Föst starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri

Málsnúmer 202311019

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn - 362. fundur - 07.11.2023

Með fundarboði sveitarstjórnar fylgdu upplýsingar um þingsályktunartillögu um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/154/327/?ltg=154&mnr=327
Til máls tók:

Forseti sveitarstjórnar, sem leggur fram eftirfarandi tillögu að bókun:
"Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar fagnar framkominni þingsályktunartillögu um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Að mati sveitarstjórnar væri þetta skynsamleg og tímabær ráðstöfun til að tryggja betur öryggi fólks víða um land, en eins og fram kemur í umsögn Landhelgisgæslu Íslands um sama mál þá yrði þetta stórt framfaraskref í viðbragðs-, öryggis,- og eftirlits- og björgunarmálum þjóðarinnar. Þannig myndi neyðar- og viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar við íbúa um land allt stóraukast, einkum á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi, á hálendinu og miðum landsins.
Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar bendir einnig á niðurstöðu vísindarannsóknar teymis Dr. Björns Gunnarsson yfirlæknis sjúkraflugs og Dósents við Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri. Þar er stuðst við gögn frá Hagstofu Íslands um búsetu allra landsmanna og einnig gögn frá Neyðarlínu um staðsetningar útkalla í fyrsta forgangi á sjö ára tímabili. Niðurstaðan er að viðbragðstími innan 60 mínútna færi úr 62% dekkunar fyrir eina starfsstöð eins og í dag í 94% dekkun fyrir seinni starfsstöð á Akureyri.
Sveitarstjórn telur því ekki skynsamlegt að hafa allar þyrlur landhelgisgæslunnar staðsettar á sama landsvæði. Björgunarþyrla á Akureyri myndi ekki bara styrkja innviði neyðar- og viðbragðsþjónustu á því svæði sem betur verður þjónustað heldur skapast tækifæri til að koma á landsdekkandi sérhæfðu neyðar- og björgunarviðbragði með markvissu samstarfi viðbragðsaðila og þjálfun þeirra.
Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar skorar á Alþingi að afgreiða þetta mál sem allra fyrst á jákvæðan hátt, enda myndi föst viðvera þyrlusveitarinnar á Akureyri einfaldlega geta bjargað mannslífum."


Fleiri tóku ekki til máls.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum ofangreinda tillögu forseta sveitarstjórnar.