Umsókn í menningarsjóð 2017 - Dagur Óskarsson

Málsnúmer 201704005

Vakta málsnúmer

Menningarráð - 62. fundur - 02.05.2017

Tekin var fyrir beiðni um styrkveitingu frá Degi Óskarssyni.
Menningarráð hafnar styrkveitingu á grundvelli úthlutunarreglna ráðsins. Menningarráði finnst verkefnið gott og bendir á að það heyri frekar undir atvinnumála- og kynningarráð.

Menningarráð - 63. fundur - 08.06.2017

Erindi til Menningarráðs Dalvíkurbyggðar (Ó.E. að verða fært til bókar)
v. styrkveitinga úr Menningar- og viðurkenningarsjóði menningarráðs Dalvíkurbyggðar

Ég óska nánari skýringa við svarbréfi því sem mér barst við erindi mínu fyrir ósk um styrkveitingu úr ofangreindum sjóði. M.v.t. núgildandi menningarstefnu Dalvíkurbyggðar þá á ég erfitt með að sammælast niðurstöðu ráðsins. Ósammæli mínu til grundvallar legg ég orðrétt til eftirfarandi vísanir úr stefnuskrá Sveitarstjórnar Dalvíkur.

-
Efla menningarstarf í sveitarfélaginu, hlúa að því sem fyrir er og skapa forsendur fyrir nýsköpun á sviði menningarmála.
-
Efla vitund íbúa byggðarinnar sem og annara fyrir menningararfi okkar og menningarlegum sérkennum.
-
Stuðla að og efla menningartengda ferðamennsku.

Vel má vera að stór hluti verkefnisins í heild ætti betur sammerkt undir atvinnumála- og kynningarráði. En sá verkþáttur/efnistök sem ég tilgreindi í umsókn minni til styrks tel ég í hrópandi samræmi við ofangreinda þætti í yfirlýstri stefnulýsingu. Ég á bágt með að trúa að menningarlegt ólæsi nefndarmanna sé slíkt að þeir sjái ekki sömu samsvörun. Úr því sem komið er, skiptir mig ekki mestu hvort að ráðið endurskoði undirritaða bókun, heldur að ég fái málsvarandi rökstuðning. Að öðrum kosti verð ég að lýsa yfir vanþóknun við úthlutunina og meta undirbúning og vinnubrögð ráðs og sviðsstjóra ófaglega og illa ígrundaða.

Til að viðhalda heilbrigðri menningarstefnu innan sveitafélagsins teldi ég að það ætti að vera keppikefli menningarráðs og sviðsstjóra að endurskoða og uppfæra menningarstefnu á fyrstu misserum kjörtímabils í stað þess að dreypa dreggjar úr skálum fyrri ráða. Skv. bókun var síðasta menningarstefna endurskoðuð þann 4. mars 2014 (og staðfest af sveitarstjórn 19. apríl 2014.) Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og ýmislegt tíundað sem vert er endurskoðunnar.

Til gamans þá langar mig að biðja ykkur að velta fyrir ykkur orðinu „hönnun“ ...Hvað er það fyrsta sem grípur hugann? Eru það sjónvarpsskot úr „Landanum“ ...húsfreyjan austur á Héraði sem sagar út íslandsmyndir og setur klukkuverk í gegnum miðjan sprengisand? ...Eða vélvirkinn sem stendur við nýju lazer-skurðarvélina sína og hefur ekki undan að skera hrafna út úr harðplasti fyrir þurftafreka fagurkera. Hvernig skilgreinið þið orðið „hönnun“? Skilgreinið þið orðið til listgreina? Til iðnar? Eða e.t.v. sammerkt til handverks? Orðið „hönnun“ er ónýtt orð í sinni upprunalegu og réttu merkingu í íslenskri tungu. Orðið tilheyrir ekki lengur fagi eða fagstétt. Í dag eru allir „hönnuðir“ ef þeir búa eitthvað til, líkt og að kalla sig tannlækni fyrir að bursta reglulega í sér tennurnar. Hvað eru listir? Hvað er menning?

Ég er menntaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands, ég er ekki hörundssár gagnvart ófaglærðu fólki sem kallar sig „hönnuði“, ég kýs að meta fólk út frá frjóum hug og afleiddum verkum. En þegar höfuð menningar í byggðarlaginu er sótt úr þverfaglegum greinum, þá verð ég hugsi ...er þá etv. sérstakt tilefni til að staldra við, og vanda sig? ...Barba non facit philosophum

Kv.
Dagur Ó
Menningarráð þakkar Degi Óskarssyni fyrir innsent erindi. Menningarráð bendir á að við úthlutun úr menningarsjóði hefur Menningarráð til hliðsjónar úthlutunarreglur Menningarsjóðs sem eru óháðar stefnuskrá sveitastjórnar. Menningarráð vill ítreka að hér er um áhugavert verkefni að ræða en að það falli ekki undir úthlutundarreglur Menningar og viðurkenningarsjóðs.

Í ljósi þess sem fram kemur í innsendu erindi um stefnuskrá sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar leggur Menningarráð til að umsækjandi sæki beint um styrkveitingu til byggðarráðs.

Menningarráð - 64. fundur - 21.09.2017

Tekið fyrir erindi frá Degi Óskarssyni.

Dagur Óskarsson
Þverá í Skíðadal
21. júní 2017

Erindi til Menningarráðs og sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs Dalvíkurbyggðar.

(Ó.E. að verða fært til bókar)
v. styrkveitinga úr Menningar- og viðurkenningarsjóði menningarráðs Dalvíkurbyggðar

Mig langar að koma á framfæri athugasemd við eftirfarandi bókun Menningarráðs í fundargerð 63. fundar þann 08. júní 2017, þar sem erindi mínu er svarað svohljóðandi:

„Menningarráð þakkar Degi Óskarssyni fyrir innsent erindi. Menningarráð bendir á að við úthlutun úr menningarsjóði hefur Menningarráð til hliðsjónar úthlutunarreglur Menningarsjóðs sem eru óháðar stefnuskrá sveitastjórnar. Menningarráð vill ítreka að hér er um áhugavert verkefni að ræða en að það falli ekki undir úthlutundarreglur Menningar og viðurkenningarsjóðs. Í ljósi þess sem fram kemur í innsendu erindi um stefnuskrá sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar leggur Menningarráð til að umsækjandi sæki beint um styrkveitingu til byggðarráðs.“

Samkvæmt opinberum vinnureglum menningarráðs vegna úthlutunar styrkja af framlagi til menningarmála segir orðrétt:

„5. gr. Við afgreiðslu umsókna um styrki úr sjóðnum og hverjir teljast styrkhæfir skal Menningarstefna Dalvíkurbyggðar höfð til hliðsjónar.“

Mér þykir því einkennileg þversögn í áliti nefndar að afsala menningarstefnu Dalvíkurbyggðar út í vindinn og ganga í berhögg við 5. gr. vinnureglna menningarráðs vegna úthlutunar styrkja þar sem skýrt er á það kveðið að Menningarstefna Dalvíkurbyggðar skuli höfð til hliðsjónar. Til að setja hlutina í samhengi við síðasta erindi, sem varðar ósætti mitt við mat á hæfni/vanhæfni til úthlutunar styrkja þá vísaði ég beint í Menningarstefnu Dalvíkurbyggðar, en ekki í neitt sem kalla mætti stefnuskrá sveitastjórnar (mér ber að skilja að um ræði sama skjal í huga sviðsstjóra).

Skjölin sem ég vísa til eru: „Vinnureglur menningarráðs vegna úthlutunar styrkja af framlagi til menningarmála“ og „Menningarstefna Dalvíkurbyggðar“(sem sviðsstjóri hefur bókað undir nafni „stefnuskrá sveitarstjórnar“). Bæði skjölin má nálgast í hlekkjum á heimasíðu Dalvíkurbyggðar og hvet ég nefndarmenn og sviðstjóra eindregið til að kynna sér þau vel.
Kv.
Dagur Ó
Menningarráð hefur kynnt sér erindi bréfins og þakkar Degi Óskarssyni fyrir innsent erindi.