Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; Upptaka frá UT-deginum-Nýjar persónuverndarreglur o.fl.

Málsnúmer 201612051

Vakta málsnúmer

Byggðaráð - 806. fundur - 21.12.2016

Tekið fyrir bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett þann 6. desember, þar sem m.a. kemur fram að starfshópur um skoðun á skráningum upplýsinga um nemendur grunnskóla í rafræn upplýsingakerfi hefur lokið störfum en hópurinn var stofnaður hinn 3. nóvember 2015 í kjölfar álits Persónuverndar í máli nr. 2015/1203. Sveitarfélög eru hvött til að hefjast þegar handa við að aðlaga framkvæmd við skráningu og meðferð persónuupplýsinga í grunnskólum i samræmi við tillögur starfshópsins. Einnig kemur fram að á árinu 2018 er áætlað að ný persónuverndarlöggjöf taki gildi á Íslandi þegar ný reglugerð Evrópusambandsins um persónuvern leysir af hólmi núgildandi löggöf. Þar sem sveitarfélög vinna með persónuupplýsingar hvetur Sambandið öll sveitarfélög til þess að hefja undirbúning vegna gildistöku laganna nú þegar. M.a er gert ráð fyrir að allar opinberar stofnanir hafi sérstakan persónuverndarfulltrúa.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til fræðsluráðs og UT-teymis.

Fræðsluráð - 212. fundur - 11.01.2017

Á fundi sínum 21. desember 2016 vísaði Byggðaráð bréfi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsettu þann 6. desember, til úrvinnslu í fræðsluráði og UT-teymi Dalvíkurbyggðar. Í bréfinu kemur m.a. fram að starfshópur um skoðun á skráningum upplýsinga um nemendur grunnskóla í rafræn upplýsingakerfi hefur lokið störfum. Sveitarfélög eru hvött til að hefjast þegar handa við að aðlaga framkvæmd við skráningu og meðferð persónuupplýsinga í grunnskólum í samræmi við tillögur starfshópsins.
Fræðsluráð felur Hlyni Sigursveinssyni, sviðsstjóra fræðslu og menningarmála, að vinna málið áfram og leggur til að Dalvíkurbyggð tilnefni væntanlegan persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins hið fyrsta til að vinna að málinu með honum og UT teyminu. Sviðsstjóri upplýsi fræðsluráð um framgang mála og næstu skref að loknum fyrsta fundi hans með UT teyminu.
Drífa, Freyr og Þuríður fóru af fundi klukkan 9:30.

Byggðaráð - 854. fundur - 01.02.2018

Á 806. fundi byggðaráðs þann 21. desember 2016 var eftirfarandi bókað:

"Tekið fyrir bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett þann 6. desember, þar sem m.a. kemur fram að starfshópur um skoðun á skráningum upplýsinga um nemendur grunnskóla í rafræn upplýsingakerfi hefur lokið störfum en hópurinn var stofnaður hinn 3. nóvember 2015 í kjölfar álits Persónuverndar í máli nr. 2015/1203. Sveitarfélög eru hvött til að hefjast þegar handa við að aðlaga framkvæmd við skráningu og meðferð persónuupplýsinga í grunnskólum i samræmi við tillögur starfshópsins. Einnig kemur fram að á árinu 2018 er áætlað að ný persónuverndarlöggjöf taki gildi á Íslandi þegar ný reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd leysir af hólmi núgildandi löggöf. Þar sem sveitarfélög vinna með persónuupplýsingar hvetur Sambandið öll sveitarfélög til þess að hefja undirbúning vegna gildistöku laganna nú þegar. M.a er gert ráð fyrir að allar opinberar stofnanir hafi sérstakan persónuverndarfulltrúa.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að vísa ofangreindu til fræðsluráðs og UT-teymis."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdu leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi ofangreint verkefni, skref fyrir skref.

Upplýst var á fundinum í hvaða farvegi vinnu Dalvíkurbyggðar er hvað varðar undirbúning fyrir nýja persónuverndarlöggjöf.

Lagt fram til kynningar.

Byggðaráð - 860. fundur - 15.03.2018

Til umræðu kaup á þjónustu frá verktaka vegna innleiðingar á nýrri persónuverndarlöggjöf.

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs gerði grein fyrir fundi vinnuhóps og stöðu mála hvað varðar undirbúning innleiðingar.
Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að fela sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs ásamt vinnuhópnum að vinna áfram að málinu.

Byggðaráð - 861. fundur - 28.03.2018

Tekið fyrir frétt frá Dómsmálaráðuneytingu, dagsett þann 13. mars 2018, er varðar kynningu á drögum á frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga. Frestur til umsagna var til 19. mars s.l.

Til umræðu ofangreint.
Lagt fram til kynningar.

Byggðaráð - 871. fundur - 12.07.2018

a) Á 861. fundi byggðaráðs þann 28. mars 2018 var eftirfarandi bókað:

"Tekið fyrir frétt frá Dómsmálaráðuneytingu, dagsett þann 13. mars 2018, er varðar kynningu á drögum á frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga. Frestur til umsagna var til 19. mars s.l. Til umræðu ofangreint.
Lagt fram til kynningar."

Með fundarboði byggðaráðs fylgdi rafpóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsettur þann 13. júní 2018, þar sem fram kemur að ný persónuverndarlög hafa verið samþykkt og taka gildi 15. júlí n.k.

Vill sambandið benda á eftirfarandi tékklista sem var hluti af grein sem birtist í fréttablaðinu 25. maí sl. en þar sagði m.a.:

"Því væri ekki úr vegi að nýir sveitarstjórnarmenn sem taka sæti að loknum sveitarstjórnarkosningum á morgun fari hið fyrsta yfir stöðu mála í sínu sínu sveitarfélagi og kanni þá m.a. eftirfarandi:

Er kominn persónuverndarfulltrúi hjá sveitarfélaginu, sem uppfyllir þær ríku kröfur sem gerðar eru í lögunum?
Hefur vinnsla sveitarfélagsins verið skoðuð og vinnsluskrá gerð?
Hafa öryggiskerfi og skjalakerfi sveitarfélagsins verið skoðuð m.v. kröfur í nýjum lögum?
Hafa samningar við vinnsluaðila verið yfirfarnir?
Hefur sveitarfélagið sett sér persónuverndarstefnu og önnur skjöl sem lögin gera ráð fyrir?
Er sveitarfélagið með áætlun um innleiðingu og hlýtingu?"

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs gerði grein fyrir í hvaða farvegi ofangreind vinna og innleiðing er hjá Dalvíkurbyggð en vinnuhópur vegna innleiðingar á nýrri persónuverndarlöggjöf fundaði s.l. þriðjudag með lögmönnum frá PACTA en samið var við fyrirtækið á síðari stigum um aðstoð við innleiðingarferlið.

b) Vinnuhópur Dalvíkurbyggðar um innleiðingu á nýrri persónuverndarlöggjöf leggur til að samið verði við PACTA um persónuverndarfulltrúa fyrir Dalvíkurbyggð, sbr. meðfylgjandi samningsdrög. Senda þarf tilkynningu til Persónuverndar fyrir 15. júlí n.k. um hver sé persónuverndarfulltrúi sveitarfélagsins.
a) Lagt fram til kynningar.
b) Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að samið verði við PACTA um starf persónuverndarfulltrúa fyrir Dalvíkurbyggð á grundvelli fyrirliggjandi samningsdraga.