Byggðaráð

830. fundur 17. ágúst 2017 kl. 13:00 - 15:04 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Kristján Guðmundsson Varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Frá Hjörleifi Hjartarsyni; Vegna fréttar um bókamarkað

Málsnúmer 201708014Vakta málsnúmer

Undir þessum lið komu á fund byggðaráðs Hlynur Sigursveinsson, sviðstjóri fræðslu- og menningasviðs, og Björk Hólm Þorsteinsdóttir, forstöðumaður bóka- og hérðaðsskjalasafns, kl. 13:10.

Tekið fyrir erindi frá Hjörleifi Hjartarsyni, rafbréf dagsett þann 9. ágúst 2017, þar sem vísað er til fréttatilkynningar um "Bókamarkaðinn mikla við Berg" sem birtist í Fiskidagsblaðinu 2017 þar sem auglýst er uppboð á bókakosti Náttúruseturs á Húsabakka sem var lagt niður s.l. haust. Bréfritari vill koma því á framfæri að honum sé ekki kunnugt um að Náttúrusetrið á Húsabakka hafi verið lagt niður með neinum formlegum hætti. Fram kemur m.a. að í ljósi þessarar makalausu fréttatilkynningar og alls sem á undan er gengið um málefni Náttúruseturs á Húsabakka þá gerir Hjörleifur alvarlegar athugasemdir við það verklag sem viðhaft er af hálfu bæjaryfirvalda og kallar enn og aftur eftir formlegri stefnumótun um Friðland Svarfdæla, eignir Náttúruseturins og þau verkefni sem það hefur haft með höndum.

Til umræðu ofangreint.

Björk Hólm vék af fundi kl. 13:29.
Byggðaráð harmar að fram hafi komið í fréttatilkynningu sem vísað er til að búið sé að leggja félagið Náttúrusetur á Húsabakka ses. niður þar sem það er rangt. Það orðalag sem við var haft er komið til vegna misskilnings. Forstöðumaður bóka- og héraðsskjalasafns gerði grein fyrir á fundinum að aðeins hafi verið á markaði þær bækur sem bókasafnið átti þegar eintök af og/eða hægt er nálgast annars staðar. Ákveðnum og stórum hluta af bókakosti frá Náttúrusetinu á Húsabakka ses. er haldið enn til haga. Bækurnar sem voru í Náttúrusetrinu á Húsabakka voru allar áður skráðar á Bókasafn Dalvíkurbyggðar í gegnum Gegnir.

Að öðru leiti er staða mála hvað varðar Friðland fuglanna, Friðland Svarfdæla, Náttúrusetur á Húsabakka ses., og þau verkefni sem það hefur haft með höndum eftirfarandi:

a) Á 61. fundi menningaráðs þann 2. mars s.l. var eftirfarandi bókað:
"3.
201702045 - Varðar aðkomu sveitarfélgsins að Friðlandi Svarfdæla og Friðlandi fuglanna

Undir þessum lið kom inn á fundinn Hjörleifur Hjartarson, kl 09:25. Tekið fyrir innsent erindi frá Hjörleifi um aðkomu sveitarfélagsins að Friðlandi Svarfdæla og Friðlandi fuglanna.
Hjörleifur óskar eftir framtíðarsýn hvað varðar fuglasýninguna og öll þau verkefni sem eru í gangi vegna Friðlands Svarfdæla.

Menningarráð þakkar Hjörleifi Hjartarsyni fyrir komuna. Menningarráð telur mikilvægt að sveitarfélagið leiti leiða um mótun og framtíðarsýn fyrir sýninguna Friðland fuglanna.

Hjörleifur Hjartarson vék af fundi kl. 09:50"

b) Stjórn Náttúruseturs á Húsabakka ses. kom saman 31. janúar 2017 þar sem m.a. var rætt um framtíð félagsins eftir sölu á Húsabakka. Fram kom m.a. að ákvörðun um framtíð félagsins þarf að taka fljótt og hvernig eignum skuli ráðstafað og hvert framhaldið verður á verkefnum. Samkvæmt skipulagsskrá Náttúruseturs á Húsabakka ses. þá eru stofnaðilar Dalvíkurbyggð, Sparisjóður Svarfdæla, KEA og Hollvinafélag Húsabakka. Tilgangur stofnunarinnar er að stuðla að eflingu menntunar og menningar með uppbyggingu náttúruseturs á Húsabakka í Svarfaðardal í minningu Hjartar E. Þórarinssonar sem m.a. styðji við fræðastarf og ferðaþjónustu.

c) Á fundi stjórnar Náttúruseturs á Húsabakka ses. þann 31. janúar 2017 var einnig fjallað um Friðland Svarfdæla en Dalvíkurbyggð ákvað að endurnýja ekki samning við Náttúrusetrið um Friðland Svarfdæla sem rann út vorið 2016. Fram hefur komið athugasemd frá Umhverfisstofnun um að sveitarfélagið úthýsi verkefnum í tengslum við Friðland Svarfdæla til þriðja aðila. Samningur á milli Dalvíkurbyggðar og Umhverfisstofnunar um Friðland Svarfdæla er í endurskoðun og beðið er samningsdraga frá Umhverfisstofnun.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að beina því til stjórnar Náttúruseturs á Húsabakka ses. að hraða ákvörðun um framtíð félagsins.

2.Frá fræðslu- og menningarsviði; Útboð á skólamat 2017 - 2019 - verð skólamáltíðar og ákvörðun um niðurgreiðslu.

Málsnúmer 201704028Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sat Hlynur Sigursveinsson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs.

Á 218. fundi fræðsluráðs þann 5. júlí 2017 var eftirfarandi bókað:
"Sviðsstjóri fræðslu-og menningarsviðs, Hlynur Sigursveinsson, lagði fram drög að lokasamningi um skólamat við Blágrýti ehf. á Dalvík.
Fræðsluráð samþykkir drögin með 5 atkvæðum og felur sviðsstjóra að ganga frá samningi við Blágrýti ehf."

Ofangreind afgreiðsla fræðsluráðs var staðfest á fundi byggðaráðs.

Með fundarboði fylgdi undirritaður verksamingur um hádegisverð 2017-2020 á milli Dalvíkurbyggðar og Blágrýtis ehf. hvað varðar Dalvíkurskóla og Árskógarskóla.

Tekið fyrir erindi frá sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs, dagsett þann 16. ágúst 2017, er varðar ósk um afstöðu byggðaráðs hvað varðar framtíðar fyrirkomulag á skiptingu kostnaðar á hádegismat fyrir leik- og grunnskóla og jafnframt hvort ekki beri að breyta gjaldskrám skólanna.

Einingarverð samkvæmt núgildandi verðum og gjaldskrá er:
Grunnskóli kr. 613, niðurgreitt af Dalvíkurbyggð kr. 233, verð til foreldra kr. 380.
Verð vegna leikskóla er innheimt samkvæmt gildandi gjaldskrá á hverjum tíma.

Einingarverð samkvæmt nýjum samningi:
Grunnskóli kr. 730, ef niðurgreitt af Dalvíkurbyggð í sömu hlutföllum kr. 277, verð til foreldra kr. 453.

Hækkun á niðurgreiðslu Dalvíkurbyggðar er áætluð kr. 4.472.622 miðað við ofangreindar forsendur og óbreytt hlutfall niðurgeiðslu sveitarfélagsins.

Fyrir liggur að taka þarf ákvörðun um hvort núverandi fyrirkomulagi á kostnaðarskiptingu haldist óbreytt eða hvort Dalvíkurbyggð hyggst hækka niðurgreiðslur til að koma til móts við hækkun á einingarverði.

Forsendur á grunngjaldi/einingarverði fyrir grunnskólamáltíðum hafa breyst umtalsvert. Lagt er til að samhliða ákvörðun um fyrirkomulag varðandi kostnaðarþátttöku foreldra og Dalvíkurbyggðar verði tekin afstaða til þess hvort ekki beri að hækka núgildandi gjaldskrár fyrir mat í leik- og grunnskólum á komandi skólaári.

Þá er lagt til að bætt verði við þann texta sem fylgir gjaldskrám fræðslu- og menningarsviðs að áskilinn sé réttur til breytinga á gjaldskrám hvenær sem er á árinu komi til forsendubreytinga á undirliggjandi grunngjaldi.

Til umræðu ofangreint.

Hlynur vék af fundi kl.14:04.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að verð skólamáltíðar í grunnskólum verði:
Hludeild foreldra kr. 453,- per máltíð.
Hlutdeild Dalvíkurbyggðar kr. 277,- per máltíð.
Verð taka breytingum skv. vísitölum, sbr. gildandi samningur við Blágrýti ehf.

Verð fyrir máltíðir í leikskólum verði óbreytt og innheimt skv. gildandi gjaldskrá á hverjum tíma.

3.Varðar beiðni Orkustofnunar um umsögn um umsókn Iceland Resources ehf. um leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Hörgárdal, Öxnadal og nágrenni á Tröllaskaga

Málsnúmer 201605099Vakta málsnúmer

Á 280. fundi umhverfisráðs þann 26. ágúst 2016 var eftirfarandi bókað:

"Með rafpósti dags. 13. júní 2016 ítrekar Orkustofnun beiðni um umsögn vegna umsóknar Iceland Resources ehf. um leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Hörgárdal, Öxnadal og nágrenni á Tröllaskaga.
Umhverfiráð Dalvíkurbyggðar leggur áherslu á að komi til framkvæmda í landi sveitarfélagsins fer ráðið fram að að umsóknaraðili sendi inn umsókn um framkvæmdarleyfi líkt og lög gera ráð fyrir. Samþykkt með fimm atkvæðum."

Til umræðu ofangreint með vísan í lið 4 hér á eftir.
Lagt fram til kynningar.

4.Varðar leyfi Orkustofnunnar til leitar og rannsókna á málmum í Öxnadal, Hörgárdal og víðar á Tröllaskaga; erindi frá Jökli Bermann vegna stjórnsýslukæru fyrir hönd landeigenda á hendur Orkustofnunar.

Málsnúmer 201707023Vakta málsnúmer

Á 112. fundi landbúnaðarráðs þann 10. ágúst 2017 var eftirfarandi bókað:

"Til umræðu afrit af leyfi Orkustofnunar til leitar og rannsókna á málmum í Öxnadal, Hörgárdal og víðar á Tröllaskaga.
Á 280. fundi umhverfisráð Dalvíkurtbyggðar þann 26. ágúst 2016 var tekin fyrir beiðni um umsögn vegna umsóknar Iceland Resources ehf. um leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Hörgárdal, Öxnadal og nágrenni á Tröllaskaga. Umhverfisráð bókaði eftirfarandi "Umhverfiráð Dalvíkurbyggðar leggur áherslu á að komi til framkvæmda í landi sveitarfélagsins fer ráðið fram að að umsóknaraðili sendi inn umsókn um framkvæmdarleyfi líkt og lög gera ráð fyrir. Samþykkt með fimm atkvæðum." Landbúnaðarráð Dalvíkurbyggðar vill koma á framfæri athugasemdum við að ekki hafi verið leitað umsagna allra landeigenda áður en Orkustofnun veitti leyfi til leitar og rannsókna í Dalvíkurbyggð. Landbúnaðarráð krefst þess að áður en farið verður af stað með rannsóknavinnu eða annarskonar framkvæmdir verði leitað leyfis viðkomandi landeiganda."


Tekið fyrir rafbréf frá Jökli Bergmann, dagsett þann 14. ágúst 2017, þar sem fram kemur að hann hefur fyrir hönd landeigenda í Dalvíkurbyggð og Hörgárbyggð tekið það að sér að vera í forsvari fyrir hóp landeigenda sem áforma að kæra leyfisveitingu Orkustofnunar til leitar og rannsókna á málmum. Allir landeigendur í Dalvíkurbyggð munu kæra þessa leyfisveitingu og vilja með þessu erindi leita afstöðu sveitarfélagsins hvort það vilji vera með í kærunni.

Tekið fyrir einnig minnisblað frá lögmönnum PACTA, dagsett þann 15. ágúst s.l. um ofangreint, er varðar beiðni Dalvíkurbyggðar um álit á ferli málsins og leyfisveitingu Orkustofnunar.

Til umræðu ofangreint.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að Dalvíkurbyggð gerir ekki neinar sérstakar ráðstafanir eins og staða málsins er í dag og mun því ekki vera með í ofangreindri kæru annarra landeigenda í Dalvíkurbyggð.

5.Frá RÚV; Sjónvarpsþátturinn Útsvarið 2017-2018

Málsnúmer 201708023Vakta málsnúmer

Tekið fyrir rafbréf frá RÚV, dagsett þann 11. ágúst 2017, þar sem fram kemur að Útsvar verður á dagskrá ellefta veturinn í röð og leikar hefjast á ný þann 15. september næstkomandi.
Sveitarfélögin sem keppa í vetur eru 24 talsins eins og hefur verið síðustu ár. Þau átta lið sem komust í fjórðungsúrslit síðasta vetur eru sjálfskrafa með þennan veturinn. Hin sextán eru dregin út eftir stærð sveitarfélaganna og var Dalvíkurbyggð þar á meðal.

Óskað er því eftir staðfestingu á þátttöku sem allra fyrst sem og nöfnum, símanúmerum og netföngum keppenda. Bent er á að keppendur verða að vera af báðum kynjum.

Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum þátttöku Dalvíkurbyggðar og felur upplýsingafulltrúa að auglýsa eftir keppendum fyrir hönd sveitarfélagsins og/eða finna keppendur.

6.Frá Ríkiskaupum; Aðild að Ríkiskaupum og aðildargjald

Málsnúmer 201707015Vakta málsnúmer

Á 827. fundi byggðaráðs þann 20. júlí 2017 var eftirfarandi bókað:
"Tekið fyrir erindi frá Ríkiskaupum, móttekið 10. júlí 2017, þar sem kynnt er nýtt fyrirkomulag á innkaupum í rammasamingum ríkisins. Til að tryggja áframhaldandi aðild að rammasamningakerfinu verða opinberar aðilar að fylla út meðfylgjandi aðildarumsókn og senda undirritaða til Ríkiskaupa fyrir 5. ágúst n.k. Notendur munu nú greiða árlegt aðildargjald beint til Ríkiskaupa. Aðildargjald fyrir Dalvíkurbyggð yrði kr. 1.000.000. Til umræðu ofangreint.
Byggðaráð frestar afgreiðslu á ofangreindu erindi og felur sveitarstjóra og sviðstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að senda inn erindi um frestun á afgreiðslu sem og með fyrirspurnum í samræmi við umræður á fundinum."

Ríkiskaup veitti frest til 20. ágúst n.k. til afgreiðslu á erindinu.

Með fundarboði fylgdi rafpóstur frá Ríkiskaupum, dagsettur þann 24. júlí 2017, til frekari útskýringa á ofangreindu og upplýsingar um ávinning sveitarfélagsins.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum áframhaldandi aðild Dalvíkurbyggðar að rammasamningum Ríkiskaupa og greiðslu á aðildargjaldi kr. 1.000.000.

Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum viðauka við fjárhagsáætlun 2017 að upphæð kr. 1.000.000, viðauki nr. 15/2017 við deild 21400 og mætt með lækkun á handbæru fé.

7.Landbúnaðarráð - 112, frá 10.08.2017.

Málsnúmer 1708003FVakta málsnúmer

Til afgreiðslu:
1. liður.
2. liður.
4. liður.
5. liður er sérliður á dagskrá.
  • Til umræðu innsent erindi frá Ólafi Jónssyni héraðsdýralækni dags. 24. júlí 2017 vegna rétta í Árskógsdeild. Landbúnaðarráð - 112 Landbúnaðarráð Dalvíkurbyggðar þakkar innsent erindi Ólafs.
    Ráðið samþykkir að fjárréttin að Stóru-Hámundarstöðum verði skráð sem aukarétt samkvæmt gr. 26 í Fjallskilasamþykkt Eyjafjarðar og skal það tilkynnt til Eyþings og skráð í fjallskilabók eða gerðabók sveitarstjórnar.
    Fjallskilanefnd Árskógsdeildar er falið að sjá til þess að aðstaða til að einangra sjúkt eða grunsamlegt fé sé til staðar í aðal- og aukarétt.
    Samþykkt með fimm atkvæðum
    Niðurstaða þessa fundar Samþykkt Bókun fundar Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum afgreiðslu landbúnaðarráðs.
  • Með innsendu erindi dags. 24. júní 2017 óskar Elísa Rán Ingvarsdóttir eftir búfjárleyfi fyrir fimm hænur. Landbúnaðarráð - 112 Landbúnaðarráð samþykkir umsóknina.
    Ráðið bendir á að hanar eru með öllu bannaðir í þéttbýli. Aðbúnaður þarf að uppfylla lög og reglur um aðbúnað dýra og skal haft samráð við byggingarfulltrúa.
    Samþykkt með fimm atkvæðum.
    Niðurstaða þessa fundar Samþykkt Bókun fundar Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum afgreiðslu landbúnaðarráðs.
  • 7.3 201702044 Fjallskil 2017
    Til umræðu fjallskil í Dalvíkurbyggð 2017. Landbúnaðarráð - 112 Landbúnaðarráð vill að gefnu tilefni benda landeigendum á að nauðsynlegt er að smala öll heimalönd samhliða 1. og 2. göngum og gera skil á ókunnu fé sem þar kann að vera.
    Samþykkt með fimm atkvæðum
    Niðurstaða þessa fundar Lagt fram tiil kynningar Bókun fundar Lagt fram til kynningar.
  • Unnur E. Hafstað Ármannsdóttir óskar eftir undanþágu vegna hundahalds samkvæmt meðfylgjandi gögnum. Landbúnaðarráð - 112 Ráðið samþykkir að veita tímabundið leyfi til þriggja mánaða fyrir þriðja hundin á þeim forsendum að heimili hundanna er utan aðalþéttbýlis á Dalvík.
    Samþykkt með fimm atkvæðum
    Niðurstaða þessa fundar Samþykkt Bókun fundar Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum afgreiðslu landbúnaðarráðs.
  • Til umræðu afrit af leyfi Orkustofnunar til leitar og rannsókna á málmum í Öxnadal, Hörgárdal og víðar á Tröllaskaga. Landbúnaðarráð - 112 Á 280. fundi umhverfisráð Dalvíkurtbyggðar þann 26. ágúst 2016 var tekin fyrir beiðni um umsögn vegna umsóknar Iceland Resources ehf. um leyfi til leitar og rannsókna á málmum í Hörgárdal, Öxnadal og nágrenni á Tröllaskaga. Umhverfisráð bókaði eftirfarandi
    "Umhverfiráð Dalvíkurbyggðar leggur áherslu á að komi til framkvæmda í landi sveitarfélagsins fer ráðið fram að að umsóknaraðili sendi inn umsókn um framkvæmdarleyfi líkt og lög gera ráð fyrir.
    Samþykkt með fimm atkvæðum."


    Landbúnaðarráð Dalvíkurbyggðar vill koma á framfæri athugasemdum við að ekki hafi verið leitað umsagna allra landeigenda áður en Orkustofnun veitti leyfi til leitar og rannsókna í Dalvíkurbyggð.
    Landbúnaðarráð krefst þess að áður en farið verður af stað með rannsóknavinnu eða annarskonar framkvæmdir verði leitað leyfis viðkomandi landeiganda.
    Niðurstaða þessa fundar Lagt fram tiil kynningar Bókun fundar Lagt fram til kynningar, er sér liður á dagskrá byggðaráðs.

    Annað í fundargerðinni þarfnast ekki afgreiðslu byggðaráðs, þeir liðir sem ekki þarfnast afgreiðslu byggðaráðs eru því lagðir fram til kynningar í byggðaráði.

Fundi slitið - kl. 15:04.

Nefndarmenn
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson Formaður
  • Kristján Guðmundsson Varaformaður
  • Guðmundur St. Jónsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðrún Pálína Jóhannsdóttir Sviðstjóri
Fundargerð ritaði: Guðrún Pálína Jóhannsdóttir sviðstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs