Bókakynning Vilborgar Davíðsdóttur

Bókakynning Vilborgar Davíðsdóttur

Vilborg Davíðsdóttir, þjóðfræðingur og rithöfundur verður með kynningu á sinni nýjustu bók Blóðug jörð sem jafnframt er sú síðasta í þríleiknum um landnámskonuna Auði. Fyrri bækur hennar tvær, Auður og Vígroði, hlutu fádæmagóðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda og var sú fyrri tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Fyrirlestur Vilborgar fer fram í fyrirlestrarsal Menningarhússins Bergs og að fyrirlestri loknum verður hægt að nálgast árituð eintök hjá höfundi.

 

Aðeins um höfundinn:

Vilborg Davíðsdóttir (f. 1965), rithöfundur og þjóðfræðingur, hefur gert lífið á norðurslóðum á fyrri öldum að sínu sérsviði. Fyrstu skáldsögur hennar, Við Urðarbrunn (1993) og framhald hennar, Nornadómur (1994), gerast um aldamótin 900 og segja frá ambáttinni Korku Þórólfsdóttur. Þær hafa líka komið út í einu bindi undir nafninu Korku saga. Eldfórnin (1997) byggir á atburðum sem urðu í Kirkjubæjarklaustri á 14. öld þegar nunna var brennd þar á báli. Galdur (2000) gerist í Skagafirði á 15. öld þegar Englendingar réðu lögum og lofum á Íslandi. Hrafninn (2005) er byggð á heimildum um lífshætti inúíta og norrænna manna á Grænlandi um miðja 15. öld. Auður (2009) og Vígroði (2012), saga landnámskonunnar Auðar djúpúðgu, gerist á 9. öld á Suðureyjum, Írlandi og Skotlandi. Í síðustu bók sinni, Ástinni, drekanum og dauðanum (2015), segir Vilborg frá glímunni við drekann en svo nefndu þau maður hennar heilakrabba sem dró hann til dauða í blóma lífsins. Fyrir þá bók fékk Vilborg mikið lof og fjöldi fólks um land allt hefur sótt fyrirlestra hennar um gjafir sorgarinnar.

 

Um nýjustu bókina Blóðug jörð

Árið er 883. Veldi norrænna manna á Bretlandseyjum riðar til falls eftir dauða Ólafs hvíta Dyflinnarkonungs og Þorsteinn rauður berst við að halda velli á Katanesi þar sem innfæddir gerast æ herskárri. Lífið er hverfult og enginn veit Urðar hug. Á augabragði stendur Auður Ketilsdóttir ein uppi, umkringd óvinum, ábyrg fyrir lífi ungra sonarbarna. Stefnan er tekin til eylandsins á enda veraldar þar sem ár og vötn eru sögð iða af fiski, jökulhettur ber við himin og sjálf jörðin spýr eldi.

Á suðurströnd Íslands hafa þrælar gert uppreisn og goldið grimmilega fyrir. Nýja landið er vígt blóði. Einn kemst lífs úr þeim hildarleik: maður sem á harma að hefna á ætt Dyflinnarkonungs.

 

Margir hafa ljáð bókum Vilborgar góða dóma - hér má lesa þá nokkra:

„Bókin er feiknavel skrifuð, söguþráðurinn áhugaverður og lýsingar allar þannig að maður sér persónur og atburði ljóslifandi fyrir sér.”

Eyja M. Brynjarsdóttir / Druslubækur og doðrantar (um Vígroða)

„Vel grunduð þroskasaga frá upphafi níundu aldar, spennandi og forvitnilegum tíma.“

Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttablaðið (Um Auði)

„Vilborg bregður upp skýrri og grípandi mynd af persónum sínum og því lífi sem þær lifðu: Lesandinn finnur lyktina af þeim, heyrir raddir þeirra, sér þær ljóslifandi.“ Hrafn Jökulsson/ Viðskiptablaðið (um Auði

 „Bókin er afskaplega vel unnin og liggja augljóslega miklar rannsóknir og mikil vinna að baki.“ Friðrika Benónýsdóttir / Fréttablaðið (um Vígroða)

„… grípandi og spennandi …“ Kolfinna Jónatansdóttir / Spássían (um Vígroða

„Styrkur sögunnar er hin breiða samfélagslýsing og ljóst er sem fyrr að Vilborg hefur unnið heimildavinnuna vel.“ Skafti Þ. Halldórsson / Morgunblaðið (um Vígroða)