Frá starfsfólki Dalvíkurskóla, skólahald án húsvarðar

Málsnúmer 202106056

Vakta málsnúmer

Byggðaráð - 989. fundur - 24.06.2021

Undir þessum lið sátu fundinn Dagbjört Sigurpálsdóttir, Þórunn Andrésdóttir, Felix Rafn Felixsson, Sigríður Jódís Gunnarsdóttir sem kjörnir fulltrúar úr sveitarstjórn og fræðsluráði kl. 15:05.

Tekið fyrir erindi frá Kötlu Ketilsdóttur, kennara við Dalvíkurskóla, bréf dagsett þann 11. júní 2021 fyrir hönd 35 annarra starfsmanna, þar sem spurt er út í þarfagreiningu verkefna vegna niðurlagningar á starfi húsvarðar við Dalvikurskóla. Fram kemur að starfsfólk skólans hefur ekki orðið þess vart að sú þarfagreining hafi farið fram. Fram kemur að byggingin hefur drabbast hratt niður og að starfsmenn sjái afleiðingar þess á hverjum degi. Vísað er einnig í erindi starfsmanna skólans frá 7. júní sl. um versnandi skólabrag í Dalvíkurskóla. Fram kemur að starfsfólk Dalvíkurskóla hvetur sveitarstjórn að endurskoða sína fyrri ákvörðun og að ráðið verði í stöðu húsvarðar fyrir skólaárið 2021-2022; því fullreynt sé að hafa skólann án húsvarðar.
Byggðaráð fór yfir fyrirliggjandi þarfagreiningu sem var unnin sl. sumar eftir bréf frá starfsfólki skólans. Byggðaráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að skólastjórnendur kynni þarfagreininguna fyrir öllu starfsfólki skólans strax við upphaf skólaárs í haust þannig að verkefnin fari í þann farveg sem ákveðið var með skipulagsbreytingu á vordögum 2019. Einnig samþykkir byggðaráð að starfslýsingar verði endurskoðaðar, eftir því sem við á, þannig að þær endurspegli niðurstöður þarfagreiningarvinnunnar.

Byggðaráð ítrekar enn að verði það mat skólastjórnenda eftir þessa vinnu að bæta þurfi við allt að 0,5 stöðugildi við stofnunina vegna út af standandi verkefna, þá verði litið til þess með jákvæðum hætti. Um væri þá að ræða verkefni sem falla utan viðhalds.

Byggðaráð samþykkir að fara í vettvangsskoðun um Dalvíkurskóla, ásamt skólastjórnendum og deildarstjóra EF-deildar, til að taka út ásýnd húsnæðisins og ástand búnaðar og undirbúa þannig mat á þörf til búnaðarkaupa á fjárhagsáætlun næstu ára.

Byggðaráð - 990. fundur - 01.07.2021

Í lok fundarins fór byggðaráð í vettvangsferð um húsnæði Dalvíkurskóla með deildarstjóra Eigna- og framkvæmdadeildar, sviðsstjóra Fræðslu- og menningarsviðs, skólastjóra og sveitarstjóra. Ferðin er farin eftir ábendingar kennara, til að taka út ásýnd húsnæðisins og ástand búnaðar og undirbúa þannig mat á þörf til búnaðarkaupa á fjárhagsáætlun næstu ára.
Byggðaráð samþykkir að fela deildarstjóra EF-deildar að fá úttekt fagaðila á lýsingu í skólahúsnæðinu og að gerð verði áætlun um LED væðingu í öllum skólanum.

Byggðaráð samþykkir að fela skólastjóra að uppfæra áætlun um endurnýjun búnaðar fyrir vinnu við fjárhagsáætlun 2022 og þriggja ára áætlun 2023-2025.