Á 1149. fundi byggðaráðs þann 12. júní sl. var eftirfarandi bókað:
a) Tekið fyrir erindi frá Kennarasambandi Íslands, dagsett þann 4. júní sl., þar sem fram kemur að undanfarin ár hefur verið ágreiningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga (sambandsins) og Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) um hvernig viðbótarmenntun tónlistarkennara skuli metin til launa samkvæmt kjarasamningsákvæðum, frá 1. september 2020. Kennarasamband Íslands vegna FT hefur tvívegis leitað til Félagsdóms með ágreininginn og hafa báðir dómarnir fallið kennurum í vil. Þrátt fyrir að niðurstöður dómanna séu afdráttarlausar og seinni dómurinn taki af hvers kyns tvímæli, virðist framkvæmd launaleiðréttinga láta á sér standa.
Meðfylgjandi eru leiðbeiningar lögmanns KÍ um þýðingu dóma Félagsdóms og hvernig beri að leiðrétta laun tónlistarkennara afturvirkt (dómarnir fylgja einnig í skjalinu).Þess er óskað að hvert og eitt sveitarfélag lýsi því yfir innan tveggja vikna frá dagsetningu þessa tölvupósts hvort það hyggst fylgja leiðbeiningum lögmanns KÍ eða ekki.
b) Tekið fyrir erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, 6. júní sl.. þar sem fram kemur að Sambandið er með málið til skoðunar s.s. útfrá þeim gögnum sem KÍ er að senda frá sér þessa dagana s.s. m.t.t. réttmætis krafna félagsins. Fundað verður með lögmönnum eftir miðja næstu viku og í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvaða leiðbeiningar fara til sveitarfélaga að þeirri yfirferð lokinni.
Niðurstaða : Frekari umfjöllun frestað þar til leiðbeiningar koma frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sbr. rafpóstur Sambandsins frá 6. júní sl."
Með fundarboði byggðaráðs fylgdi rafpóstur Sambandsins, dagsettur þann 22. ágúst sl., þar sem fram koma leiðbeiningar Sambandsins um viðbrögð skólastjórnenda/sveitarfélaga. Einnig fylgdu með upplýsingar frá stjórnendum Tónlistarskólans á Tröllaskaga að allt liggi klárt fyrir þar í þessum málum og ekki þurfi að bregðast sérstaklega við.