar - vinnuhópar

Málsnúmer 201901038Vakta málsnúmer

Á 931. fundi byggðaráðs þann 17. janúar 2020 var til umfjöllunar viðaukabeiðni vegna viðhalds á dráttarvél umhverfis- og tæknisviðs. Í framhaldi af því sköpuðust umræður um nauðsyn þess að móta reglur vegna umgengni um tækjabúnað og bifreiðaeign sveitarfélagsins.

Með fundarboði fylgdu drög að verkefnislýsingu fyrir vinnuhóp um rekstur og viðhald farartækja, tækja og tæknibúnaðar sveitarfélagsins. Markmið vinnuhópsins er að lágmarka rekstrarkostnað og hámarka öryggi og endingu farartækja, tækja og tæknibúnaðar í eigu sveitarfélagsins til lengri tíma. Markmiðið náist með því að skipuleggja reglubundið og tímasett viðhald,endurnýjun sem og skýrt skilgreindum eftirlits- og ábyrgðaraðila.

Lagt er til að vinnuhópinn skipi 4 aðilar: Einn frá byggðaráði, einn frá veitusviði, einn frá hafnasviði og deildarstjóri eigna- og framkvæmdadeildar.

Vinnuhópurinn skili drögum að nýrri stefnu, skráningu og vinnulagi fyrir 30. apríl 2020.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vinnuhópur um rekstur og viðhald farartækja, tækja og tæknibúnaðar taki til starfa samkvæmt fyrirliggjandi verkefnislýsingu, með breytingum sem gerðar voru á fundinum og að fulltrúi byggðaráðs í hópnum verði Þórhalla Karlsdóttir. Kostnaður vegna starfa kjörins fulltrúa bókist á deild 21030, nefndir.

6.Húsnæðisáætlun fyrir Dalvíkurbyggð

Málsnúmer 201901037Vakta málsnúmer

Á 932. fundi byggðaráðs þann 23. janúar 2020 fól byggðaráð sveitarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs að yfirfara húsnæðisáætlun 2019-2027 og leggja fyrir byggðaráð fyrir lok febrúar.

Sveitarstjóri kynnti stöðu á vinnu við endurskoðun áætlunarinnar en áætlað er að endurskoðuð áætlun verði til samþykktar sveitarstjórnar á marsfundi. Búið er að upplýsa Íbúðalánasjóð um stöðu á endurskoðun áætlunarinnar.
Lagt fram til kynningar.

7.Aukaaðalfundur Greið leið ehf.

Málsnúmer 202002052Vakta málsnúmer

Tekið fyrir bréf frá Greið leið ehf., dagsett 17. febrúar 2020, boð á aukaaðalfund 2020 þann 25. febrúar 2020 á Akureyri.
Lagt fram til kynningar.

8.Fjárhagsáætlun 2020; vegna viðhaldsframkvæmda á Dalbæ og viðræður.

Málsnúmer 201908062Vakta málsnúmer

Á 317. fundi sveitarstjórnar þann 31. október var eftirfarandi bókað:
"Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum að sveitarfélagið ásamt stjórnendum Dalbæjar fari í viðræður við Ríkið um aðkomu að endurbótunum þar sem málaflokkurinn er á hendi Ríkisins."

Jafnframt samþykkti sveitarstjórn á sama fundi fjárhagsáætlun 2020-2023 þar sem gert er ráð fyrir aðkomu sveitarfélagsins að endurbótum á Dalbæ fáist ekki aukið framlag frá Ríki.

Á fundinum upplýsti sveitarstjóri um gang mála frá síðastliðnu hausti. Niðurstaðan er sú að ef gera á við hús í eigu sjálfseignarstofnunnar eða húsnæði sem ekki er komið á forgang á framkvæmdaáætlun, er því miður ekki um annað að ræða en umsókn til Framkvæmdasjóðs aldraðra.
Lagt fram til kynningar.

9.Frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga; fjárfestingar 2019

Málsnúmer 201903093Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga til sveitarstjórna, dagsett 10. febrúar 2020. Vísað er í bréf nefndarinnar frá 18. mars 2019 þar sem fjallað var um fjárfestingar og eftirlit með framvindu á árinu 2019.

Nefndin óskar eftir yfirliti um stöðu einstakra verkefna í árslok 2019. Jafnframt er óskað eftir mati á stöðu verkefna gagnvart gildandi fjárheimildum.

Óskað er eftir að umbeðnar upplýsingar berist eftirlitsnefndinni að lokinni umræðu í sveitarstjórn og eigi síðar en 60 dögum eftir dagsetningu bréfsins.
Byggðaráð felur aðalbókara ásamt sviðsstjórum umhverfis- og tæknisviðs og veitu- og hafnasviðs að taka saman umbeðnar upplýsingar og leggja fyrir byggðaráð á fundi fimmtudaginn 12. mars nk.

10.Leitað leyfis landeigenda eða annars rétthafa, erindi til allra sveitastjórna

Málsnúmer 202002068Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá fjórum félögum í Félagi Húsbílaeigenda, 4x4 og Boreal ehf., dagsettur 18. febrúar 2020.
Í erindinu er óskað eftir að þeir sem eiga tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi, húsbíla og annan sambærilegan búnað sem er útbúinn salernisaðstöðu, t.a.m. ferðasalerni, þurfi ekki að leita leyfis landeigenda til að tjalda/nátta, heldur gildi almannarétturinn, enda skal ferðamaðurinn virða umgengisreglur í hvívetna og gæta að grónu landi.
Byggðaráð hafnar erindinu samhljóða og bendir á 9. grein Lögreglusamþykktar Dalvíkurbyggðar nr. 778/2018 þar sem segir: "Eigi má gista í tjaldvögnum, tjöldum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum, sendibifreiðum með svefn­aðstöðu og öðrum sambærilegum búnaði á almannafæri í þéttbýli utan sérmerktra svæða. Það á einnig við um gistingu á almannafæri innan marka sveitarfélagsins".

11.Til umsagnar tillaga til þingsályktunar um stöðu barna tíu árum eftir hrun, 191. mál.

Málsnúmer 202002080Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá nefndasviði Alþingis dagsettur 25. febrúar 2020 þar sem velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um stöðu barna tíu árum eftir hrun, 191. mál.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 17. mars nk.
Lagt fram til kynningar.

12.Til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu o.fl., 323. mál.

Málsnúmer 202002081Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá nefndasviði Alþingis dagsettur 25. febrúar 2020 þar sem velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp, tillögu um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum (réttur til einbýlis á öldrunarstofnunum), 323. mál.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 10. mars nk.
Lagt fram til kynningar.

13.Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 hefur verið lagt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Málsnúmer 201910001Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu dagsettur 12. febrúar 2020 þar sem fram kemur að drög að frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar.

Frestur til að skila umsögn er til og með fimmtudagsins 27. febrúar nk.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum umsögn frá Dalvíkurbyggð samkvæmt framlögðu fylgiskjali og felur sveitarstjóra að senda hana inn í dag.

14.Í samráðsgátt: Frumvarp til laga um eignahald og nýtingu fasteigna.

Málsnúmer 202002082Vakta málsnúmer

Nú er í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp til laga um eignarhald og nýtingu fasteigna, mál S-34/2020.

Markmið frumvarpsins er að skapa stjórnvöldum betri yfirsýn og möguleika til að stýra þróun eignarráða og nýtingar fasteigna, þ.m.t. jarða, í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi.

Hægt er að senda inn umsagnir um frumvarpið til 27. febrúar nk.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið.

Nefndarmenn
  • Guðmundur St. Jónsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Þórhalla Karlsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri