Miðlun upplýsinga

 Meðferð persónuupplýsinga í samþættingu

Grunnhugmynd samþættingar þjónustu er að þjónustan eigi sér stað án hindrana og um leið og hennar gerist þörf. Markmiðið er að koma á samtali á milli kerfa þar sem fram fer miðlun upplýsinga um aðstæður barns. Með því móti verður þjónustan samfelld og samþætt.

Miðlun persónuupplýsinga fer ekki fram nema það liggi fyrir beiðni foreldra og/eða barns. ‍

  • Hvað er beiðni um miðlun upplýsinga?
    Það er eyðublað sem foreldri og/eða barn fyllir út sem heimilar þjónustuveitanda eða þeim sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barns að taka saman upplýsingar um aðstæður barns og miðla þeim til tengiliðar. Eyðublaðið heimilar eingöngu þessa tilteknu miðlun til þessa tiltekna tengiliðar. Tengiliður hefur ekki heimild til að hafa samband við aðra en foreldra og/eða barn þegar hann hefur móttekið upplýsingarnar.
  • Hvað er beiðni um samþættingu þjónustu?
    Það er eyðublað sem foreldri og/eða barn fyllir út þar sem óskað er eftir að þjónusta við barn verði samþætt. Beiðnin heimilar tengiliðum, málstjórum, þjónustuveitendum og þeim sem veita þjónustu í þágu farsældar barns að vinna upplýsingar um barn til að tryggja því skipulagða og samfellda þjónustu.
  • Hvernig fara allir þessir aðilar með persónuupplýsingar barns?
    Öllum sem vinna á grundvelli laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna ber að vinna með persónuupplýsingar í samræmi við lög um persónuvernd. Þá er unnið með persónuupplýsingar í samræmi við viðmið um vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli laganna sem útgefin verða af mennta- og barnamálaráðuneytinu. Þetta þýðir að öllum sem vinna með persónuupplýsingar ber skylda til að vinna einungis með upplýsingar sé lögmætur tilgangur fyrir vinnslunni, vinna einungis með þær upplýsingar sem þörf er á og miðla einungis til þeirra sem heimild er fyrir. Gæta ber öryggis persónuupplýsinganna í hvívetna.
Þjónustuveitandi, sá sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barna, tengiliðir, málstjórar og aðrir sem vinna með persónuupplýsingar á grundvelli farsældarlaga skulu upplýsa foreldra og/eða barn hvernig miðlun persónuupplýsinga fer fram í því einstaka tilviki. Upplýsa skal um það hvaða gögnum verði miðlað og hvert og hvaða öryggisráðstafana gripið er til, til þess að gæta öryggis persónuupplýsinganna.