Byggðaráð

1004. fundur 04. nóvember 2021 kl. 13:00 - 15:53 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson varaformaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson formaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá
Sveitarstjóri sat fundinn í gegnum fjarfund í TEAMS undir liðum 1,2,3.

1.Innleiðing laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Málsnúmer 202110062Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Eyrún Rafnsdóttir, sviðsstjóri félagsmálasviðs, Gísli Bjarnason, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs og Gísli Rúnar Gylfason, íþrótta-og æskulýðsfulltrúi, kl. 13:00.

Á 1003. fundi byggðaráðs þann 28. október sl. var til umfjöllunar og afgreiðslu tilnefning fulltrúa Dalvíkurbyggðar vegna innleiðinar á nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021. Sveitarstjórn staðfesti tillögu byggðaráðs á fundi sínum 2. nóvember sl. um að sviðsstjóri félagsmálasviðs verði fulltrúi Dalvíkurbyggðar og sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs til vara. Byggðaráð óskaði eftir að fá sviðsstjórana á fund ásamt íþrótta- og æskulýðsfulltrúa til þess að ræða og fara yfir hvað þessi samþætting hefur í för með sér og áhrif á starfsemi sveitarfélagsins.

Á fundinum var farið yfir kynningu frá Eyrúnu, Gísla og Gísla Rúnari um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Eyrún, Gísli og Gísli Rúnar viku af fundi kl. 13:27.
Byggðaráð þakkar sviðsstjórum félagsmálasviðs og fræðslu- og menningarsviðs og íþrótta- og æskulýðsfulltrúa fyrir góða kynningu.

2.Þarfagreining - Framkvæmdasvið

Málsnúmer 202106124Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Bjarni Daníel Bjarnason, sviðsstjóri framkvæmdasviðs, kl. 13:35.

Til umræðu uppbygging og framtíðarsýn fyrir Framkvæmdasvið hvað varðar starfssemi, verkefni og starfsmannahald eftir þær skipulagsbreytingar sem gerðar voru í byrjun ársins.

Bjarni Daníel vék af fundi kl. 14:23.
Lagt fram til kynningar og byggðaráð óskar eftir áframhaldandi umræðu á næsta fundi ráðsins.

3.Frá 339. fundi sveitarstjórnar þann 02.11.2021; Starfs- og fjárhagsáætlun 2022 - 2025

Málsnúmer 202105027Vakta málsnúmer

Á 339. fundi sveitarstjórnar þann 2. nóvember sl. var frumvarp að fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar 2022 tekið til fyrri umræðu ásamt þriggja ára áætlun 2023-2025. Samþykkt var samhljóða að vísa áætlunni til byggðaráðs á milli umræðna í sveitarstjórn.

Til umræðu almennt.

Sveitarstjóri vék af fundi kl. 14:56.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að fara yfir óskir byggðaráðs til stjórnenda um að finna hagræðingu í rekstri samkvæmt umræðu í byggðaráði.

4.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Staðgreiðsluáætlun 2021 og 2022

Málsnúmer 202110046Vakta málsnúmer

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga staðgreiðsluáætlun 2021 og 2022.

Fram kom á fundinum að búið er að taka mið af áætluninni í tengslum við útkomuspá 2021 og fjárhagsáætlun 2022.
Lagt fram til kynningar.

5.Ákvörðun útsvars fyrir árið 2022 - tillögur / umræður

Málsnúmer 202110064Vakta málsnúmer

Til umfjöllunar álagning útsvars fyrir árið 2022.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að leggja til við sveitarstjórn að álagningarprósenta útsvars verði óbreytt á milli ára og verði fyrir árið 2022 14,52%.

6.Ákvörðun um álagningu fasteignagjalda 2022 - tillögur / umræður

Málsnúmer 202110065Vakta málsnúmer

Til umfjöllunar álagningarprósenta fasteignaskatts og lóðarleigu sem og þjónustugjöld fasteigna vegna sorphirðu, vatnsveitu og fráveitu.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela framkvæmdasviði að gera prufuálagningu fasteignagjalda miðað við þær forsendur sem liggja fyrir, fyrir næsta fund byggðaráðs.

7.Gjaldskrár 2022; tillögur frá fagráðum

Málsnúmer 202110039Vakta málsnúmer

Á 1003. fundi byggðaráðs þann 28. október sl. og 339. fundi sveitarstjórnar þann 2. nóvember sl. voru fyrirliggjandi tillögur að gjaldskrám til umræðu.
Byggðaráð óskar eftir upplýsingum og samanburði í samræmi við umræður á fundinum.

8.Frá Vinnueftirliti ríkisins; Reglubundin skoðun Slökkvistöð Dalvíkur 26.07.2021

Málsnúmer 202108002Vakta málsnúmer

Á 993 fundi byggðaráðs þann 19. ágúst sl. var eftirfarandi bókað:
"Á 360. fundi umhverfisráðs þann 13. ágúst sl. var eftirfarandi bókað: "Kl. 9:00 kom Anton Hallgrímsson slökkviliðsstjóri og sat fundinn undir þessum lið. Lögð fram eftirlitsskýrsla Vinnueftirlitsins eftir reglubundna skoðun í Slökkvistöð Dalvíkur þann 26. júlí sl. Anton Hallgrímsson vék af fundi kl. 9:45. Umhverfisráð fór yfir skýrsluna og leggur til við byggðaráð að stofnaður verði vinnuhópur um stefnumótun og framtíðarsýn fyrir Slökkvilið Dalvíkur. Samþykkt samhljóða með fimm atkvæðum."Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að koma með tillögu að vinnuhópi og erindisbréfi fyrir hópinn."

Fyrir liggur að búið er að samþykkja erindisbréf fyrir ofangreindan vinnuhóp en vinnuhópinn skipa slökkviliðsstjóri, sviðsstjóri framkvæmdasviðs og sveitarstjóri.

Með fundarboði fylgdi svarbréf frá Vinnureftirlitinu, dagsett þann 1. nóvember sl., þar sem fram kemur að Slökkvilið Dalvíkur hefur tímafrest til að senda inn tilkynningu um úrbætur til 15.11.2021 sem er framlenging frá 01.11.2021.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að óska eftir upplýsingum frá slökkviliðsstjóra um stöðu mála hvað varðar úrbætur og umbótaáætlun.

9.Frá Ríkiskaupum; Sameiginlegt útboð á slökkviliðsbílum fyrir sveitarfélög Íslands

Málsnúmer 202110066Vakta málsnúmer

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi rafpóstur frá Ríkiskaupum, dagsettur þann 27. október 2021, þar sem fram kemur að á næstu vikum munu Ríkiskaup, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, standa að útboði á slökkviliðsbílum. Það er markmið Ríkiskaupa að gerð útboðsgagna og framkvæmd útboðsins endurspegli fjölbreyttar þarfir slökkviliða og þeirra svæða sem þeim er ætlað að þjóna og verða þau unnin í samstarfi við kaupendur og fagaðila með sérþekkingu á málefnasviðinu.

Til að ná fram sem mestri hagkvæmni og virði fyrir sveitarfélög landsins köllum við eftir því að þau sveitar- og bæjarfélög sem hyggjast fjárfesta í slökkviliðsbílum á næstu 4-36 mánuðum og hafa áhuga á samstarfi við útboð hafi samband við sérfræðinga Ríkiskaupa og lýsi yfir áhuga (utbod@rikiskaup.is) fyrir 10. nóvember nk. Eftir 10. nóvember verður boðað til kynningarfundar þar sem farið verður yfir verkefnið og í framhaldinu geta sveitarfélög tekið ákvörðun um hvort þau vilja taka þátt eða ekki.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs upplýsti að fjallað var um málið á fundi framkvæmdastjórnar/innkauparáðs á mánudaginn og innkauparáð getur mælt með að farin verði þessi leið, ef samþykkt verður sú tillaga sem liggur fyrir vegna fjárhagsáætlunar 2022 að festa kaup á nýjum slökkivliðsbíl.

Einnig liggur fyrir að áhugi er hjá Framkvæmdasviði og slökkviliðsstjóra Dalvíkurbyggðar að eiga samstarf við Ríkiskaup um sameiginlegt útboð.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að Dalvíkurbyggð taki þátt í ofangreindu útboði með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar um kaup á nýjum slökkvibíl og fjárheimild í fjárhagsáætlun.

10.Frá Slökkviliðsstjóra; Fatakaup 2021

Málsnúmer 202111001Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Slökkviliðsstjóra Dalvíkurbyggðar, dagsett þann 1. nóvember 2021, þar sem óskað er heimildar að fá að nota tekjur vegna útseldrar vinnu og endurgreiðslu á virðisaukaskatti, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun, að upphæð kr. 538.771 til að festa kaup á vinnufatnaði fyrir starfsmenn slökkviliðsins að upphæð kr. 244.162.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreint erindi og heimilar slökkviliðsstjóra að nýta allt að kr. 538.771 ef það rúmast innan fjárhagsramma Slökkviliðs Dalvíkur, deild 07210.

11.Frá deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar; Beiðni um viðauka vegna snjómoksturs

Málsnúmer 202111013Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar, dagsett þann 2. október 2021, þar sem óskað er eftir viðauka við fjárhagsáætlun 2021 að upphæð kr. 3.000.000 á deild 10600 vegna snjómoksturs. Fram kemur rökstuðningurinn fyrir beiðninni en það fjármagn sem var áætlað til snjómoksturs er við það að klárast.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda beiðni um viðauka við fjárhagsáætlun 2021, viðauki nr. 28, við deild 10600 að upphæð kr. 3.000.000. Byggðaráð samþykkir jafnframt samhljóða að viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé. Vísað til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.

12.Frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga; Tekjujöfnunarframlag 2021

Málsnúmer 202111011Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þar sem fram kemur í frétt frá 1. nóvember sl. áætlun tekjujöfnunarframlags fyrir árið 2021. Framlag til Dalvíkurbyggðar er áætlað kr. -2.993.697.

Miðað er við meðaltekjur íbúa í sveitarfélögum með 300-11.999 íbúa eða 97% af þeim, kr. 760.626. Við útreikning framlaganna er gengið út frá hámarkstekjumöguleikum sveitarfélaga af útsvari og fasteignaskatti. Hámarkstekjur á hvern íbúa í Dalvíkurbyggð eru þannig áætlaðar kr. 757.199. Frávikið er því kr. 3.427 á hvern íbúa.
Lagt fram til kynningar.

13.Frá Markaðsstofu Norðurlands; Skýrsla Flugklasans Air 66N - 2021

Málsnúmer 202104049Vakta málsnúmer

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi greinargerð um starf Flugklasans Air 66N 9. apríl - 26. október 2021.
Lagt fram til kynningar.

14.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Verkefni vegna innleiðingar hringrásarkerfis

Málsnúmer 202111007Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsettur þann 2. nóvember 2021, þar sem gert er grein fyrir hvatningu frá stjórn Sambandsins til sveitarstjórna um allt land til að hefja nú þegar undirbúning fyrir gildistöku lagabreytinga um hringrásarhagkerfi sem taka gildi 1. janúar 2023. Ljóst er að öll sveitarfélög munu þurfa að endurskoða þau stjórntæki sem þau hafa á grundvelli laga um meðhöndlun úrgangs, þ.e. svæðisáætlanir, samþykktir og gjaldskrár. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert samning við VSÓ Ráðgjöf um gerð handbókar um úrgangsstjórnun sveitarfélaga sem verður tilbúin á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Einnig hefur Sambandið gert samning við EFLU verkfræðistofu um leiðir til að innleiða svonefnda "Borgaðu þegar þú hendir" aðferðafræði við gjaldtöku í málaflokknum.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu erindi til sviðsstjóra framkvæmdasviðs og umhverfisráðs til eftirfylgni og skoðunar.

15.Frá Sambandi íslenskra sveitaarfélaga; Boð um þátttöku sveitarfélaga í námskeiðinu Loftslagsvernd í verki

Málsnúmer 202111006Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, rafpóstur dagsettur þann 2. nóvember 2021, þar sem gert er grein fyrir boði frá Landsvernd um þátttöku sveitarfélaga landsins í námskeiðinu Loftlagsvernd í verki. Þátttaka sveitarfélaganna yrði í boði frá janúar 2022. Námskeiðið er unnið í litlum hópum og tekur a.m.k. 6 vikur. Námskeiðið snýr að því að hver þátttakandi skoði eigin lífstíl og meti til hvaða aðgerða hann geti gripið til að draga úr kolefnissporinu.
Byggðaráð samþykkir að ofangreint verði kynnt almennt fyrir starfsmönnum og kjörnum fulltrúum.

16.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Ályktun bæjarráðs Árborgar um leikskólamál

Málsnúmer 202111008Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett þann 2. nóvember sl., þar sem kynnt er ályktun bæjarráðs Árborgar um leikskólmál sem tekin var fyrir á fundi stjórnar Sambandsins 29. október sl.

Bæjarráð Árborgar skorar á stjórn Sambandsins að beita sér fyrir fullri viðurkenningu ríkisvaldsins á leikskólastiginu sem menntastofnun með því að ríkisvaldið skilgreini sveitarfélögum tekjustofn til að standa straum af kostnaði við rekstur leikskóla frá lokum fæðingarorlofs. Jafnframt þarf að tryggja leiðir til að fjármagna þjónustu við fötluð börn á leikskólum og þau börn sem hafa annað móðurmál en íslensku, t.d. með jöfnunarframlögum.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til fræðsluráðs og félagsmálaráðs til upplýsinga.

17.Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga 2021; nr. 901 og nr. 902.

Málsnúmer 202102014Vakta málsnúmer

Með fundarboði byggðaráðs fylgdu fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 901 og nr. 902 frá 24. september sl. og 29. október sl.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:53.

Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson varaformaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson formaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs