Byggðaráð

930. fundur 09. janúar 2020 kl. 13:00 - 14:45 í Upsa á 3. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur
Nefndarmenn
  • Guðmundur St. Jónsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Þórhalla Karlsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Samningar við íþróttafélög 2020-2023.

Málsnúmer 201901024Vakta málsnúmer

Undir þessum lið mættu á fundinn kl. 13:00 Gísli Bjarnason, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs og Gísli Rúnar Gylfason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.

Til kynningar drög að samningum við íþróttafélög í Dalvíkurbyggð til næstu fjögurra ára en íþrótta- og æskulýðsfulltrúi er búinn að kynna samningsdrögin fyrir félögunum. Stefnt er að því að skrifa undir samningana á hátíðarfundi íþrótta- og æskulýðsráðs þriðjudaginn 14. janúar 2020.
Farið yfir samningana og málin rædd.

Gísli og Gísli Rúnar viku af fundi kl. 13:41.
Lagt fram til kynningar.

2.Óveðrið í desember 2019

Málsnúmer 201912062Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri kynnti drög að upplýsingaskýrslu sem hann er að taka saman um óveðrið í desember en Eyþing hefur borist beiðni um að taka saman upplýsingar frá sveitarfélögunum fyrir átakshóp fimm ráðuneyta sem stofnaður var í kjölfar óveðursins um miðjan desember.

Frestur til að skila upplýsingum er til 15. janúar nk.

Þann 6. janúar sl. var haldinn rýnifundur viðbragðsaðila í Dalvíkurbyggð eftir óveðrið í desember. Samþykkt var á þeim fundi að óska eftir tilnefningum frá viðbragðsaðilum um aðalmann og varamann í Vettvangsstjórn viðbragðsaðila í Dalvíkurbyggð. Miðað sé við að hópurinn fundi árlega að lágmarki og fari yfir verklag og vinnuferla ef vá ber að höndum.

Fyrirhugaður er íbúafundur á Rimum um óveðrið, þegar veður leyfir.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að aðalmaður í vettvangsstjórn fyrir sveitarfélagið verði sveitarstjóri og sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs verði varamaður.

3.Vinabæjasamstarf; undirbúningur fyrir Dalvíkurbyggð 2021

Málsnúmer 202001002Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá vinabænum Lundi í Svíþjóð dagsett 7. nóvember 2019 þar sem viðruð er hugmynd um að nota milliáramót sumarið 2020 sem tækifæri til að ræða sameiginlega stefnu norræna vinabæjasamstarfsins og þróa ný drög. Núverandi stefna, "En lärande nordisk community - Ett lärende nordisk felleskab" er frá 14.01.2009. Ný stefna gæti síðan verið undirrituð á reglulegu vinabæjarmóti sem á, samkvæmt áætlun, að halda sumarið 2021 í Dalvíkurbyggð.

Rætt um vinabæjarsamstarfið og framtíðarhorfur þess.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að senda hugmynd um breyttar áherslur vinabæjarmótanna til hinna vinabæjanna í samstarfinu.

4.Umsókn um rekstrarleyfi Gregdalvik ehf

Málsnúmer 202001006Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra dagsett 2. janúar 2020, umsagnarbeiðni vegna umsóknar um rekstrarleyfi veitinga í flokki III frá Gregdalvik ehf. kt. 691111-0910.

Fyrir liggur umsögn frá byggingarfulltrúa og slökkviliðsstjóra sem gera ekki athugasemdir við að umrætt leyfi sé endurnýjað.
Byggðarráð gerir ekki athugasemd við umsóknina.

5.Beiðni um styrk til að efla neyðarvarnir í Dalvíkurbyggð

Málsnúmer 202001003Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Eyjafjarðardeild Rauða krossins dagsett 19. desember 2019, þar sem óskað er eftir styrk að upphæð 2.000.000 króna til að efla neyðarvarnir í Dalvíkurbyggð.

Styrkurinn er ætlaður til búnaðarkaupa fyrir neyðarvarnakerru, þannig að á Dalvík verði fullnægjandi búnaður til að opna fjöldahjálparstöð. Búnaðarlisti kerrunnar fylgdi með erindinu.

Rauði krossinn heldur námskeið í Dalvíkurskóla þann 13. janúar nk. fyrir nýja sjálfboðaliða í neyðarvörnum, með það að leiðarljósi að efla neyðarvarnir á svæðinu. Rauði krossinn leggur út fyrir þeim kostnaði sem til fellur vegna öflunar og þjálfunar sjálfboðaliða á svæðinu en óskar eftir styrk vegna kaupa á kerrunni.
Byggðaráð felur sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga um málið og fyrirkomulag í nágrannasveitarfélögunum.

6.Tilkynning um stofnun nýrra landshlutasamtaka á Norðurlandi eystra

Málsnúmer 202001005Vakta málsnúmer

Tekið fyrir erindi frá Eyþingi, AFE og AÞ dagsett 30. desember 2019, tilkynning um stofnun nýrra landshlutasamtaka, Samtök atvinnuþróunar og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra.

Frá og með 1. janúar 2020 yfirtaka nýju samtökin réttindi og skyldur atvinnuþróunarfélaganna og þar með talið framlög sveitarfélaganna til Eyþings, AFE og AÞ.

Á fundinum kom fram að nú stendur yfir samkeppni um nafn á hin nýju samtök og einnig ráðning framkvæmdastjóra til hinna nýju samtaka.
Lagt fram til kynningar.

7.Samráðsfundir lögreglu og sveitarstjóra

Málsnúmer 201901064Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi samstarfsnefndar lögreglu og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra þann 28. nóvember s.l. og þeim kynningum sem farið var yfir á fundinum.

Þar var m.a. til umfjöllunar staða lögreglunnar í embættinu, verkefni og tækjabúnaður rannsóknardeildar, löggæslumyndavélar og kynning á Bjarmahlíð, miðstöð þolenda ofbeldis.
Lagt fram til kynningar.

8.Til upplýsinga - frumvarpsdrög í Samráðsgátt (fjarskipti)

Málsnúmer 201912056Vakta málsnúmer

Tekinn fyrir rafpóstur frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu dagsettur 10. desember 2019 þar sem fram kemur að drög að frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga eru nú í Samráðsgátt stjórnvalda.

Óskað er eftir umsögnum um drögin eigi síðar en 6. janúar 2020.
Lagt fram til kynningar.

9.Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga 2019

Málsnúmer 201901098Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 877. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 13. desember 2019.
Lagt fram til kynningar.

Byggðarráð tekur samhljóða undir bókun í 2. lið fundargerðar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem "stjórnin hvetur ríkisstjórn Íslands, Alþingi, Landsnet og veitufyrirtæki til að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að tryggja raforkuöryggi um allt land sem allra fyrst. Það er með öllu óásættanlegt að stór hluti íbúa landsbyggðarinnar búi við slíkt óöryggi sem raunin er. Stjórnvöldum ber skylda til að haga málum þannig að almanna- og öryggishagsmunir verði ávallt hafðir í fyrirrúmi við uppbyggingu og rekstur innviða sem eiga að tryggja öryggi og jafna búsetuskilyrði allra landsmanna".

Fundi slitið - kl. 14:45.

Nefndarmenn
  • Guðmundur St. Jónsson formaður
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson varaformaður
  • Þórhalla Karlsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri