Samningur um heilsueflandi samfélag

Málsnúmer 201410137

Vakta málsnúmer

Ungmennaráð - 3. fundur - 16.10.2014

Dalvíkurbyggð mun skrifa undir samstarfssamning við Embætti Landlæknis um heilsueflandi samfélag fimmtudaginn 23. október nk. Næsta vika verður heilsuvika í íþróttamiðstöðinni og frítt í sund og rækt. Ungmennaráð leggur til að skoðaður verði mögleikinn á að íþróttafélögin haldi opna kynningartíma til að kynna sína íþrótt fyrir íbúum og þar með auka líkurnar á því að fleiri stundi viðkomandi íþrótt.

Íþrótta- og æskulýðsráð - 62. fundur - 11.11.2014

Dalvíkurbyggð og Embætti landlæknis hafa gert með sér samstarfssamning um þróunarverkefnið Heilsueflandi samfélag. Verkefnið miðar að því að efla lýðheilsu og lífsgæði íbúa Dalvíkurbyggðar með markvissum þverfaglegum heilsueflingaraðgerðum.

Markmið verkefnisins eru að:
a)
Koma á fót heilsueflandi samfélagi með öflugu lýðheilsustarfi í þágu fólks á öllum æviskeiðum
b)
Nýta fjölbreyttar, markvissar og heildrænar aðgerðir til að auðvelda fólki að taka heilsusamlegar ákvarðanir og lifa heilbrigðu lífi.
c)
Vekja athygli á og draga úr ójöfnuði hvað varðar heilbrigði og lifnaðarhætti.
d)
Draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.

Verkefnið miðar að því að þróa samfélagslegan ramma utan um markvissa og heildræna heilsueflingu allra aldurshópa. Hann mun innihalda m.a. gátlista, viðmið og árangursmat auk tækja og tóla í verkfærakistu "Heilsueflandi samfélags" sem nýst getur í öðrum samfélögum á Íslandi.

Samstarfið beinist einkum að áhrifaþáttum heilbrigðis sem eru lagðir til grundvallar eftirfarandi fjórum áhersluþáttum:
Hreyfing
Næring
Líðan
Lífsgæði

Samningurinn lagður fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsráð leggur áherslu á að starfshópur skili innleiðingaráætlun fyrir fyrsta árið í desember.