Byggðaráð

956. fundur 24. september 2020 kl. 13:00 - 16:15 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson formaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
  • Þórunn Andrésdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.
Dagskrá
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson boðaði forföll og varamaður hans, Þórunn Andrésdóttir, mætti í hans stað.

1.Starfsemi og rekstur Dalvíkurbyggðar - vinnuhópur um farartæki, tæki og tæknibúnað - tillaga

Málsnúmer 201901038Vakta málsnúmer

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Þórhalla Karlsdóttir, fulltrúi byggðaráðs í vinnuhópi um farartæki, tæki og tæknibúnað í eigu sveitarfélagsins sem samþykktur var á fundi sveitarstjórnar 17. mars 2020.

Þórhalla gerði grein fyrir störfum vinnuhópsins og drögum að tillögu.

Til umræðu ofangreint.

Þórhalla vék af fundi kl.13:53.
Lagt fram til kynningar.

2.Starfs- og fjárhagsáætlun 2021 og 3ja ára áætlun 2022-2024

Málsnúmer 202005082Vakta málsnúmer

a) Endurskoðun á tímaramma

Sveitarstjóri og sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs fóru yfir stöðu mála hvað varðar vinnu við fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 og leggja til að skilum á tillögum á starfs - og fjárhagsáætlun verði seinkað um eina viku eða til og með 6. október n.k. til að fagráðin og starfsmenn hafi meira svigrúm til að fjalla um innsend erindi.

b) Beiðnir um viðbótarstöðugildi, sbr. starfs- og kjaranefnd.

Sveitarstjóri gerði grein fyrir samantekt hvað varðar beiðnir stjórnenda um viðbótarstöðugildi 2021.

Sveitarstjóri vék af fundi undir þessum lið til annarra starfa kl. 15:05.

c) Frá sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs; Myndavélakerfi - á að fara í 2020 eða síðar

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kynnti kostnað við myndavélakerfi við Dalvíkurskóla með vísan í vangaveltur byggðarráðs um hvort brýnt sé að setja upp myndavélar við skólann fyrr en seinna.

d) Drög að rekstraryfirliti 2021

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kynnti drög að rekstraryfirliti 2021 miðað við samþykktan fjárhagsramma, launaáætlun 2021 og áætlaðar millifærslur.
a) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda tillögu að breytingum á tímaramma fjárhagsáætlunarvinnu þannig að skil á tillögum að starfs- og fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 ásamt fylgigögnum verði 6. október n.k.
b) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að svara stjórnendum í samræmi við áherslur byggðaráðs og upplýsingar sem kynntar voru á fundinum.
c) Byggðaráð telur að kostur sé að setja upp myndarvélar fyrr en seinna og felur sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs að skoða málið áfram.
d) Lagt fram til kynningar.

3.Selárland - athugasemdir við kaupsamning / afsal

Málsnúmer 201707019Vakta málsnúmer

Á 954. fundi byggðaráðs var til umfjöllunar kaupsamningur / afsal um jörðina Selá frá Ríkiseignum og um þau atriði sem út af standa enn. Byggðaráð fól sveitarstjóra að svara fjármála- og efnahagsráðuneytinu í samræmi við minnisblað sveitarstjóra.

Sveitarsjóri gerði grein fyrir svarbréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsett þann 17. september 2020, við erindi Dalvíkurbyggðar frá 15. september s.l. þar sem sveitarfélagið fer fram á að ákvæði sem undanskilur auðlindir við sölu landsins verði fellt úr fyrirliggjandi samningsdrögum. Fram kemur í svarbréfi ráðuneytisins að ekki verði fallist á að undanskilja auðlindir, t.d. vatnsréttindi, jarhitaréttindi og jarðefni, sölu jarðarinnar né að gefið verði frekar eftir hvað varðar endanlegt kaupverð landsins.

Sveitarstjóri gerði grein fyrir samskiptum við ráðuneyti og ráðherra í framhaldi af ofangreindu svarbréfi ráðuneytisins.

Sveitarstjóri vék af fundi undir þessum lið til annarra starfa kl. 15:05.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sveitarstjóra að vinna áfram að málinu og meðal annars sé síðasta málsgreinin í svarbréfi ráðuneytisins sérstaklega skoðuð út frá hagsmunum sveitarfélagsins.

4.Fundargerðir starfs -og kjaranefndar frá 2020

Málsnúmer 202003008Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs kynnti fundargerð starfs- og kjaranefndar frá 22. september s.l. og yfirferð yfir beiðnir stjórnenda um viðbótarstöðugildi 2021.
Lagt fram til kynningar með vísan í lið 2 hér ofar á dagskrá.

5.Vinnuhópur um húsnæðismál - fundargerð.

Málsnúmer 202001027Vakta málsnúmer

Tekin fyrir fundargerð vinnuhóps sveitarfélagsins um húsnæðismál frá 8. september 2020.
Með fundarboði fylgdu einnig drög að könnun meðal íbúa sveitarfélagsins á aldrinum 55 ára og eldri, á þörf fyrir íbúðarhúsnæði.
Byggðaráð gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi drög að könnun meðal íbúa sveitarfélagsins á aldrinum 55 ára og eldri og felur sveitarstjóra að taka málið áfram.

6.Frá Dalvíkurskóla; Beiðni um viðauka vegna veikinda

Málsnúmer 202009114Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá skólastjóra Dalvíkurskóla, dagsett þann 21. september 2020, þar sem óskað er eftir launaviðauka vegna veikinda tveggja starfsmanna við deild 04210 að upphæð kr. 2.032.633
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda beiðni um viðauka vegna launa við fjárhagsáætlun 2020, viðauki nr. 31 á deild 04210, að upphæð kr. 2.032.633 og að honum verði mætt með lækkun á handbæru fé, vísað til sveitarstjórnar til umfjöllunar og afgreiðslu.

7.Frá Fjallabyggð; Framtíðarfyrirkomulag brunavarna - beiðni um viðræður

Málsnúmer 202009112Vakta málsnúmer

Tekð fyrir erindi frá Fjallabyggð, rafpóstur dagsettur þann 22. september 2020, þar sem vísað er í bókun bæjarráðs Fjallabyggðar sama dag um framtíðarskipulag brunavarna og ósk um viðræður við Dalvíkurbyggð en það er mat bæjarstjóra Fjallabyggðar að skynsamlegast sé að horfa fyrst til þess möguleika að sameina brunavarnir í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Með sameiningu geti náðst fram bætt þjónusta og öryggi fyrir sambærilega fjármuni og sveitarfélögin leggja nú til málaflokksins.

Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að verða við ósk Fjallabyggðar um viðræður um brunavarnir sveitarfélaganna og felur sveitarstjóra að ræða við bæjarstjóra Fjallabyggðar um fyrirkomulag viðræðna sem og að upplýsa slökkviliðsstjóra Dalvíkurbyggðar og slökkvilið Dalvíkur um ofangreint.

8.Lántaka 2020 - lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga

Málsnúmer 202007083Vakta málsnúmer

Á 952. fundi byggðaráðs þann 27. ágúst s.l. var sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs falið að undirbúa lántöku hjá Lánasjóði sveítarfélaga, allt að 115 m.kr. í samræmi við minnisblað og heildarviðauka II við fjárhagsáætlun 2020.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs gerði grein fyrir meðfylgjandi drögum að lánssamningi við Lánasjóð sveitarfélaga að upphæð kr. 115 m.kr. til 14 ára með föstum verðtryggðum vöxtum.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreindan lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga og vísar honum til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.

9.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202009115Vakta málsnúmer

Bókað í trúnaðarmálabók.

10.Skýrsla Flugklasans Air 66N, stað september 2020

Málsnúmer 202003174Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla frá Markaðsstofu Norðurlands um starf Flugklasans Air 66N frá 1. apríl til 15. september 2020.
Lagt fram til kynningar.

11.Frá SSNE, fundargerð stjórnar nr. 13.

Málsnúmer 202006043Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar SSNE frá 16. september s.l.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 16:15.

Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson formaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
  • Þórunn Andrésdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs.