Frá Einingu-Iðju; Ráðhús Dalvíkur; sala á gangi Einingar-Iðju á 2. hæð og kaup á sameignarhluta á 3. hæð.

Málsnúmer 201211009

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Dalvíkurbyggðar - 644. fundur - 08.11.2012

Björn Snorrason kom á fundinn undir þessum lið kl. 8:35.

Tekið fyrir erindi frá Einingu-Iðju, bréf dagsett þann 5. nóvember 2012, þar sem fram kemur að Eining-Iðja óskar eftir svari um það hvort Dalvíkurbyggð sé tilbúin að kaupa hlut Einingar-Iðju í 3. hæð Ráðhússins á Dalvík á því verði sem félagið var búið að samþykkja. Einnig hvort Dalvíkurbyggð sé tilbúið að selja Einingu-Iðju hlut sveitarfélagsins í annarri hæð (gangur, geymsla, snyrting) fyrir framan séreign Einingar-Iðju á því verði sem búið var að ganga út frá.
Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að Dalvíkurbyggð kaupi eignarhluta Einingar-Iðju í sameign á 3ju hæð og að Dalvíkurbyggð selji eignarhluta sinn í gangi á 2. hæð á þeim forsendum sem um hefur verið rætt.Bæjarráð vísar ofangreindu til fasteignasala til úrvinnslu.

Bæjarráð Dalvíkurbyggðar - 650. fundur - 13.12.2012

Með fundarboði bæjarráðs fylgdu drög að kaupsamningi og afsali
a) þar sem Dalvíkurbyggð selur Einingu-Iðju eignarhluta sinn í gangi á 2. hæð. Kaupverðið er kr. 805.620.
b) þar sem Eining-Iðja selur eignarhuta sinn í sameign á 3. hæð. Kaupverðið er kr. 514.986.

a)  Bæjarráð samþykkir  drög að kaupsamningi/afsali, með fyrirvara um villur í skjali, sem gert var grein fyrir á fundinum og vísar þessum lið til afgreiðslu bæjarstjórnar.b) Bæjarráð samþykkir drög að kaupsamningi/afsali, með fyrirvara um villur í skjali, sem gert var grein fyrir á fundinum og vísar þessum lið til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Byggðaráð - 686. fundur - 19.12.2013

Sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs vék fundi undir þessum lið vegna vanhæfis.

Undir þessum lið kom á fund byggðarráðs Margrét Víkingsdóttir, upplýsingafulltrúi.

Á 683. fundi byggðarráðs þann 28. nóvember 2013 var eftirfarandi bókað:
Tekið fyrir minnisblað frá ofangreindum er varðar tillögu að leiguverði á fermetra vegna útleigu á eignarhluta Dalvíkurbyggðar í Ráðhúsi Dalvíkur á 2. hæð en húsnæðið, sem var í eigu Einingar- Iðju og verður afhent um áramótin, hefur verið auglýst til leigu frá áramótum.

Lagt er til að leiguverð verði kr. 1.400 á hvern fermetra. Innifalið í því verði hiti,rafmagn, ræsting, tryggingar og húsfélag.

Byggðarráð samþykkir samhljóða með 2 atkvæðum ofangreinda tillögu.

Með fundarboði byggðarráðs fylgdi minnisblað upplýsingafulltrúa þar sem gert er grein fyrir þeim umsóknum bárust um leigu á gangi á 2. hæð en umsóknarfrestur rann út þann 13. desember s.l. samkvæmt auglýsingu þar um.

Alls bárust 3 umsóknir:
1. Hildur Magnúsdóttir, snyrtistofa, dags. 28.11.2013. Sækir um endaskrifstofuna sem Eining-Iðja var í, til vara að halda því rými sem hún er núna í.
2. Jóna Sigurðardóttir, hárgreiðslustofan Merlín, dags. 03.12.2013. Sækir um sama rými og hún er núna í.
3. Valdemar Viðarsson, gullsmiður, dags. 06.12.2013. Sækir um að fá stærra rými.

Margrét vék af fundi kl. 08:26.
Byggðarráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum að verða við óskum umsækjanda um áframhaldandi leigu þannig að:Hildur Magnúsdóttir fái umbeðið rými, Jóna Sigurðardóttir verði i sama rými eins og óskað var og Valdemar Viðarssyni verði boðið stærra rými til leigu. 

Byggðaráð - 688. fundur - 16.01.2014

Á 686. fundi byggðarráðs var til umfjöllunar og afgreiðslu leiga á gangi á 2. hæð í Ráðhúsi Dalvíkur. 3 umsóknir bárust sem voru allir áður leigjendur hjá Einingu-Iðju og samþykkti byggðarráð áframhaldi leigu í samræmi við umsóknir.

Með fundarboði byggðarráðs fylgdi rafpóstur frá slökkviliðsstjóra, dagsettur þann 14. janúar 2014, þar slökkvilisstjóri vísar í skoðun sína hjá gullsmiði er hefur haft starfsemi í Ráðhúsinu og fram kemur að starfssemi gullsmiðs eigi ekki heima í Ráðhúsi Dalvíkur vegna notkunar á gasi, súrefni og eldi. Með vísan í gildandi byggingareglugerð þá þyrfti að gera verulegar breytingar á húsnæðinu ef vel ætti að vera.
Byggðarráð samþykkir samhljóða með 3 atkvæðum með vísan í bréf slökkviliðsstjóra að gullsmiður með starfsemi í Ráðhúsi Dalvíkur fjarlægi nú þegar þau tæki og efni sem eru talin hættuleg.