Frá Arctic Sea Tours ehf., Farþegagjald og umfjöllun veitu- og hafnaráðs

Málsnúmer 201705175

Vakta málsnúmer

Byggðaráð - 823. fundur - 01.06.2017

Undir þessum lið kom á fund byggðaráðs Þorsteinn K. Björnsson, sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs, kl. 10:12.

Á 62. fundi veitu- og hafnaráðs þann 12. maí 2017 var eftirfarandi bókað:
"Á 55. fundi ráðsins var fjallað um „Farþegagjald, upplýsingaskylda aðila í ferðaþjónustu.“ Þar kom eftirfarandi fram:
„Umræður hafa verið innan veitu- og hafnaráðs hvernig upplýsingaskyldu fyrirtækja í ferðaþjónustu sem nýta sér aðstöðu hjá Hafnasjóði Dalvíkurbyggðar er háttað.
Veitu- og hafnaráð samþykkir að frá og með áramótum skal ferðaþjónustuaðilum sem greiða farþegagjald til Hafnasjóðs Dalvíkurbyggðar gert skylt að senda rafpóst við brottför skips þar sem fram kemur skipsnúmer ásamt fjölda farþega um borð.“
Á 286. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var 22.11.2016 var eftirfarandi fært til bókar: 'Bjarni Th. Bjarnason, sem leggur fram eftirfarandi tillögu:
„Forsvarsfólk hvalaskoðunarfyrirtækja í Dalvíkurbyggð hefur mótmælt samþykkt veitu- og hafnaráðs frá 9. nóvember sl. og telur að það fyrirkomulag sem lagt er til um upplýsingaskyldu sé illframkvæmanlegt þ.e. að senda inn tölur um farþegafjölda fyrir hverja ferð. Sveitarstjórn leggur til að veitu- og hafnaráð taki málið upp að nýju og leiti leiða til að koma á fyrirkomulagi sem jafnt hafnasjóður og ferðaþjónustuaðilar geta sætt sig við.“
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum ofangreinda tillögu sveitarstjóra.'

56. fundi veitu- og hafnaráðs sem haldinn var 7. desember 2016 undir 3. tl. var farþegagjaldið einnig til umræðu.
Á framangreindum fundi var eftirfarandi samþykkt. „Veitu- og hafnaráð samþykkir að formaður og sviðsstjóri boði hagsmunaaðila til fundar um ofangreint málefni og leggi fram tillögu að lausn málsins á næsta fund ráðsins.“

Sveitarstjóri og sviðsstjóri áttu fund með hagsmunaaðilum 27. mars. Á þeim fundi var til umræðu hvernig best væri staðið að málum með tilkynningu á farþegafjölda hvalaskoðunarfyrirtækja. Fundarmenn urðu ásáttir um að leggja það til við veitu- og hafnaráð að sendur verði rafpóst, í síðasta lagi 5. dag hvers mánaðar, með farþegafjölda nýliðins mánaðar til yfirhafnavarðar.

Veitu- og hafnaráð getur ekki samþykkt tillögu að fyrirkomulagi sem sett er fram eftir fund með hagsmunaaðilum þann 27. mars og samþykkir að óska eftir að þeir hagsmunaaðilar, sem um ræðir, mæti á næsta fund veitu- og hafnaráðs til umræðu um skráningu farþegagjalda.


Veitu- og hafnaráð samþykkir samhljóða þá túlkun á farþegagjaldi að greiða beri af öllum farþegum sem í ferð fara. Samantekt af fjölda farþega verði skilað í síðasta lagi 5. dag hvers mánaðar til yfirhafnavarðar þar sem sundurliðað verði fjöldi ferða og farþegafjöldi í hverri ferð. Sviðsstjóri mun senda til ferðaþjónustuaðila skema til útfyllingar."


Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi frá Frey Antonssyni f.h. Arctic Sea Tours ehf., bréf móttekið með rafpósti þann 30.05.2017, þar sem bréfið er sent til byggðaráðs vegna umfjöllunar veitu- og hafnaráðs um farþegagjald og framkomu við hvalaskoðunarfyrirtækin í Dalvíkurbyggð. Fram kemur m.a. að það sé ósk framkvæmdastjóra Arctic Sea Tours ehf að byggðaráð og sveitarstjórn vindi ofan af þessari tortryggni og leiðindum sem koma ítrekað fram í veitu- og hafnaráði gagnvart frambærilegum, heiðarlegum og traustum fyrirtækjum í Dalvíkurbyggð. Það er von hans að Arctic Sea Tours geti byggt enn frekar upp starfsemi sína á Dalvík og fái til þess skilning og sanngirni frá sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar.

Til umræðu ofangreint.

Þorteinn vék af fundi kl. 10:22.

Byggðarráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að leggja til við sveitarstjórn að höggva á þann hnút og ósætti sem ríkir um farþegagjald í hvalaskoðun í Dalvíkurbyggð vegna umfjöllunar og afgreiðslu veitu- og hafnarráðs á 62. fundi ráðsins þann 12. maí og bréf frá Frey Antonssyni framkvæmdastjóra Arctic Sea Tours ehf. þann 30. maí. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn eftirfarandi tillögu:

Farþegagjald sé greitt af öllum borgandi farþegum og að samantekt af fjölda farþega verði skilað í síðasta lagi 5. dags hvers mánaðar til yfirhafnarvarðar. Ef þörf er á, af einhverjum ástæðum, getur yfirhafnavörður og sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs fengið nánari upplýsingar um fjölda farþega ákveðinn dag eða daga, samsetningu hvað varðar aldur eða hvað annað sem gæti þurft að nálgast vegna umferðar um höfnina.

Veitu- og hafnaráð - 63. fundur - 14.06.2017

Silja Pálsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa máls kl. 7:55 og kom til fundar aftur kl. 8:23.
Farþegagjald hefur verið til umfjöllunar hjá veitu- og hafnaráði, sjá 62. fund ráðsins, 1. tl. þar sem málið er ítarlega reifað. Hér fyrir neðan er inngangur og bókun 823. fundar byggðarráðs.

"Með fundarboði byggðaráðs fylgdi erindi frá Frey Antonssyni f.h. Arctic Sea Tours ehf., bréf móttekið með rafpósti þann 30.05.2017, þar sem bréfið er sent til byggðaráðs vegna umfjöllunar veitu- og hafnaráðs um farþegagjald og framkomu við hvalaskoðunarfyrirtækin í Dalvíkurbyggð. Fram kemur m.a. að það sé ósk framkvæmdastjóra Arctic Sea Tours ehf að byggðaráð og sveitarstjórn vindi ofan af þessari tortryggni og leiðindum sem koma ítrekað fram í veitu- og hafnaráði gagnvart frambærilegum, heiðarlegum og traustum fyrirtækjum í Dalvíkurbyggð. Það er von hans að Arctic Sea Tours geti byggt enn frekar upp starfsemi sína á Dalvík og fái til þess skilning og sanngirni frá sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar.

Byggðarráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að leggja til við sveitarstjórn að höggva á þann hnút og ósætti sem ríkir um farþegagjald í hvalaskoðun í Dalvíkurbyggð vegna umfjöllunar og afgreiðslu veitu- og hafnarráðs á 62. fundi ráðsins þann 12. maí og bréf frá Frey Antonssyni framkvæmdastjóra Arctic Sea Tours ehf. þann 30. maí. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn eftirfarandi tillögu:

Farþegagjald sé greitt af öllum borgandi farþegum og að samantekt af fjölda farþega verði skilað í síðasta lagi 5. dags hvers mánaðar til yfirhafnarvarðar. Ef þörf er á, af einhverjum ástæðum, getur yfirhafnavörður og sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs fengið nánari upplýsingar um fjölda farþega ákveðinn dag eða daga, samsetningu hvað varðar aldur eða hvað annað sem gæti þurft að nálgast vegna umferðar um höfnina."
Veitu- og hafnaráð samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun:
Veitu- og hafnaráð mótmælir harðlega þeirri fullyrðingu framkvæmdastjóra Arctic Sea Tours ehf að við afgreiðslu ráðsins hafi gætt "tortryggni og leiðinda".

Veitu- og hafnaráð telur að eðlilegt hefði verið að það leiddi þessi mál til lykta, en þar sem framkvæmdastjóri Arctic Sea Tours ehf og byggðarráð hafa náð samkomulagi um framkvæmd upplýsinga um farþegafjölda mun veitu- og hafnaráð ekki gera athugasemd við það.