Byggðaráð

936. fundur 05. mars 2020 kl. 13:00 - 15:00 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Snjómokstur 2020

Málsnúmer 202002053Vakta málsnúmer

Jón Ingi Sveinsson vék af fundi kl. 13:00 vegna vanhæfis.

Börkur Þór Ottósson, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs og Steinþór Björnsson, deildarstjóri eigna- og framkvæmdadeildar, komu á fundinn kl. 13:00.

Til umræðu snjómokstur í vetur. Veturinn hefur verið mjög snjóþungur og miklir umhleypingar sem oft á tíðum kalla á daglegan snjómokstur bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Með fundarboði fylgdi samantekt á kostnaði vegna snjómoksturs í Dalvíkurbyggð árin 2015-2020 þar sem fram kemur að í desember 2019 og janúar og febrúar 2020 er varið meiri fjármunum til snjómoksturs en í nokkrum öðrum mánuðum á þessu 5 ára tímabili.
Þannig er meðaltal kostnaðar vegna snjómoksturs árin 2015-2018 um 25 miljónir króna á ári. Árið 2019 varði Dalvíkurbyggð tæpum 40 miljónum króna í snjómokstur í heild, stærsti einstaki mánuðurinn var desember með 15 miljónir króna. Janúar 2020 kostaði 11,5 miljónir króna og áætlað er að febrúar hafi kostað um 14 miljónir króna í snjómokstri.
Í fjárhagsáætlun 2020 var gert ráð fyrir 25,8 miljónum í snjómokstur á deild 10600 og er það fjármagn að klárast um þessar mundir.

Aðeins er um að ræða að draga mjög verulega úr þjónustu eða samþykkja viðauka. Með fundarboðinu fylgdi beiðni um viðauka upp á 20 miljónir króna á deild 10600 lykil 4948, snjómokstur. Viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé.
Byggðaráð samþykkir með 2 atkvæðum viðauka nr. 9 við fjárhagsáætlun 2020 að upphæð 15 milljónir króna, við deild 10600-4948 vegna snjómoksturs. Viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé. Vísað til afgreiðslu í sveitarstjórn.

Jón Ingi greiðir ekki atkvæði vegna vanhæfis.

Byggðaráð lýsir yfir áhyggjum sínum af því að það fjármagn, sem er úthlutað til Vegagerðarinnar til snjómoksturs, dugar engan vegin til í árferði eins og verið hefur í vetur. Því er nauðsynlegt að til komi aukafjárveitingar til Vegagerðarinnar til snjómoksturs í Eyjafirði á móti þeim aukafjárveitingum sem sveitarfélögin eru að leggja til. Sveitarstjóra er falið senda slíka beiðni til Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytis.

Byggðaráð felur sveitarstjóra að sækja um viðbótarframlög úr Jöfnunarsjóði vegna snjómoksturs veturinn 2019-2020.

2.Íbúafundur um Gamla skóla

Málsnúmer 201809053Vakta málsnúmer

Jón Ingi kom aftur inn á fundinn kl. 13:25.

Á 933. fundi byggðarráðs þann 30. janúar 2020 var sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs ásamt deildarstjóra eigna- og framkvæmdadeildar falið að kanna kosti og galla þess að auglýsa Gamla skóla til leigu í því ástandi sem hann er.
Þeir skoðuðu húsnæðið með fagmanni, bæði með leigu í huga og eins möguleika á því að breyta húsnæðinu í íbúðir.
Þeirra mat er að húsnæðið sé óhæft til leigu í því ástandi sem það er í dag. Víða er leki í húsinu og yfirfara þarf allt ofnakerfi hússins.
Lagt fram til kynningar.

3.Ósk um viðræður um yfirtöku á götulýsingakerfi.

Málsnúmer 201904092Vakta málsnúmer

Þann 10. apríl 2019 óskaði RARIK eftir viðræðum við Dalvíkurbyggð um yfirtöku á götulýsingarkerfi sveitarfélagsins. Samkvæmt erindinu urðu ákveðin kaflaskil þegar raforkulög nr. 65 frá árinu 2003 tóku gildi. Samkvæmt þeim þá fellur götulýsing ekki undir einkaleyfisstarfsemi dreifiveitufyrirtækja. Uppsetning og rekstur götuljósa kemur þannig ekki inn í tekjuheimildir dreifiveitu eins og starfsemi við rekstur dreifikerfa. RARIK hefur því þurft að halda götulýsingunni utan við hefðbundinn rekstur og utan við tekjuuppgjör gagnvart Orkustofnun.

Með fundarboði fylgdu drög að samningi á milli RARIK og Dalvíkurbyggðar um afhendingu RARIK á götulýsingarkerfinu til eignar í Dalvíkurbyggð. Í drögunum kemur fram að sveitarfélagið yfirtekur og eignast götulýsingarkerfið í því ástandi sem það er við undirritun samnings og er dagsetning yfirtöku 1. júní 2020.

Börkur og Steinþór viku af fundi kl. 13:47.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum fyrirliggjandi samning um afhendingu RARIK á götulýsingarkerfinu til eignar í Dalvíkurbyggð og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

4.Frá sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs, beiðni um viðauka vegna langtímaveikinda á Krílakoti.

Málsnúmer 202002083Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs, dagsett 25. febrúar 2020, þar sem hann óskar eftir viðauka við launáætlun á leikskólanum á Krílakoti vegna langtímaveikinda starfsmanns í þrjá mánuði. Ekki er gert ráð fyrir langtímaveikindum í launaáætlun fyrir fjárhagsárið 2020 og því ekki svigrúm inn í áætlun til að mæta þeim viðbótar kostnaði.

Óskað er eftir launaviðauka kr. 4.549.549 á deild 04140, Krílakot vegna ofangreinds, og að viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum viðauka nr. 10 við fjárhagsáætlun 2020 að upphæð 4.549.549 kr við deild 04140, launaviðauki vegna langtímaveikinda á Leikskólanum Krílakoti. Viðaukanum verði mætt með lækkun á handbæru fé. Vísað til afgreiðslu í sveitarstjórn.

5.Lántaka skv. fjárhagsáætlun 2019

Málsnúmer 201911065Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar samþykkti samhljóða, á fundi sínum 29. nóvember 2019, að fela sveitarstjóra að leita eftir láni hjá Lánasjóði sveitarfélaga, fyrir Hafnasjóð Dalvíkurbyggðar skv. fjárhagsáætlun 2019, að upphæð 90 milljónir króna.
Í lok janúar 2020 komu upplýsingar frá Lánasjóðnum um að umsókn Dalvíkurbyggðar hefði verið samþykkt og fylgdi lánssamningur með fundarboði byggðaráðs.

Þar sem lántakan náðist ekki inn á árið 2019 þarf viðauka við fjárhagsáætlun 2020 upp á 90 miljónir króna til hækkunar langtímaskulda Hafnasjóðs Dalvíkurbyggðar, deild 42500. Fjárhæðin kemur til hækkunar á handbæru fé.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum viðauka nr. 11 við fjárhagsáætlun 2020, vegna lántöku Hafnasjóðs Dalvíkurbyggðar, deild 42500, 90 miljónir króna. Fjárhæðin komi til hækkunar á handbæru fé. Vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum fyrirliggjandi lánssamning og vísar honum til afgreiðslu í sveitarstjórn.

6.Selárland-Verðmat

Málsnúmer 201707019Vakta málsnúmer

Þann 2. janúar 2020 sendi Dalvíkurbyggð Ríkinu formlegt tilboð í Selárlandið á Árskógsströnd.

Þann 2. mars 2020 barst svar frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem tilboði sveitarfélagsins er hafnað. Óskað er eftir öðru verðmati frá óháðum aðila á verðmæti Selárlandsins.
Byggðaráð felur sveitarstjóra að fá verðmat frá óháðum aðila.

7.Lögreglusamþykkt Dalvíkurbyggðar. Endurskoðun 2020.

Málsnúmer 202003010Vakta málsnúmer

Með fundarboði fylgdu drög að endurskoðaðri lögreglusamþykkt Dalvíkurbyggðar.
Einu efnislegu breytingarnar sem lagðar eru til eru við 24. grein. Þar er lagt til að opnunartími á áfengisveitingastöðum í flokki III verði lengdur til kl. 01:00 virka daga. Þetta er lagt til eftir ábendingar frá rekstraraðilum í sveitarfélaginu og einnig eftir samanburð við lögreglusamþykktir nágrannasveitarfélaganna.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum Lögreglusamþykkt Dalvíkurbyggðar með þeim breytingum sem fyrir liggja og vísar samþykktinni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Fundargerðir starfs -og kjaranefndar frá 2020

Málsnúmer 202003008Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar og umræðu fundargerðir starfs- og kjaranefndar frá 3. september 2019 til 3. mars 2020.

Einnig lagt fram til kynningar leiðbeiningarblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna verkfalla BSRB.

Þá fylgdi með fundarboðinu endurskoðað og uppfært erindisbréf nefndarinnar eftir breytingu á heiti hennar úr ráðninganefnd í starfs- og kjaranefnd í september 2019.
Lagt fram til kynningar.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum erindisbréf starfs- og kjaranefndar með þeim breytingum sem lagðar voru til á fundinum.

9.Fundargerðir SSNE 2020

Málsnúmer 202002037Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir SSNE frá
5. fundi 12. febrúar 2020 og
6. fundi 21. febrúar 2020.
Lagt fram til kynningar.

10.Til upplýsinga vegna heimsfaraldurs kórónaveiru

Málsnúmer 202002084Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar margvíslegar upplýsingar sem borist hafa vegna viðbragða og verklagsreglna vegna kóróna veirunnar.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, gerði grein fyrir upplýsingafundum sem hún hefur setið með Almannavarnanefnd vegna málsins. Einnig fór hún yfir viðbrögð stofnana sveitarfélagsins og upplýsingar hafa verið veittar til starfsfólks og viðskiptavina.
Lagt fram til kynningar.

11.Til umsagnar tillaga til þingsályktunar um um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 311. mál.

Málsnúmer 202002085Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá nefndasviði Alþingis dagsettur 27. febrúar 2020 þar sem umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, 311. mál.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 19. mars nk.
Lagt fram til kynningar.

12.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202003011Vakta málsnúmer

Bókað í trúnaðarmálabók
Að fundi loknum fór byggðaráð ásamt sveitarstjóra, sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs og deildarstjóra eigna- og framkvæmdadeildar fram í Skíðadal og Svarfaðardal að skoða færð og snjóalög.

Fundi slitið - kl. 15:00.

Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri