Byggðaráð

888. fundur 29. nóvember 2018 kl. 08:15 - 09:55 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Frá sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs; Beiðni um viðauka vegna varaafls

201811141

Á 80.fundi veitu-og hafnaráðs þann 9.nóvember 2018 var eftirfarandi bókað:

"Í fjárhagsáætlun Hitaveitu Dalvíkur þessa árs er gert ráð fyrir kaupum á færanlegum varaaflstöðvum.
Fyrir fundinum liggur tilboð frá Merkúr ehf í tvær stöðvar 10 kw og 20 kw ásamt vagni undir hvorri stöð. Í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir kr. 1.500.000,- til kaupanna en tilboðið hljóðar uppá kr. 2.800.000,- án vsk en með flutningi. Sviðsstjóri leggur til að gengið verði að þessu tilboði og kr. 1.300.000,- verði teknar af lóðarfrágangi við dælustöðvar hitaveitu, en gert var ráð fyrir kr. 2.000.000,- til þess verkefnis á yfirstandandi ári.
Veitu- og hafnaráð samþykkir samhljóða með fimm atkvæðum tillögu sviðsstjóra og leggur til við byggðarráð að kr. 1.300.000,- verði teknar af lóðarfrágangi við dælustöðvar hitaveitu, en gert var ráð fyrir kr. 2.000.000,- til þess verkefnis á þessu ári."


Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda beiðni frá sviðsstjóra veitu- og hafnasviðs um viðauka nr. 41 við fjárhagsáætlun 2018 þannig:
Málaflokkur 48200-11504 Verknúmer KD005 lagfæring á lóðum lækki um 1.300.000 kr.
Málaflokkur 48200-11504 Verknúmer KD002 varaafl hækki um 1.300.000 kr. Um tilfærslu er að ræða á milli liða í fjárfestingum og því ekki þörf á ákvörðun hvernig skal mæta viðaukanum.

2.Frá sviðsstjóra félagsmálasviðs; Beiðni um viðauka vegna félagsþjónustu - lækkun á deildum

201811142

Lögð fyrir beiðni frá sviðsstjóra félagsmálasviðs dags.19. nóvember 2018, óskað er eftir viðauka á eftirfarandi liði:
02-11-9150 fjárhagsaðstoð. Lækkun kr. 3.500.000,-
02-18-9165 sérstakar húsaleigubætur. Lækkun kr. 2.000.000,-
02-30-4970 vistun. Lækkun 1.000.000
Alls er óskað eftir lækkun á ramma félagsmálasviðs fyrir árið 2018 um kr. 6.500.000,-

Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreindan viðauka nr. 42 við fjárhagsáætlun 2018 og kemur hann til hækkunar á handbæru fé.

3.Frá 223. fundi félagsmálaráðs þann 13.11.2018; Styrkumsókn frá Aflinu vegna rekstarársins 2019

201810069

Á 223.fundi félagsmálaráðs þann 13.11.2018 var eftirfarandi bókað:
"Tekið var fyrir erindi frá Aflinu, Samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldis dags. 15.10 2018. Aflið óskar eftir stuðningi við starf sitt fyrir rekstrarárið 2019. Aflið hefur starfað frá árinu 2002. Þjónusta Aflsins er fyrir öll þau sem beitt hafa verið kynferðis - og/eða heimilisofbeldi í sinni víðustu mynd auk þess sem til Aflsins hafa leitað margir þolendur eineltis og vanrækslu. Aflið býður einnig upp á ráðgjöf fyrir aðstandendur. Starfsemi Aflsins gagnvart skjólstæðingum sínum byggir á einkaviðtölum, hópavinnu og forvörnum. Aflið sinnir forvörnum í fræðslu í grunn- og framhaldsskólum, Háskólanum á Akureyri og öðrum stofnunum og fyrirtækjum. Þjónusta Aflsins er veitt brotaþolum og aðstandendum að kostnaðarlausu. Alls voru veitt 1403 viðtöl á árinu 2017. Á yfirstandandi ári lækkaði framlag til samtakanna frá ríkissjóði um rúm 30% eða 4,5 milljónir. Hefur rekstur Aflsins og starfsemi því dregist saman og áherslan hefur verið lögð á grunnþjónustu við þolendur. Öll framlög til Aflsins eru vel þegin.
Félagsmálaráð tekur jákvætt í erindið og telur mikilvægt að styðja við slíka starfsemi á Norðurlandi. Þar sem ekki er gert ráð fyrir styrkveitinum á fjárhagsáætlun félagsmálasvið leggur félagsmálaráð til við byggðarráð að styrkja samtökin um sömu upphæð og á síðasta ári eða alls kr. 100.000,-"

Til umræðu ofangreint.
Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2019 var samþykkt við síðari umræðu í sveitarstjórn 20. nóvember s.l. Þar var ekki gert ráð fyrir styrk til Aflsins.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að styrkja Aflið um kr. 100.000 vegna rekstrar á árinu 2019 og verði það tekið af lið 02-80-9145, rekstrarstyrkir til félagasamtaka.

Byggðaráð beinir því til Aflsins að umsóknir um styrki berist fyrr að haustinu svo hægt sé að taka erindið til afgreiðslu við gerð fjárhagsáætlunar hvers árs.

Byggðaráð beinir því til félagsmálaráðs að gera ráðstafanir við næstu fjárhagsáætlunargerð til að mæta slíkum umsóknum sem það telur að séu í forgangi.

4.Gjaldskrár Dalvíkurbyggðar 2019, endanlegar tillögur fyrir sveitarstjórn

201808068

Á 885. fundi byggðaráðs þann 25. október 2018 var eftirfarandi bókað:
"Á 884. fundi byggðaráðs þann 18. október 2018 var eftirfarandi bókað: "Á 882. fundi byggðaráðs þann 4. október s.l. voru til umfjöllunar og skoðunar tillögur fagráða að gjaldskrám 2019. Með fundarboði byggðaráðs fylgdi samantekt yfir allar gjaldskrár sem hlotið hafa umfjöllun. Samantektin sýnir tillögur að breytingum á milli áranna 2018 og 2019."
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fyrirliggjandi gjaldskrár verði uppfærðar eftir því sem við á miðað við uppfærða útreikninga í ofangreindri samantekt yfir gjaldskrár.
Gjaldskrár 2019 komi síðan í heild sinni í endanlegri tillögu fyrir byggðaráð áður en þær fara til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar."

Með fundarboði fylgdu uppfærðar gjaldskrár 2019 fyrir:
a) Vatnsveitu Dalvíkur
b) Útleigu verbúða
c) Hafnasjóð
d) Fráveitu Dalvíkurbyggðar
e) Búfjárhald og lausaganga búfjár
f) Slökkvilið Dalvíkur
g) Sorphirðu
h) Byggingarfulltrúa
i) Upprekstur á búfé
j) Leigulönd
k) Refaveiðar
l) Kattahald
m) Fjallskil
o) Hundahald

Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreindar gjaldskrár eins og þær liggja fyrir og vísar þeim til afgreiðslu sveitarstjórnar.

5.Trúnaðarmál

201811021

Bókað í trúnaðarmálabók.

6.Frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra; Umsókn um rekstrarleyfi til veitingu veitinga; Bruggsmiðjan Kaldi

201811136

Tekið fyrir erindi frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra dags. 26.11.2018, beiðni um umsögn vegna umsóknar Agnesar Önnu Sigurðardóttur fyrir hönd Bruggsmiðjunnar Kalda, Öldugötu 22, 621 Dalvík um rekstrarleyfi í Flokki II - umfangslitlir áfengisveitingastaðir.
Byggðaráð gerir ekki athugasemd við umsóknina en með fyrirvara um umsagnir frá byggingafulltrúa og slökkviliðsstjóra Dalvíkurbyggðar.

7.Frá fjármála- og stjórnsýslusviði og framkvæmdastjórn; Verklagsreglur vegna birtinga á skjölum út á vefinn

201810101

Lögð fram drög að almennum reglum um birtingu gagna með fundargerðum í ráðum og nefndum Dalvíkurbyggðar.

Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreinda tillögu að reglum um birtingu gagna og vísar þeim til umfjöllunar og afgreiðslu sveitarstjórnar.

8.Frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu; Auglýsing umsóknar um byggðakvóta fiskveiðiársins 2018/2019 - úthlutun

201810001

Guðmundur St. Jónsson vék af fundi undir þessum lið kl. 09:10 vegna vanhæfis og tók ekki þátt í umfjöllun og afgreiðslu.

Tekið fyrir bréf frá Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, dagsett þann 23. nóvember 2018, þar sem vísað er til umsóknar sveitarfélagsins um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2018/2019. Niðurstaða úthlutunar er eftirfarandi:

Hauganes 19 þorskígildistonn
Árskógssandur 240 þorskígildistonn.

Athygli bæjar- og sveitarstjórna er vakin á því að engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar frá reglugerð síðasta fiskveiðiárs, aðrar en magntölur og dagsetningar hafa breyst.
Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar á reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa aðrar en dagsetningar hafa breyst.

Vilji sveitarstjórn leggja til við ráðuneytið að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins eða einstakra byggðarlaga skal hún skila rökstuddum tillögum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 21. desember 2018.

Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 2 atkvæðum að vísa ofangreindu til atvinnumála-og kynningaráðs, Guðmundur St. Jónsson tekur ekki þátt í atkvæðagreiðslu vegna vanhæfis.

9.Árskógur lóð 1, tilboð

201810080

Guðmundur St. Jónsson kom inn á fundinn að nýju kl. 09:14.

Þann 22.nóvember 2018 barst tilboð í eignina Árskóg lóð 1, að upphæð kr. 30.000.000,-. Tilboðið er gert með fyrirvara um sölu tilboðsgjafa á eign á Akureyri. Verði sú eign ekki seld innan 30 daga frá samþykki kauptilboðs þessa fellur tilboðið sjálfkrafa úr gildi.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum ofangreint kauptilboð í eignina Árskóg lóð 1.

10.Frá Varasjóði húsnæðismála; Könnun á leiguíbúðum sveitarfélaga 2017.

201811078

Tekið fyrir erindi frá Varasjóði húsnæðismála dags. 14.11.2018 þar sem fram koma niðurstöður úr könnun á leiguíbúðum sveitarfélaga 2017.
Varasjóður húsnæðismála, í samvinnu við velferðarráðuneytið og forvera þess, hefur frá árinu 2004 gert árlega könnun á stöðu leiguíbúða hjá sveitarfélögum. Könnunin hefur tekið miklum breytingum frá því að henni var fyrst ýtt úr vör t.d. hefur spurningum fjölgað úr tíu í tæplega 60.
Tilgangur könnunarinnar hefur verið að fylgjast með framvindu og breytingum á stöðu leiguíbúða en upplýsingar hafa meðal annars komið að notum við stefnumótun stjórnvalda í húsnæðismálum.
Könnun vegna ársins 2017 var gerð í maí síðastliðnum. Alls bárust svör frá 44 sveitarfélögum, eða 59,5% þeirra. Í þessum sveitarfélögum bjuggu 89,8% landsmanna, sem er nokkru lægra hlutfall en raunin var í könnun ársins 2016, sem náði til 98,2% landsmanna.

Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindri könnun til félagsmálaráðs sem og til vinnuhóps um húsnæðismál sveitarfélagsins til yfirferðar.

11.Frá Þjóðskrá Íslands; Ný lögheimilislög - hlutverk sveitarfélaga

201811138

Tekið fyrir erindi frá Þjóðskrá Íslands dagsett 26.nóvember 2018 þar sem fram kemur að frá áramótum mun Þjóðskrá hætta að taka á móti flutningstilkynningum frá sveitarfélögum landsins, hvort sem þær eru á pappír eða rafrænar í gegnum vef ytri-Soffíu. Þetta er gert á grundvelli nýrra laga um lögheimili og aðsetur sem taka gildi þann 1.janúar. Í 1. mgr. 13. gr. laganna segir: "Tilkynning um breytingu á lögheimili innan lands og aðsetri skal gerð rafrænt eða á starfs­stöðvum Þjóðskrár Íslands í samræmi við reglugerð sem ráðherra er heimilt að setja." Í greinargerð kemur fram að meginreglan verði sú að tilkynningar um lögheimilisskráningar skuli berast með rafrænum hætti.
Í rafbréfinu leggur Þjóðskrá Íslands til lausnir fyrir sveitarfélög. Það er hagur allra, og þar með talið sveitarfélaganna, að lögheimilisskráning einstaklinga sé rétt og því mikilvægt að aðstoða og leiðbeina einstaklingum um hvernig skrá eigi nýtt lögheimili.
Lagt fram til kynningar.

12.Frá nefndasviði Alþingis; Til umsagnar frumvarp til laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og málefnum aldraðra (búseturéttur aldraðra, öryggisíbúðir), 40. mál.

201811081

Tekið fyrir erindi frá nefndasviði Alþingis dags.15.11.2018. Til umsagnar frumvarp til laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og málefnum aldraðra (búseturéttur aldraðra, öryggisíbúðir), 40. mál.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 6. desember nk.

Lagt fram til kynningar.

13.Frá nefndasviði Alþingis; Til umsagnar tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í húsnæðismálum, 5. mál.

201811102

Tekið fyrir erindi frá nefndasviði Alþingis dags. 8.nóvember 2018, þar sem Velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í húsnæðismálum, 5. mál.

Þess er óskað að umsögn berist eigi síðar en 29. nóvember nk.
Lagt fram til kynningar.

14.Frá nefndasviði Alþingis; Til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðisbætur (réttur námsmanna og fatlaðs fólk), 140. mál.

201811139

Tekið fyrir erindi frá nefndasviði Alþingis dagsett 27.nóvember 2018, þar sem Velferðarnefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðisbætur (réttur námsmanna og fatlaðs fólk), 140. mál.

Þess er óskað að umsögn berist eigi síðar en 18. desember nk.
Lagt fram til kynningar.

15.Frá nefndasviði Alþingis; til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (brottfall kröfu um ríkisborgararétt), 45 mál.

201811082

Tekið fyrir erindi frá nefndasviði Alþingis dagsett 15.nóvember 2018, þar sem Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (brottfall kröfu um ríkisborgararétt), 45 mál.

Þess er óskað að umsögn berist eigi síðar en 29. nóvember nk.
Lagt fram til kynningar.

16.Trúnaðarmál

201811146

Bókað í trúnaðarmálabók.

Fundi slitið - kl. 09:55.

Nefndarmenn
  • Jón Ingi Sveinsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri