Sigríður Thorlacius - Klassík í Bergi

 "Samstarf þeirra Sigríðar Thorlacius og Guðmundar Óskars Guðmundssonar hófst fyrir um áratug, þegar þau voru bæði að stíga sín fyrstu skref sem starfandi tónlistarmenn og hefur verið gjöfult og fallegt allar götur síðan. Þau kynntust í kórstarfi í Menntaskólanum við Hamrahlíð og voru á sama tíma bæði nemendur við jazzdeild Tónlistarskóla FÍH, Sigríður nam söng og Guðmundur bassaleik. Þau eru bæði meðlimir hljómsveitarinnar Hjaltalín og hefur sú sveit gefið út 4 hljóðversplötur og stundað tónleikahald undanfarin 10 ár, bæði hér heima sem og erlendis.
Árið 2009 kom út platan Á Ljúflingshól sem inniheldur lög þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasona. Sú plata kom út í nafni Sigríðar Thorlacius og Heiðurspilta. Guðmundur var að sjálfsögðu einn þeirra Heiðurspilta og sá þar bæði um bassaleik sem og verkstjórn. 
Í lok árs 2013 kom út platan Jólakveðja sem þau Sigríður og Guðmundur gerðu ásamt þeim Bjarna Frímanni Bjarnasyni, Ómari Guðjónssyni og Helga Svavari Helgasyni. Á þeirri plötu er að finna frumsamin lög eftir þá Guðmund og Bjarna Frímann við hin ýmsu jólakvæði íslenskra skálda.
Saman hafa þau Guðmundur og Sigríður svo spilað við hin ýmsustu tækifæri bæði sem dúó en einnig í félagi við aðra.
 
Sigríður hefur starfað við söng undanfarinn áratug og starfað með ýmsum tónlistarmönnum og í hinum ýmsu verkefnum. Sem dæmi má nefna Sigurð Guðmundsson, Valdimar Guðmundsson, Tómas R. Einarsson og Ómar Guðjónsson. Hún hefur komið fram sem sólisti með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfoníhljómsveit Norðurlands og Stórsveit Reykjavíkur svo fátt eitt sé nefnt.
Hún hefur tvisvar verið útnefnd Söngkona Ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum, árin 2010 og 2013.
 
Guðmundur Óskar er bassaleikari, gítarleikari og upptökustjóri. Hann er eins og fyrr segir meðlimur hljómsveitarinnar Hjaltalín. Þess utan spilar hann með hljómsveitinni Tilbury, Snorra Helgasyni og Helga Björnssyni svo fáir einir séu nefndir. Undanfarin ár hefur hann einnig látið til sín taka sem pródúsent og upptökustjóri. Guðmundur hefur einnig starfað við leikhúsin bæði sem tónlistarstjóri í sýningum og svo einnig sem höfundur tónlistar. Núna síðast sá hann um músíkina í jólasýningu Þjóðleikhússins, Hafinu.
 
Dúóið mun leika tónlist héðan og þaðan, lög af fyrrnefndum plötum í bland við annað sem þau hafa unnið að á liðnum árum. "

Miðaverð 3.500

Miðasala við inngang.