Ársreikningur 2019; endurskoðun og uppgjör

Málsnúmer 202001021

Vakta málsnúmer

Byggðaráð - 941. fundur - 15.04.2020

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs kl. 13:00 Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi frá KPMG,sveitarstjórnarfólkið Þórhalla Karlsdóttir, Þórunn Andrésdóttir og Dagbjört Sigurpálsdóttir og sviðsstjórarnir Þorsteinn Björnsson, Eyrún Rafnsdóttir, Gísli Bjarnason og Börkur Þór Ottósson.
Allir aðalmenn í sveitarstjórn og sviðsstjórar fagsviða voru boðaðir á fundinn undir þessum lið.

Arnar Árnason fór yfir helstu niðurstöður og forsendur ársreiknings Dalvíkurbyggðar 2019.

Arnar, Þórhalla, Börkur, Þorsteinn, Eyrún og Gísli viku af fundi kl. 14:03.
Byggðaráð þakkar Arnari Árnasyni fyrir komuna og góða yfirferð.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ársreikningi Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2019 til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn - 324. fundur - 21.04.2020

Á 941. fundi byggðaráðs þann 15. apríl 2020 var eftirfarandi bókað:
"Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs kl. 13:00 Arnar Árnason, löggiltur endurskoðandi frá KPMG,sveitarstjórnarfólkið Þórhalla Karlsdóttir, Þórunn Andrésdóttir og Dagbjört Sigurpálsdóttir og sviðsstjórarnir Þorsteinn Björnsson, Eyrún Rafnsdóttir, Gísli Bjarnason og Börkur Þór Ottósson. Allir aðalmenn í sveitarstjórn og sviðsstjórar fagsviða voru boðaðir á fundinn undir þessum lið. Arnar Árnason fór yfir helstu niðurstöður og forsendur ársreiknings Dalvíkurbyggðar 2019. Arnar, Þórhalla, Börkur, Þorsteinn, Eyrún og Gísli viku af fundi kl. 14:03.

Byggðaráð þakkar Arnari Árnasyni fyrir komuna og góða yfirferð. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ársreikningi Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2019 til fyrri umræðu í sveitarstjórn."

Til máls tók:
Katrín Sigurjónsdóttir, sem gerði grein fyrir helstu niðurstöður ársreiknings Dalvíkurbyggðar vegna ársins 2019.

Rekstrarniðurstaða A-hluta er jákvæð um kr. 155.977.000 en áætlun gerði ráð fyrir kr. 33.250.000 með viðaukum ársins 2019.
Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta er jákvæð um kr. 204.426.000 en áætlun gerði ráð fyrir kr. 69.994.000 með viðaukum ársins 2019.
Langtímaskuldir við lánastofnanir voru í árslok 2019 kr. 883.730.000 en voru í árslok 2018 kr. 737.246.000.
Á árinu 2019 var tekið lán að upphæð kr. 149.881.000 og endurlánað til Leiguíbúða Dalvíkurbyggðar.
Afborganir langtímalána fyrir A- og B- hluta voru kr. 123.801.000.
Þannig er skuldarviðmið Dalvíkurbyggðar 43,9% sem er töluvert undir skuldarviðmiði sveitarfélaga.
Fjárfestingar ársins 2019 fyrir samstæðuna voru kr. 333.732.000 og gerði áætlun með viðaukum ráð fyrir kr. 324.406.000.
Veltufé frá rekstri var kr. 400.253.000 fyrir A- og B- hluta. Árið 2018 var veltufé frá rekstri kr. 433.157.000.
Heildartekjur A- og B- hluta voru um 2.539,0 m.kr., þar af er útsvarið 40,6%, fasteignaskattur 5,5%, framlög úr Jöfnunarsjóði 25,9% og aðrar tekjur 28%.
Laun og launatengd gjöld A- og B- hluta eru 1.352,5 m.kr. eða um 53,3% af tekjum.
Veltufjárhlutfall A- og B- hluta var 1,19 og skuldahlutfallið 70,4%.
Ársreikningnum fylgir skýring vegna Covid-19 heimsfaraldursins þó að hann komi eftir lok reikningsskiladags. En vænta má að áhrif á reksturs sveitarfélagsins verði umtalverð m.a. vegna lægri skatttekna og annarra tekna, frestun gjalddaga og aukinna útgjalda.

Undir þessum lið tók einnig til máls:
Gunnþór E. Gunnþórsson
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum að vísa ársreikningi Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2019 til síðari umræðu í sveitarstjórn, sem verður 12. maí n.k.

Sveitarstjórn færir starfsmönnum Dalvíkurbyggðar og stjórnendum þakkir fyrir góða afkomu á rekstrarárinu og fyrir vinnuna við ársreikninginn.

Sveitarstjórn - 325. fundur - 12.05.2020

Guðmundur St. Jónsson kom inn á fundinn að nýju kl. 16:54.

Á 324. fundi sveitarstjórnar þann 21. apríl 2020 var ársreikningur Dalvíkurbyggðar tekin til fyrri umræðu og samþykkt samhljóða að vísa honum til sveitarstjórnar til síðari umræðu.

Til máls tók:
Katrín Sigurjónsdóttir sem leggur fram eftirfarandi bókun:

Við fyrri umræðu voru bókaðar helstu niðurstöður ársreikningsins auk þess sem hann er nú birtur í heild sinni sem fylgiskjal í fundargerð þessari og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Eins og sést í ársreikningnum er rekstrarniðurstaðan 134 miljónum króna betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun og eru ástæður þessar helstar, horft er á samstæðuna í heild:
Mestu munar um hærri tekjur sem eru í heild um 116 miljónum umfram áætlun. Þar eru útsvarstekjur um 43 miljónum hærri en áætlað var og tekjur jöfnunarsjóðs eru hærri sem nemur rúmum 30 miljónum króna. Þjónustutekjur og aðrar tekjur skiluðu 38 miljónum króna meiri tekjum en áætlað var. Ekki er mikill munur á rekstrargjöldum en þau eru 9 miljónum króna lægri en áætlað var.
Í áritun sveitarstjórnar kemur fram að Covid-19 heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir mun hafa veruleg áhrif á mörgum sviðum um allan heim þar með talið efnahagsleg. Veruleg óvissa ríkir um endanlega áhrif faraldursins s.s. vegna óvissu um hve lengi hann mun vara og hver áhrifin verða eftir að honum líkur. Vænta má að áhrif á rekstur sveitarfélagsins verði umtalsverð m.a. vegna lægri skatttekna og annarra tekna, frestun gjalddaga og aukinna útgjalda.
Það er mat stjórnenda sveitarfélagsins að ekki sé unnt, í ljósi framangreindrar óvissu, að leggja endanlegt mat á áhrif Covid-19 á rekstur sveitarfélagsins en meta greiðsluhæfi þess þó ekki skert.
Ég vil ítreka þakkir frá sveitarstjórn til starfsmanna Dalvíkurbyggðar og stjórnenda fyrir góða afkomu á rekstrarárinu og fyrir vinnuna við ársreikninginn.
Þá vil ég þakka samstarfsfólki í sveitarstjórn fyrir samstöðu við stjórnun sveitarfélagsins sem m.a. leiðir til þessarar góðu rekstrarniðurstöðu og sýnir þann kraft, jákvæðni og einhug sem í sveitarfélaginu býr.

Undir þessum lið tók einnig til máls:
Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum ársreikning Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2019 eins og hann liggur fyrir og undirritar ársreikninginn því til staðfestingar ásamt ábyrgðar - og skuldbindingaryfirliti.

Byggðaráð - 946. fundur - 04.06.2020

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi samantekt aðalbókara sveitarfélagsins yfir helstu birgja ársins 2019.
Byggðaráð samþykkir með 3 atkvæðum að listi yfir stærstu birgja ársins 2019 verði birtur á heimasíðu sveitarfélagsins.