Farsældarlögin

Öll börn eiga rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa þegar á þarf að halda. Það getur verið flókið að fá aðstoð við hæfi og vita hvert eigi að leita eftir henni.

Tekið hafa gildi lög sem styðja við farsæld barna. Þau eiga að sjá til þess að börn og for­eldrar hafi greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.

Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í heilsugæslu, skóla eða félagsþjónustu. Þar geta þau fengið aðstoð við að sækja viðeigandi þjónustu, án hindrana, á öllum þjónustu­stigum. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá félags­þjónustu eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni.

Starfsfólki sem vinnur með og fyrir börn ber að vinna saman að farsæld þeirra. Starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla, félags­þjónustu, íþrótta, tómstunda eða heilbrigðisþjónustu hefur fengið aukna ábyrgð sem felur í sér að koma auga á aðstæður barna og bregðast við strax og þörf er á.

Hér er um að ræða boð um samþættingu þjónustu fyrir foreldra og börn sé þess óskað. Samþætting kemur ekki í veg fyrir að for­eldrar sæki sjálfir þjónustu fyrir börn sín. Mark­miðið með farsældar­lögunum er að bæta enn frekar þjónustu við börn og fjölskyldur svo þau fái notið þeirrar aðstoðar sem þau eiga rétt á um leið og þess gerist þörf.

Tilgangur löggjafarinnar er að börn og fjölskyldur falli ekki á milli kerfa og séu ekki send á milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Börn eiga rétt á að segja sína skoðun um þau málefni sem hafa áhrif á líf þeirra og þau sem veita þjónustu eiga að taka tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Útgangspunkturinn í öllu sem við gerum á að vera barnið og hagsmunir þess.