Byggðaráð

1000. fundur 14. október 2021 kl. 13:00 - 15:45 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson varaformaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson formaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Starfs- og fjárhagsáætlun 2022 - 2025; áframhaldandi yfirferð.

Málsnúmer 202105027Vakta málsnúmer

a) Fjármála- og stjórnsýslusvið; tillögur að starfs- og fjárhagsáætlun.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kynnti tillögur að starfs- og fjárhagsáætlun fyrir málaflokk 00, deild 03 heilbrigðismál, 13 að hluta er varðar atvinnumál, málaflokk 21, málaflokk 22, málaflokk 28, málaflokk 57.

b) Beiðnir um búnaðarkaup 2022 - heildaryfirlit.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kynnti samantekt á beiðnum stjórnenda vegna búnaðarkaupa 2022.

c) Samantekt.

Á fundinum var farið yfir samantekt sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs yfir niðurstöður vinnubóka 2022 fyrir alla málaflokka í samstæðu sveitarfélagsins.
Rætt um næstu skref.
Lagt fram til kynningar.

2.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Samstarf í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga 2022- kostnaðaráætlun verkefna

Málsnúmer 202110018Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett þann 7. október sl. er varðar þátttöku og framlög til stafræns samstarfs sveitarfélaga 2022. Samstarfið er fjármagnað annars vegar með skyldubundnu grunnframlagi frá þátttökusveitarfélögunum sem rennur fyrst og fremst til að standa undir launakostnaði sérfræðinga í stafrænu umbreytingateymi sveitarfélaga og hins vegar með framlögum til að standa straum af þróun og kaupum á lausnum. Nú liggur fyrir áætlun um slík starfræn verkefni ársins 2022 á grundvelli forkönnunar meðal sveitarfélaga. Tilgangur þessa bréf er að kynna þessa áætlun fyrir sveitarfélögum, leita eftir þátttöku þeirra í þeim, sem og benda þeim á að gera ráð fyrir framlögum vegna þeirra og grunnframlags í fjárhagsáætlun 2022. Leitað er eftir því að sveitarfélög skrái sig til þátttöku í verkefnum fyrir 1. nóvember nk.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu erindi til UT-teymis Dalvíkurbyggðar og óskar jafnframt eftir að teymið leggi fram tillögu um þátttöku í þeim verkefnum sem tilgreind eru.

3.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202108041Vakta málsnúmer

Bókað í trúnaðarmálabók.

4.Frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu; Beiðni um útkomuspá 2021 og fjárhagsáætlun 2022

Málsnúmer 202110020Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, rafpóstur dagsettur þann 11. október 2021, þar sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga óskar eftir að henni berist útkomuspá fyrir fjárhagsárið 2021 samhliða fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 sem er lögð fyrir sveitarstjórn í lok október skv. 3. mgr. 62. gr. sveitarstjórnalaga. Eftirlitsnefndin leggur ríka áherslu á að gerð sé útkomuspá fyrir árið 2021 sem grunnur að fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 líkt og kveður á um í 2. mgr. 62. gr. Óskað er eftir að útkomuspáin og fjárhagsáætlun 2022, eins og hún verður lögð fyrir sveitarstjórn, berist eigi síðar en 1. nóvember nk.
Lagt fram til kynningar.

5.Frá 337. fundi sveitarstjórnar þann 15.06.2021; Frá Framkvæmdsviði; Lagfæringar í sundlaug Dalvíkur

Málsnúmer 202001007Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Steinþór Björnsson, deildarstjóri Eigna- og framkvæmdadeildar, og Bjarni Daníel Daníelsson, sviðsstjóri Framkvæmdasviðs, kl. 14:32.
Á 985. fundi byggðaráðs þann 20. maí 2021 var m.a. eftirfarandi bókað:
"Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að hafna ofangreindri beiðni um viðauka við fjárhagsáætlun 2021 og felur deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar að koma með yfirlit yfir verkið að því loknu og þá tillögu til byggðaráðs um niðurskurð viðhalds Eignasjóðs á móti."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi minnisblað deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar, móttekið þann 13.10.2021, þar sem kemur fram að fjárveiting fyrir lagfæringar á Sundlaug Dalvíkur var kr. 12.539.659. Heildarkostnaður framkvæmda var kr. 15.216.020. Verkefnið fór því kr. 2.676.361 fram yfir heimildir. Til að mæta þessu voru eftirfarandi verkefni Eignasjóðs sett á bið:
Íþróttamiðstöð, breyta búningsklefum og laga vegg með stiga, alls 1,9 m.kr.
Sundlaug Dalvíkur, útihurð út á pall 300 þkr.
Dalvíkurskóli, loftræsting á vinnusvæði kennara, 1,0 m.kr.
Alls 3,2 m.kr.
Lagt fram til kynningar.

6.Frá 338. fundi sveitarstjórnar þann 21.09.2021;Framkvæmdir á opnu svæði við Hringtún og beiðni um viðauka.

Málsnúmer 202103193Vakta málsnúmer

Á 338. fundi sveitarstjórnar þann 21. september sl. var eftirfarandi bókað;
"Á 361. fundi umhverfisráðs þann 3. september 2021 var eftirfarandi bókað: "Umhverfisráð fór yfir stöðu verkefna sumarsins með deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar. Ráðið leggur til að vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar við sjóvörn við Framnes og Sæból og þeirra þungaflutninga sem þeim fylgja, verði yfirlögn frestað til næsta árs. Umhverfisráð leggur til að þeir fjármunir verði fluttir á verkefni E2118 - Opið svæði í Hringtúni. Framkvæmdum við skjólbelti meðfram Hauganesvegi verði frestað þangað til deiliskipulag fyrir Hauganes liggur fyrir. Samþykkt samhljóða með fimm atkvæðum." Til máls tóku: Katrín Sigurjónsdóttir. Guðmundur St. Jónsson. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum að vísa ofangreindu til umfjöllunar og afgreiðslu í byggðaráði."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi minnisblað deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar, móttekið þann 13.10.2021, þar sem fram kemur að í fjárveitingum fyrir 2021 (sbr. viðauki) voru settar 2,0 m.kr. í framkvæmdir við opið svæði við Hringtún. Framkvæmdin var vanáætluð og er kostnaður kominn nú í um 3,4 m.kr. og áætlað er að það vanti 700 þ.kr. upp á til að klára verkið fyrir veturinn. Til að klára verkið er óskað eftir heimild til að færa verkefnið "Olíumöl frá þjóðvegi að Sæbóli" að upphæð kr. 800.000 yfir á verkefnið við Hringtún. Vegna framkvæmda við sjóvörn við Sæból og Framnes er fyrirséð að mikill þungaflutningur á eftir að verða á veginum og því ekki ráðlagt að fara í framkvæmdir við hann fyrr en vinnu við sjóvörn er lokið.

Heildarkostnaður við opið svæði við Hringtún árið 2021 er því áætlaður kr. 4.071.728 í stað kr. 2.000.000.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda beiðni um viðauka og tilfærslu á milli verkefna, viðauki nr. 22 við fjárhagsáætlun 2021 þannig að kr. 700.000 verði fluttar á milli ofangreindra verkefna, af E2110 og yfir á E2118 innan deildar 32200 og kr. 100.000 sem eftir stendur af verki E2110 verði tekið út.
Vísað til umfjöllunar og afgreiðslu í sveitarstjórn.

7.Frá íbúum á Böggvisstöðum; Vegna Böggvisstaðaskála

Málsnúmer 202110014Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá íbúum á Böggvisstöðum, rafpóstur dagsettur þann 6. október sl., þar sem fram koma áhyggjur ábúenda á Böggvisstöðum varðandi hávaðasaman eða mengandi rekstur í Böggvisstaðaskála. Umbeðinn fundur með íbúum Böggvisstaða fór fram 11. október sl.
Lagt fram til kynningar.

8.Frá Framkvæmdasvæði; tilboð í leigu á Böggvisstaðaskála

Málsnúmer 201902134Vakta málsnúmer

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson vék af fundi kl. 14:51 vegna vanhæfis og varaformaður tók við fundarstjórn.

Á 996. fundi byggðaráðs þann 16. september sl. var m.a. eftirfarandi bókað í tengslum við útleigu á Böggvisstaðaskála:
"Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar að óska eftir formlegum tilboðum frá báðum aðilum sem innihaldi upplýsingar um leigugreiðslur, hvaða viðhald og framkvæmdir á húsnæðinu verði á kostnað leigutaka og hvort gerðar séu einhverjar kröfur á sveitarfélagið hvað varðar ástand húsnæðisins við upphaf leigu sem og á leigutíma. Einnig að fram komi ósk um tímalengd leigusamnings, upplýsingar um áætlaða starfsemi sem og metin áhrif á nærumhverfi. Byggðaráð áskilur sér rétt að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi eitt tilboð sem barst fyrir tilskilinn tíma.

Til umræðu ofangreint.

Steinþór vék af fundi kl. 15:09.


Byggðaráð samþykkir með 2 atkvæðum að hafna öllum tillögum og tilboðum í leigu á Böggvisstaðaskála. Gunnþór Eyfjörð tekur ekki þátt í atkvæðagreiðslu vegna vanhæfis.

9.Frá Framkvæmdasviði; Styrkir til verkefna á sviði orkuskipta

Málsnúmer 202105131Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Helga Íris Ingólfsdóttir, skipulags- og tæknifulltrúi, kl. 15:00.

Á 996. fundi byggðaráðs þann 16. september sl. var eftirfarandi bókað:
"Á 337. fundi sveitarstjórnar þann 15. júní 2021 var eftirfarandi bókað: "Á 353. fundi umhverfisráðs þann 28. maí sl. var eftirfarandi bókað: "Orkusjóður auglýsir eftir styrkumsóknum og þar á meðal til uppsetningar á hleðslustöðvum við gististaði og fjölsótta ferðamannastaði. Umhverfisráð leggur til að sveitarfélagið sendi inn umsóknir til Orkusjóðs fyrir hleðslustöðvum á ferjuhöfninni á Árskógssandi og hafnarsvæðinu á Hauganesi. Samþykkt samhljóða með fimm atkvæðum. " Enginn tók til máls. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum ofangreinda afgreiðslu umhverfisráðs um að senda inn umsóknir til Orkusjóðs fyrir tilgreindar hleðslustöðvar." Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi frá Helgu Írisi Ingólfsdóttur, skipulags- og tæknifulltrúa, dagsett þann 13. september 2021, þar sem óskað er eftir viðauka að upphæð kr. 550.000 fyrir hlut Dalvíkurbyggðar í uppsetningu stöðvanna. Fyrir liggja drög að samningi á milli Orkusjóðs og Dalvíkurbyggðar þar sem veittur er styrkur að upphæð kr. 550.000 vegna hleðslustöðva í ferðamannaþorpin Hauganes og Árskógssand sem er 50% af áætluðum kostnaði. Með undirskrift samningsins staðfestir styrkþegi að heildarfjármögnun verkefnisins hafi gengið eftir eins og ráð var gert fyrir í umsókn. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fresta afgreiðslu og óskar eftir að fá Helgu Írisi Ingólfsdóttur, skipulags- og tæknifulltrúa, á fund byggðaráðs til að upplýsa um framtíðarekstur stöðvanna."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi minnisblað frá skipulags- og tæknifulltrúa, móttekið 14.10.2021 og gerði Helga Íris grein fyrir hvaða upplýsingum hún hefur náð að afla um fyrirkomulag á uppsetningu og rekstur hleðslustöðva.

Helga Íris og Bjarni Daníel véku af fundi kl. 15:20.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fresta afgreiðslu á þessu erindi og felur skipulags- og tæknifulltrúa að afla frekari upplýsinga um kostnað og fyrirkomulag á rekstri hleðslustöðva.

10.Frá 132. fundi íþrótta- og æskulýðsráðs; Staða íþróttafélaga vegna COVID19

Málsnúmer 202004008Vakta málsnúmer

Á 132. fundi íþrótta- og æskulýðsráðs þann 28. september sl. var eftirfarandi bókað:
"Byggðaráð vísaði minnisblaði íþrótta- og æskulýðsfulltrúa til umfjöllunar í íþrótta- og æskulýðsráði og að íþrótta- og æskulýðsráð komi með tillögu til byggðaráðs hvernig á að bregðast við fyrirliggjandi óskum og hugmyndum íþróttafélaganna.
Íþrótta- og æskulýðsráð leggur til að félögin verði styrkt um eftirfarandi upphæð vegna stöðu þeirra vegna fjárhagstaps í ljósi takmarkana sóttvarnaryfirvalda.
- Skíðafélag Dalvíkur fái þær 5.000.000 sem félagið fékk fyrirfram á síðasta ári til að brúa bil. Ljóst er að bilið hvorki minnkaði né stækkaði sl. ár og því stendur þessi upphæð eftir.
- Sundfélagið Rán fái styrk á móti leigu að upphæð 391.400.- þar sem sundlaugin var lokuð að hluta vegna sóttvarnartakmarkana sem og vegna framvæmda árið 2021. Einnig náði félagið ekki að halda árlegar fjáraflanir.
- Barna- og unglingaráð UMFS: 600.000. Félagið hefur sýnt ráðdeild og passað upp á fjármagn, en fjáröflun verið erfið undanfarið ár.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda tillögu íþrótta- og æskulýðsráðs og óskar eftir að íþrótta- og æskulýðsfulltrúi leggi fyrir byggðaráð á næsta fundi viðaukabeiðni í samræmi við tillöguna.

11.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202109137Vakta málsnúmer

Bókað í trúnaðarmálabók.

12.Frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf.; Niðurstöður viðhorfskönnunar

Málsnúmer 202110007Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Lánasjóði sveitarfélaga, dagsettur þann 4. október sl., þar sem kynnt niðurstaða viðhorfskönnunar sem Lánasjóður sveitarfélaga framkvæmdi í ágúst á þessu ári.
Lagt fram til kynningar.

13.Frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun; Stofnframlög - opnað fyrir umsóknir

Málsnúmer 202110006Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, dagsettur þann 4. október sl., er varðar auglýsingu um að opnað hefur verið fyrir umsóknir um stofnframlög ríkisins í seinni úthlutun ársins. Umsóknarfrestur er til 24. október 2021.

Reglur Dalvíkurbyggðar um stofnframlög er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Fram kemur að sveitarfélagið auglýsir að jafnaði eftir umsóknum um stofnframlög einu sinni á ári. Dalvíkurbyggð auglýsti eftir stofnframlögum í mars á þessu ári.
https://www.dalvikurbyggd.is/static/files/Reglugerdir/fjarmala/Eldra/180823.reglur-dalvikurbyggdar-um-stofnframlog_.pdf
Lagt fram til kynningar.

14.Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Húsnæðissjálfseignarstofnun á landsbyggðinni

Málsnúmer 202110009Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sbr. rafpóstur dagsettur þann 1. október sl. og minnisblað 30. september sl., þar sem fram kemur að á fundi stjórnar Sambandsins þann 24. september sl. var fjallað um verkefni sem snúa að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni. Kynnt var hugmynd sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur mótað og felur í sér að setja á fót húsnæðissjálfseignarstofnun er starfi á landsbyggðinni. Markmið þessa nýja aðila verði að stuðla að uppbyggingu almennra íbúða þar sem þess er þörf utan höfuðborgarsvæðis og vaxtarsvæða í þágu tekjulágra hópa á vinnumarkaði og þeirra hópa sem sveitarfélög bera sérstakar lagaskyldur gagnvart, m.a. fötluðu fólki.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga óskar eftir að sveitarstjórnir á landsbyggðinni taki afstöðu til hugmyndarinnar og upplýsi sambandið um hana fyrir lok október.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.

15.Frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu; Drög að breytingum á leiðbeiningum um ritun fundargerða nr. 222013 og notkun fjarfundarbúnaðar nr. 11402013

Málsnúmer 202109021Vakta málsnúmer

Á 995. fundi byggðaráðs þann 9. september sl. var eftirfarandi bókað:
"Tekið fyrir bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dagsett þann 1. september 2021, er varðar breytingar á leiðbeiningum um ritun fundargerða og notkun fjarfundarbúnaðar. Fram kemur að ráðuneytið hefur birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins drög að breytingum á leiðbeiningum um ritun fundargerða nr. 22/2013 og notkun fjarfundarbúnaðar nr. 1140/2013. Sveitarfélög eru hvött til að senda inn umsögn og huga jafnframt að breytingum á samþykktum sínum. Umsagnarfrestur er til 13. september nk. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að senda inn umsögn byggðaráðs Dalvíkurbyggðar í samræmi við umræður á fundinum."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dagsett þann 4. október sl. þar sem fram kemur að ráðuneytið hefur gefið út nýjar leiðbeiningar um ritun fundarerða sveitarstjórna og leiðbeiningar um þátttöku nefndarmanna á fundum sveitarfélaga með rafrænum hætti. Samhliða nýjum leiðbeiningum hefur ráðuneytið, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, uppfært fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélaga sem ráðuneytinu ber að gefa út sbr. 2. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Gert er grein fyrir helstu breytingar á gildandi framkvæmd ásamt því að sendar eru ofangreindar leiðbeiningar og fyrirmynd af samþykkt um stjórn sveitarfélaga.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til endurskoðunar á Samþykkt um stjórn Dalvíkurbyggðar sem er í vinnslu.

16.Frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu; Bréf til allra sveitarfélaga vegna birtingar draga að breytingarreglugerð í Samráðsgátt

Málsnúmer 202110011Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dagsett þann 6. október sl., þar sem fram kemur að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur nú til breytingu á útreikningi tekjujöfnunarframlaga. Drög að breytingum á núgildandi reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nr. 1088/2018 með áorðnum breytingum hefur verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem lagt er til að 13. gr. verði breytt til samræmi við það sem fram kemur í bréfinu. Með breytingunni er ætlunin, auk annars, að fjölga þeim sveitarfélögum sem hljóta tekjujöfnunarframlag. Að mati Jöfnunarsjóðs myndi breytingin einnig leiða til frekari tekjujöfnunar sveitarfélaga. Opið er fyrir umsagnir þar til í lok dags miðvikudagsins 20. október nk.
Lagt fram til kynningar.

17.Frá Samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytinu; Breyting á reglugerð 1212-2015 vegna reikningsskila sveitarfélaga

Málsnúmer 202110022Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, bréf dagsett þann 11. október sl., er varðar breytingu á reglugerð 1212/2015 vegna reikningsskila sveitarfélaga. Tilgangur bréfsins er að minna á þessa breytingu sem gerð var á 20. gr. og nýtt ákvæði. Nú gert skylt að færa inn í samantekin reikningsskil sveitarfélags miðað við hlutfallslega ábyrgð sveitarfélags vegna byggðarsamlaga, sameignarfélaga, sameignarfyrirtækja og annara félagaforma sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélags.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs gerði grein fyrir að þegar er hafin vinna við að skoða hvort og þá hvernig ofangreint ákvæði hefur áhrif á reikningsskil og áætlunargerð sveitarfélagsins.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:45.

Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson varaformaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson formaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs